Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 19:59:41 (7749)

2001-05-14 19:59:41# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[19:59]

Karl V. Matthíasson (frh.):

Herra forseti. Ég talaði um að nú væri nefnd að störfum sem hefði það hlutverk að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Þessi nefnd hefur ekki skilað neinu áliti og eru þó næstum tvö ár liðin síðan hún tók til starfa. Ég var að nefna það áðan fyrir matarhlé að hæstv. ríkisstjórn hefði getað í einu vetfangi hrist fram úr erminni frv. til laga um kjaramál fiskimanna o.fl.

[20:00]

Það er vægast sagt furðuleg ósamkvæmni í þessu. Ein ástæðan fyrir því að svo illa gengur að semja milli sjómanna og útvegsmanna er einmitt hvernig lögin um stjórn fiskveiða eru núna. Það er ekki sátt í landinu um hvernig stjórn fiskveiða skuli háttað. Mörgum finnst algerlega út í hött að þeir sem fái veiðiheimildir til úthlutunar skuli geta leigt þær öðrum eða jafnvel selt þær öðrum. Reyndar hefur þetta fyrirkomulag skapað það, herra forseti, að íslensk útgerð og íslenskur sjávarútvegur er kominn í gríðarlegar skuldir og gríðarleg vandræði. Ef grannt er skoðað og varla grannt þá sjáum við að eins og lögin um stjórn fiskveiða virka í dag þá hafa þau verið útgerðinni böl. Eða er það ekki böl heillar atvinnugreinar sem á að vera undirstöðugrein samfélagsins eða a.m.k. burðarás samfélagsins að skuldir hennar skuli stöðugt aukast?

Hvað er til ráða annað en fara að drífa í því að nefndin skili áliti um stjórn fiskveiða og því verði breytt þannig að skuldir útgerðarinnar muni minnka, að aðstaða útgerðarinnar verði þannig að skuldirnar minnki en aukist ekki?

Íslenska þjóðin byggir afkomu sína eins og margoft hefur komið fram á fiskveiðum og það verður að ríkja friður í þessum málum en það gerir það ekki núna. Ekki mun ástandið batna við að ríkisstjórnin leggur fram þetta frv. til laga um kjaramál fiskimanna o.fl. sem banna verkfall sjómanna og verkbann útgerðarmanna sem hafa reyndar ekki lýst óánægju sinni yfir því banni. Þetta á að gilda í fjögur ár. Það er alveg ótrúlegt að svona skuli vera hægt að gera og það hlýtur að vera rétt sem hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, 9. þm. Reykv. Bryndís Hlöðversdóttir, sagði í ræðu sinni að 3. gr. frv. stangist á við ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur.

Ég fékk það á tilfinninguna, herra forseti, að ekki sé algerlega einhugur milli ráðherranna í ríkisstjórninni um frv. Mér fannst á hæstv. félmrh. eða það mátti skilja það að hann byggist ekkert síður við því að 3. gr. dytti út eða fengi einhverja breytingu enda er verið að setja gerðardómi svo mikið fyrir í þessari grein, hendur hans eru bundnar og það að þetta skuli eiga að gilda í fjögur ár er náttúrlega með endemum. Það verður örugglega komin ný ríkisstjórn eftir þennan tíma enda verður þessi ríkisstjórn hámark í tvö ár enn, það er kosið eftir tvö ár.

Sjómannsstarfið hefst í raun og veru með kveðjustund. Sjómaðurinn sem heldur til hafs kveður fólkið sitt og allir óska honum góðs, að sjóferðin gangi vel og það er alltaf ákveðin tilfinning þegar maður kemur um borð í skip sem er að hefja túrinn. Menn vona alltaf að það gangi vel og menn vona að ekki verði mikil bræla og allt eftir þessu.

En hvernig mun sjómönnum líða þegar þeir leggja frá bryggju ef þetta frv. verður að lögum? Hvaða tilfinningu munu sjómenn bera í brjósti sér eftir þá umræðu sem hér hefur verið og það sem hefur verið sagt um þá? Tekjuháir og jafnvel látið að því liggja að þeir eigi ekkert að fara í verkfall af því að þeir hafi hvort sem er svo háar tekjur og þeir séu farnir að hafa áhrif áhrif á þriðja aðila. Reyndar var aldrei nefnt að þeir hefðu áhrif á annan aðila. Kannski var það aðeins farið að bíta á annan aðila og þá náttúrlega er lagt fram frv. til laga. Kannski beit verkfallið bara á sjómennina og þriðja aðila en ekki á annan aðila, útgerðarmenn, af því að þeir hugsa kannski með sér að þeir nái því að veiða þann kvóta sem útgerðinni hefur verið úthlutað. Þess vegna segi ég að það hafi í raun og veru ekki verið farið að reyna neitt alvarlega á milli þessara tveggja aðila, fyrsta og annars aðila. Það er íhugunarefni.

Í raun og veru væri rétt hjá hæstv. ríkisstjórn að draga þetta frv. til baka. Þá gætu þingstörfin tekið á sig eðlilegri blæ og rólegri og þingið gæti sinnt þeim málum sem fyrir því lá og liggur áður en þetta frv. kom til eins og sprengja inn í þingstarfið.

Hvernig líður sjómönnum þegar þeir fara um borð í skipin þegar lögin hafa tekið gildi? Það skulum við hugsa alvarlega um. Hve oft hafa verið sett lög á verkfall sjómanna aftur og aftur og um leið og farið er að þrengja aðeins að svokölluðum öðrum aðila, útvegsmönnum, þá er hlaupið upp til handa og fóta og lagt fram frv. til að bjarga málunum. Þetta er ekki rétt. Væri ekki nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að leggja fram frv. til laga sem bannar sjómönnum fyrir fullt og allt að fara í verkfall? Væri það ekki miklu einlægara og heiðarlegra en vera sífellt að leggja fram frv. til laga um frestun verkfalls þegar til verkfalla er komið? Ég held að þeir ættu að hugsa um það, hæstv. ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn Íslands, hvort ekki væri miklu heiðarlegra að gera það en vera alltaf að þessu og að stofna til svona stöðu hvað eftir annað.

Munu sjómenn fara í verkfall eftir fjögur ár? Hvað halda menn? Hvernig svara menn því með sjálfu sér? Það má reikna með því að ... (Gripið fram í: Í hljóði.) Já, þeir verða að svara því í hljóði, a.m.k. þeir sem styðja ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Með sjálfum sér, já. Hvernig vilja menn sjá það fyrir sér eftir fjögur ár þó að það sé vandi að sjá svo langt fram í tímann? Mun verða búið að setja ný lög um stjórn fiskveiða? Það er ekki að sjá af þessu frv. og af því að það er lagt fram að menn geri ráð fyrir því að endurskoðunarnefndin verði búin að skila af sér þá.

Herra forseti. Ég vona að 3. gr. frv. verði felld niður í það minnsta. Það er lýðræði í landinu og við virðum það og ríkisstjórnin leggur frv. fyrir Alþingi og það lítur út fyrir að meiri hluti Alþingis ætli að samþykkja þetta frv. en ég hvet hæstv. ríkisstjórn og þingmenn til að fella út 3. gr., a.m.k. þá liði hennar sem lúta að því að gerðardómur skuli taka mið af samningi sem gerður var núna milli samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. Ég held að menn hljóti að hugsa mjög alvarlega um það.