Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 21:15:39 (7758)

2001-05-14 21:15:39# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[21:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en að umræðurnar sem hér hafa staðið í allan dag um þetta mál hafi dregið ýmislegt athyglisvert fram. Hér hafa komið í pontu nokkrir talsmenn stjórnarliðsins, þar á meðal tveir ef ekki þrír hv. þm. Sjálfstfl. og flutt stórbrotnar ræður um virðingu sína og aðdáun á sjómannastéttinni, um mikilvægi sjómennskunnar og sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið og um leið nauðsyn þess að setja lög á sjómenn, taka af þeim samnings- og verkfallsrétt og berja þá niður eftir að þeir hafa háð langa kjaradeilu.

Vert væri, herra forseti, að gera ofurlitla úttekt á þessum málflutningi og fara aðeins yfir það hvernig þessir þingmenn gera hosur sínar grænar fyrir sjómönnum og fylgi við sjávarsíðuna. Þeir ætlast auðvitað til að þeir séu kosnir unnvörpum þegar kemur að kosningum en í reynd styðja þeir, að því er virðist án þess að verða sérlega óglatt, aðgerðir af því tagi sem hér standa til, að taka verkfalls- og samningsrétt af sjómannastéttinni í tæpan hálfan áratug, sem eru auðvitað þvílík fádæmi að það er leitun að öðru eins á byggðu bóli.

Það var líka athyglisvert, herra forseti, sem hér kom fram þegar hæstv. félmrh. sté í pontu. Hann lýsti miklum efasemdum, ef ég leyfi mér að orða það svo, eða gaf a.m.k. í skyn að hann hefði verulegar efasemdir um að frv., eins og það liggur fyrir, stæðist. Hann taldi að í því væru atriði sem nauðsynlegt væri að skoða og þingið þyrfti að ganga þannig frá málinu að það yrði í lagi. Hæstv. ráðherra lýsti því jafnframt yfir að félmrn., sem fer með vinnumarkaðsmál og á að gæta þess að staðið sé við lög, stjórnarskrárlög og alþjóðlegar skuldbindingar, hefði ekki skoðað þetta mál fyrr en í dag en Fjárlaga- og hagsýslustofnun hafði haft tíma til að veita umsögn um það strax á laugardaginn var. Þetta eru merkileg vinnubrögð.

Hvernig í ósköpunum stóð á því, úr því að hæstv. sjútvrh. hefur upplýst að hann hafi ekki þorað annað en að hafa frv. tilbúið, jafnvel talið ábyrgðarleysi að eiga ekki alltaf á lager nokkur frv. um lög á helstu stéttir ef á þyrfti að halda þannig að það þurfi ekki að bíða eftir þeim nema bara til að ljósrita þau, að félmrn. og sérfræðingar á sviði vinnuréttar voru ekki búnir að fara yfir málið? Nei, hér er eitthvað mjög skrýtið á ferðinni, herra forseti, sem segir sína sögu um vinnubrögð í þessari ríkisstjórn.

Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar er ekki að koma að þessari deilu í fyrsta sinn. Það voru sett lög á sjómenn í mars og verkfalli frestað. Það blasir náttúrlega við hverjum manni að það var mikið óheillaspor. Mjög sennilega hefur það orðið þess valdandi að menn eru nú komnir í þá stöðu sem raun ber vitni. Flestir sem ég hef talað við hafa metið stöðuna þannig að ef menn hefðu fengið frið, undir vaxandi þrýstingi í marsmánuði sl., til að leysa sín mál þá hefðu menn gert það. Útvegsmenn hefðu þá kannski loksins farið að hugsa sinn gang og sýna raunverulegan samningsvilja. Það er ekki hægt að segja að þeir hafi gert það. Maður spyr sig náttúrlega: Var nokkur ástæða til þess af þeirra hálfu, þegar þeir hafa þetta á bak við sig sem þeir geta alltaf reitt sig á, að ríkisstjórnin komi þeim til hjálpar og setji lög?

Það ómerkilegasta, herra forseti, sem hefur komið fram í umræðunni í dag --- það fullyrði ég alveg hiklaust --- eru tilraunir ákveðinna þingmanna til að gera lítið úr forustu sjómanna. Það er langt síðan ég hef heyrt jafnómerkilegan málflutning og þann sem kom fram í máli nokkurra þingmanna Sjálfstfl., að það væri alveg sérstaklega tortryggilegt að sjómenn og forustumenn sjómanna skyldu ekki hafa náð að gera kjarasamninga fyrir þeirra hönd í heil tíu ár. Það var nánast persónugreint, að einstakir forustumenn hefðu aldrei náð í sinni formannstíð að skrifa undir kjarasamninga. Ætli við vitum ekki um hvern þeir eru að tala? Menn höfðu samt ekki kjark í sér til að nafngreina manninn, hv. þm. Árni Johnsen eða hv. þm. Kristján Pálsson. Þeir fóru í kringum grautarskálina þegar kom að því að nafngreina þá sem þeir voru að ata auri úr ræðustóli.

En hverjir hafa farið með landstjórnina, herra forseti, þessi sömu tíu ár? Við hverja hefur verið að eiga? Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., og ríkisstjórnir hans. Það eru þær sem hafa endurtekið sett lög á sjómenn og þeir þar af leiðandi ekki, einmitt þessi sömu tíu ár sem verið var að halda upp á á kostnað þjóðarinnar um daginn, valdatíma Davíðs Oddssonar, haft tök á að klára sín mál. Þeir hafa aldrei fengið frið til þess. Menn sem núna tilheyra stjórnarliðinu töldu, svo seint sem á árinu 1998, þetta mikla óhæfu sem þá varð, að sjómenn skyldu ekki fá að klára sín mál. Það væri fróðlegt, herra forseti, að vita hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem nú er í Framsfl. það ég best veit, gott ef ekki formaður þingflokksins þar, kannast við orð sín hér frá því í mars 1998. Hann fór þá hörðum orðum um þær fyrirætlanir ríkisstjórnar að setja þá lög á sjómenn. Hann hafði þá, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fullan skilning á því að verkföll hafa í eðli sínu áhrif.

Þá rauk ríkisstjórn til og setti lög á sjómenn með þeim rökum að verkfallið hefði áhrif. Það var ekki hægt að láta þetta verkfall standa því að það hafði áhrif á fiskvinnsluna, hún fékk ekki hráefni. Þess vegna þótti þörf á að setja lög á sjómenn. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu að í raun væri ríkisstjórnin þar með að segja að sjómenn ættu ekki að hafa samnings- og verkfallsrétt, af því að ef þeir beittu verkfallsvopninu hefði það áhrif. Ég hef aldrei heyrt að það sé mikið gagn að verkfallsvopni nema það hafi einhver áhrif. Menn fara í verkfall í þeim tilgangi að þrýsta á um kröfur sínar, með þeim eina hætti sem menn geta, þ.e. að beita samstöðu sinni og leggja niður vinnu.

Tal manna hér um að það séu eitthvað sérstakar eða afbrigðilegar aðstæður uppi að þessu leyti hittir sjálft sig fyrir. Annaðhvort hafa stéttir þennan rétt eða þær hafa hann ekki. Menn hafa víðast hvar á byggðu bóli komist að þeirri niðurstöðu að ákveðnir hlutir í samfélaginu séu þannig að óumflýjanlegt sé að ganga öðruvísi frá kjara- og starfsréttindamálum stétta sem þar vinna, á lykilpóstum í samfélaginu getum við sagt. En hvað gera menn þá í staðinn? Þá ganga menn frá því að óháður úrskurðaraðili, eins og Kjaradómur eða einhver slíkur, tryggi að viðkomandi stéttir fái mannsæmandi kjör þó að þær hafi ekki verkfallsréttinn. Það er þannig sem við gerum þetta í siðuðum samfélögum. Við skilgreinum hvaða stéttir það eru, oft fámennar stéttir sem sitja á einhverjum lykilpóstum samfélagsins, sem eru í þannig aðstöðu að verkfallsvopnið gengur í raun og veru ekki upp, það mundi snúast í höndum þeirra og jafnvel verða þeim stéttum sjálfum fyrir verstu. Ástæðurnar kunna líka að varða rekstur grundvallarþátta í samfélaginu, öryggisgæslu, löggæslu og lágmarkssjúkraþjónustu. Við verðum að ganga einhvern veginn þannig frá því að sú starfsemi lamist ekki. En þá tryggjum við þessum stéttum í staðinn einhvern annan umbúnað um kjaramál sín þannig að þær séu sæmilega settar.

Það hefur ekki verið gert gagnvart sjómönnum. Þeir hafa þennan rétt óskertan og ótakmarkaðan, nema af þeim stjórnvöldum sem taka hann af þeim aftur og aftur. Það er óheiðarlegt að láta heita svo að sjómenn eigi að semja um kjör sín sjálfir og hafi til þess full réttindi en virða svo aldrei þann rétt eins og þetta hefur gengið. Það kemur úr hörðustu átt þegar stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar, sem aftur og aftur hafa upphafið þennan rétt sjómanna, ráðast að forustumönnum sjómanna fyrir að hafa ekki gert samninga á þeim árum sem þeir hafa ekki fengið frið til þess. Það var reynt í dag að gera lítið úr tilteknum kjörnum trúnaðarmönnum sjómannaforustunnar með þessum aðferðum. Það var lágkúrulegt, herra forseti, og er maður þó ýmsu vanur af þeim hv. þm. sem þarna dömluðu árunum.

Herra forseti. Um þetta allt mætti margt segja en tíminn leyfir ekki að gera því skil eins og vert og skylt væri. Ég vísa varðandi einstök efnisatriði málsins til þess sem ég sagði í fyrri minni ræðu í dag. Ég vil þó taka fram um 3. gr. frv. og hin dæmalausu ákvæði hennar sem hafa verið mönnum mikið umfjöllunarefni, sem er skiljanleg því að þar náttúrlega er farið þvílíku offari, að ég hygg að hæstv. ríkisstjórnin sjálf sé að átta sig á því að hún er þar komin út í mitt fenið. Ég spái því að að endingu muni hún sjá sér þann kost vænstan að skera sjálfa sig niður úr snörunni og breyta þessum ákvæðum.

Ákvæði 3. gr. eru þó ekki það versta í þessu frv. Það skal enginn taka orð mín þannig. Það versta er gjörningurinn sjálfur og allt þetta sjónarspil sem sett hefur verið á fót í kringum málið, með inngripunum í marsmánuði og öllum tilraununum á bak við tjöldin undanfarna daga og vikur til að sundra samstöðu sjómanna o.s.frv. Þessa hluti þekkja þeir sem til þekkja á bak við tjöldin og vita til hvers er vísað. Með markvissum hætti hefur undanfarnar vikur verið reynt að rótast í þessum málum og spilla samstöðu sjómanna með ýmsum vægast sagt hæpnum aðferðum. Þannig hafa menn reynt að þvinga fram þróun í þessari deilu sem átti fyrst og fremst að gagnast öðrum aðilanum, þeim sem stjórnvöld hafa hlaupið undir bagga með. Þar af leiðandi er sama hvernig á málið er litið, hvort sem það er umgjörðin sem sköpuð hefur verið, eða réttara sagt ekki sköpuð til að þessir aðilar gætu á hlutlausum grundvelli tekist á um sín mál. Inngrip stjórnvalda og framkomu á allan hátt ber að sama brunni, réttindi sjómannanna og staða þeirra eru víkjandi í öllum tilvikum.

Það er auðvitað ekki von, herra forseti, að byrlega blási í greininni og vel gangi að manna skip og fá ungt fólk til þess að afla sér menntunar á þessu sviði og binda vonir við bjarta framtíð sem starfandi sjómenn í landinu þegar kjarabarátta þeirra hefur gengið þannig fyrir sig. Ungt fólk á framhaldsskólaaldri, um tvítugt, man ekki annað frá því að það fór að muna eftir sér en að öll kjaramál sjómanna hafi gengið til með þessum ósköpum. Í 18 ár hefur þjóðin verið rifin í sundur í deilum um kvótakerfið og þá hluti. Þannig er að verða liðinn þriðjungur, fjórði partur af mannsaldri frá því að þær deilur hófust og sú kynslóð sem vaxið hefur upp á þeim tíma man ekki annað en logandi deilur um undirstöðumálefni þessarar greinar, fiskveiðistjórnina, sjávarútvegsstefnuna og kjaramál þeirra stétta sem þarna starfa, að viðbættum ýmsum öðrum þáttum sem einnig hafa virkað neikvætt, t.d. staðan í sjávarbyggðunum og sú röskun sem þar hefur orðið.

Herra forseti. Þetta er ekki sérlega gæfulegt. Ég verð að segja að það er heldur dapurlegt þegar maður er, mér liggur við að segja kominn á gamals aldur í pólitík, búinn að taka þátt í umræðum um þessi mál hér í tæpa tvo áratugi að hafa aldrei fengið að upplifa aðra tíma en þá að með reglubundnu millibili, annað hvort ár eða svo að meðaltali, hafi verið hörð átök um lög á sjómannatéttina eða aðra hópa og árlegar deilur um stjórnkerfi fiskveiða, dómsmál, brot á stjórnarskrá o.s.frv. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig. Það er ekki gaman eða gæfulegt fyrir þjóð sem enn lifir á sjávarútvegi, a.m.k. muna menn eftir því að sjávárútvegurinn sé mikilvægur þegar rökstyðja þarf að setja þurfi lög á sjómenn. (Gripið fram í: Ekki þessi ríkisstjórn.)

[21:30]

Jú, þessi stjórn mundi allt í einu eftir því á laugardaginn var að sjávarútegurinn væri mikilvægur. Hv. þm. Árni Johnsen mundi svo eftir því í dag, eftir hádegi. Hann var þá mikill vinur sjómanna og stærði sig mjög af því hvað hjarta hans slægi með þeim.

Herra forseti. Ég held að ég fari að láta þessu lokið að sinni. Best er að sjá hverju fram vindur í málinu. Mín skoðun er sú að það eigi bara að henda þessu frv., það sé hrein óhæfa og að allt sé betra en að setja þessi lög. Ég tel að allt annað væri betra fyrir alla aðila málsins. Ég held að það sé miklu betra fyrir sjómenn að reyna með öðrum ráðum að ná árangri í kjarabaráttu sinni fremur en þurfa að sæta þeim ósköpum, eftir langar og erfiðar verkfallsaðgerðir, að fá þetta í hausinn og breytti svo sem litlu þó að einhverjar lagfæringar yrðu gerðar á frv. Ég tel sjálfan gjörninginn eins og hann liggur fyrir óhæfu í öllu tilliti.

Herra forseti. Það er heldur ekki um það að ræða eins og málin stóðu að neinn grundvöllur væri til lagasetningar sem hefði sanngjarnar efnislegar stoðir. Það er ekki þannig. Menn hafa auðvitað stundum orðið að sætta sig við að fullreynt og þrautreynt hafi verið að ekki náðust endanlega saman hlutir. En þá var efnislegur grunnur til þess að taka einhvern veginn á deilunni vegna þess að fyrir lá sáttatillaga sem lítið vantaði upp á að væri samþykkt eða annað í þeim dúr. Með sanngjörnum og eðlilegum hætti var þá kannski verjanlegt að grípa inn í gagnvart þeim þáttum sem út af stóðu, afgreiða einhver hliðarmál, ganga frá þeim með lögum o.s.frv., eins og við þekkjum.

En það er engu slíku til að dreifa hér og það er ekki einu sinni reynt. Það var ekki reynt. Það var bara valið að leggja fram þetta frv. og setja gerðardómnum forsendur til að vinna eftir, sem fyrir fram var ljóst að voru algjörlega í óþökk annars aðilans en á forsendum sem hinn aðilinn var búinn að skrifa undir, þ.e. útvegsmenn. Þeir eru búnir að skrifa undir þessar forsendur í gegnum að gera samninginn við Vélstjórafélagið. Þetta er því eins ósanngjarnt og eins hlutdrægt og nokkur kostur er. Það afhjúpar alveg gjörsamlega ríkisstjórnina, með hverjum hún stendur í málinu. Hún er svo gjörsamlega nakin eins og keisarinn á nýju fötunum forðum að það hálfa væri nóg og er nú ekki fríð sjón.