Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 22:09:20 (7762)

2001-05-14 22:09:20# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[22:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði að honum þætti þetta frv. hvorki gott né æskilegt að fá það fram. Nú er ríkisstjórninni í sjálfsvald sett hvað hún gerir. Maður skyldi ætla að hún gerði það eitt sem hún telur æskilegt miðað við aðstæður. Hún telur æskilegt, rétt og réttlætanlegt að setja lög á sjómenn, lög sem svipta þá samningsrétti í hálfan áratug.

Hæstv. sjútvrh. svaraði spurningu minni um hvernig hann ætlaði að axla ábyrgð gagnvart því fólki sem nú væri að fá ríkisstjórnarrýtinginn í bakið. Hæstv. ráðherra segir að hann axli ekki ábyrgð gagnvart einstökum hópum heldur gagnvart heildinni, gagnvart íslensku þjóðinni í heild sinni. Við höfum hins vegar haldið því fram að ríkisstjórnin sé ekki að axla ábyrgð sína gagnvart íslensku þjóðinni heldur að fara að fyrirmælum húsbænda sinna í Landssambandi ísl. útvegsmanna og skera þá niður úr þeirri snöru sem þeir sjálfir hafa komið sér í með ótrúlegri óbilgirni og þvergirðingshætti gagnvart íslenskum sjómönnum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig skýrir hann þann mun sem fram kom í málflutningi hans annars vegar og hæstv. félmrh. hins vegar, sem greinilega hafði ekki fengið frv. í hendur til að yfirfara það fyrr en í dag? Það er fyrst í dag sem sérfræðingar félmrn. fá ráðrúm til að kanna hvort málið standist alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist. Er ágreiningur um þetta efni í ríkisstjórninni? Ég óska eftir svörum.