Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 22:13:51 (7764)

2001-05-14 22:13:51# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[22:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Ég ítreka, herra forseti, að í máli hæstv. félmrh. við umræðuna í kvöld kom fram að hann teldi nauðsynlegt að fara yfir frv., sérstaklega með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga. Þannig skildi ég ummæli hans. Það er fyrst í dag að ráðuneyti hans hefur gefist ráðrúm til að fara í saumana á þessum málum. Af þeim sökum dreg ég þá ályktun að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki verið fyllilega samstiga í þessu máli og lái mér hver sem vill.

Hæstv. sjútvrh. segir í svari sínu að það sé ekki verið að dæma yfir sjómannastéttina samninga eða lög í tæpan hálfan áratug. Í lagafrv. sem hér er til umræðu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hann skal ákveða`` --- hér er vísað í gerðardóminn --- ,,gildistíma ákvarðana sinna og hafa í því sambandi hliðsjón af gildistíma samnings um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001.``

[22:15]

Hver skyldi vera gildistími þess samnings? Eru það ekki fjögur og hálft ár? Hér segir, svo ekki er um að villast, að þröngva eigi upp á íslenska sjómenn samningum eða öllu heldur ákvörðunum sem gilda eigi í tæpan hálfan áratug. Hverju svarar hæstv. ráðherra þessu?