Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 22:16:27 (7766)

2001-05-14 22:16:27# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[22:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum sannar að enn er í gangi í sjútvrn. sjálfsafgreiðsla til Landssambands ísl. útvegsmanna. Einungis þannig er hægt að skýra þetta umdeilda ákvæði í 3. gr. frv. Það er alveg ljóst að þar er verið að tímasetja niðurstöðu gerðardóms fimm ár fram í tímann. Það er líka alveg ljóst að það er brot á alþjóðlegum skuldbindingum.

Það þýðir ekki fyrir hæstv. sjútvrh. að koma hingað og lesa upp úr einhverri ræðu sem hæstv. núv. fjmrh. flutti árið 1995 til að skýra breytingar á stjórnarskránni. Það vill svo til að á þessum vetri höfum við tekið lengstan tíma í að ræða þá niðurstöðu Hæstaréttar að það beri að fara eftir reglum alþjóðlegra samninga sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til þess að fylgja. Það er það sem skiptir máli í þessu samhengi. Þess vegna getur hann ekki skotið sér undan því að hafa sett í frv. ákvæði sem stenst ekki alþjþóðlega sáttmála, stenst t.d. ekki mannréttindasáttmálann og stenst ekki þær reglur sem Alþjóðavinnumálastofnunin fylgir.

Þegar hæstv. félmrh. var spurður að því í dag hvort hann teldi þetta í samræmi við þessa sáttmála og þessar reglur svaraði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Ég hef líka verið spurður um hvort hér væri um brot á alþjóðaskuldbindingum að ræða og ég vonast eftir því að svo verði gengið frá því í þinginu að lögfesting þess brjóti ekki í bága við þær alþjóðaskuldbindingar sem við erum aðilar að.``

Herra forseti. Hæstv. félmrh. er það mætavel ljóst að hin flausturslegu vinnubrögð sjútvrn. hafa leitt til þess að við borð lá að í gegnum þingið yrði þröngvað frv. sem felur í sér brot á alþjóðlegum sáttmálum. Þetta er einungis dæmi um þá sjálfsafgreiðslu sem íslenskir útvegsmenn hafa enn þá í gegnum sjútvrn. Það er í þágu hagsmuna þeirra að fá þessa niðurstöðu til fimm ára því að þá verða þeir lausir við sjómenn í hálfan áratug.