Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 22:19:54 (7768)

2001-05-14 22:19:54# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[22:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þriðjungur ræðunnar sem hæstv. félmrh. flutti í dag var til að skýra muninn á þeirri lagasetningu og lagasetningunni sem er hér í bígerð. Ég ætla ekki að eyða máli mínu frekar í það, herra forseti.

En hæstv. sjútvrh. segir að orðfæri mitt sé undarlegt. Hvað sagði hæstv. sjútvrh. sjálfur um þetta umdeilda ákvæði? Hann sagði hérna áðan að vel gæti verið að gengið hafi verið of langt. Hann sagði líka að hann yrði að viðurkenna að ákvæðið væri umdeilanlegt.

Herra forseti. Það er ekki hægt að óska eftir því að einn ráðherra gangi lengra í því að viðurkenna að honum hafi ekki bara orðið fótaskortur hér í ræðustólnum heldur líka á tungunni þegar hann fól undirmönnum sínum að semja frv. Það er ekki hægt að fá frekari viðurkenningu á því en í orðum hæstv. sjútvrh. Hann gerir sér grein fyrir því, væntanlega eftir samræður við sinn góða kollega, hæstv. félmrh., að þarna urðu þeim einfaldlega á mistök í óðagotinu og viðleitni sinni til að þóknast útgerðarmönnum.

Hverjum á Íslandi gæti það verið þóknanlegt að binda niðurstöðu gerðardóms í málefnum sjómanna til fimm ára? Ekki þinginu, ekki sjútvrn., ekki einu sinni ríkisstjórninni, bara íslenskum úterðarmönnum. Hver hefur verið bandingi þeirra í þessu máli, eins og fram kemur í þessu frv. og fram kemur í þeim jákvæðu leiðbeiningum sem hæstv. félmrh. veitir kollega sínum? Bandinginn er auðvitað hæstv. sjútvrh.

Þegar ég segi ,,enn þá``, þá vísa ég til þess að hæstv. sjútvrh. hefur líka raðað í kvótanefndina með þeim hætti að niðurstaðan verði útgerðarmönnum þóknanleg. Þá vísa ég líka til þess að Sjálfstfl. hefur alltaf séð til þess að allar niðurstöður sem varða sjávarútvegsmál, kvótakerfi og verðmyndun á fiski væru í þágu útgerðarmanna.