Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:05:01 (7774)

2001-05-15 10:05:01# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við umræðuna í gær kom fram í máli hæstv. félmrh. að fyrst í gær hefðu sérfræðingar félmrn. komið að þessu máli og sannast sagna hafði ég ekki ímyndunarafl til að ætla annað en hv. félmn. Alþingis yrði kölluð saman til að gaumgæfa þetta mál. Það hefur ekki verið gert. Öllum óskum stjórnarandstöðunnar um nánari skoðun á málinu hefur verið hafnað.

Nú er tilefnið ærið, bann við verkfalli sjómanna og svipting á samningsrétti þeirra um langan tíma. Það kann að hljóma mótsagnakennt að hvetja til faglegra vinnubragða í mannréttindabroti því ekki leikur vafi á því að verið er að brjóta mannréttindi á sjómönnum.

Á hitt er að líta að með þessari lagasetningu eru miklar líkur á að Íslendingar séu að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar sem þeir hafa undirgengist. Það er lágmarkskrafa að Alþingi gefist tóm til að fara rækilega í saumana á þessum málum, kalla til sögunnar alla þá sérfræðinga sem völ er á til að fara yfir þetta mál. Herra forseti. Mér finnst ótækt að taka þetta mál hér til umræðu áður en sú vinna og sú athugun hefur farið fram.