Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:07:08 (7776)

2001-05-15 10:07:08# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:07]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Strax að lokinni umræðu í gær fór fram efnisleg umræða um þetta mál í hv. sjútvn. Þá voru kallaðir til fundar við nefndina fulltrúar allra þeirra sem málið beinlínis varðar, þ.e. fulltrúar hagsmunasamtakanna og LÍÚ. Eftir að beiðni barst um það í upphafi fundar að kallaðir væru til aðilar til þess að ræða um 3. gr. frv. sérstaklega var brugðist þannig við því af hálfu formanns nefndarinnar að kalla fyrir nefndina fulltrúa félmrn. Þess vegna er það mjög undarlegt að tala um að vinnubrögðum sé ábótavant við vinnslu málsins í þinginu þegar brugðist er vel við ósk af þessu taginu og niðustaðan er sú að gerð er heilmikil efnisleg breyting á þessari umdeildustu grein frv.

Ég tel einmitt til marks um sjálfstæð vinnubrögð þingsins og góð vinnubrögð þess að farið er í að skoða málið, m.a. eftir umræðu sem fram fór hér í gær og eftir umræðu sem fór fram innan nefndarinnar og eftir athugasemdir sem komu fram í viðræðum við fulltrúa sjómannasamtakanna. Þá er brugðist þannig við af hálfu meiri hluta sjútvn. að leggja fram brtt. sem gjörbreytir 3. gr. frv. eins og menn geta lesið um í þingskjölum sem dreift var strax að lokinni nefndarvinnunni í gærkvöldi. Ég mótmæli því harðlega að vinnubrögðum hafi á einhvern hátt verið ábótavant í nefndinni. Við unnum þessi mál eðlilega og skiluðum nefndaráliti og efnislegri brtt. um þann þátt frv. sem mestum deilum olli í gær.