Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:12:49 (7779)

2001-05-15 10:12:49# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:12]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru við afgreiðslu þessa máls. Við héldum fundi, eins og fram hefur komið hjá mörgum, langt fram á nótt til að fara í gegnum álitamál og í mínum huga er alveg klárt að þrátt fyrir þær breytingar sem meiri hlutinn gerir á 3. gr. frv. þá erum við þar á mjög hálum ís hvað varðar alþjóðasamninga. Af þessari lagasetningu verða eftirmálar klárlega í mínum huga.

Ég skil það þannig, af þeim upplýsingum sem fram komu í gær, að hefðum við viljað setja lög á sjómenn þá hefði átt að setja lög á framlengingu á því ástandi sem er í dag. En frv. er þannig sett upp að það gefur tóninn fyrir breytingar á kjörum sjómanna eins og öllum er kunnugt á hinu háa Alþingi. Það er klárt að við hefðum þurft miklu lengri tíma til að fara yfir þessi mál, fá fleiri að málum, sérstaklega hvað varðar réttindamál og alþjóðaskuldbindingar sem við hefðum skrifað undir. Ég sé ekki annað en þetta upplegg sem er lagt fram hér af hálfu meiri hlutans muni leiða af sér málaferli og hafa gríðarlega eftirmála. Þessu mótmæli ég. Við þurftum miklu lengri tíma. Við þurfum fleiri sérfræðinga. Um það var beðið. En ekki er hægt að verða við því um miðja nótt. Það gefur augaleið.