Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:23:41 (7785)

2001-05-15 10:23:41# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:23]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1327 ásamt brtt. sem með fylgir.

Nefndin fjallaði um málið á fundi strax eftir að þingfundi lauk í gær og fékk á sinn fund þá Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Grétar Mar Jónsson, Guðjón Ármann Einarsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti. Þá átti nefndin símafund með Pétri Sigurðssyni, forseta Alþýðusambands Vestfjarða.

Með frumvarpinu er lagt til að bann verði lagt við verkfalli aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum Alþýðusambands Vestfjarða, er hófst 16. mars sl.

Verkfallinu var frestað með lögum eins og kunnugt er, frá 19. mars sl. til 1. apríl sl., enda höfðu menn vonast til að á þeim tíma tækist að ná samningum og ýmsar yfirlýsingar sem gengu m.a. í sjútvn. á þeim tíma gáfu sterklega til kynna að svo gæti verið. Sama gilti um verkbann það er félög og samtök útvegsmanna settu á fiskimenn frá og með 16. mars sl. Vinnustöðvun hófst þá aftur og hafði staðið óslitið í á sjöttu viku þegar vélstjórar og útgerðarmenn undirrituðu kjarasamning 9. maí sl.

Samningar hafa verið lausir frá 15. febrúar 2000. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa samningsaðilar ekki náð árangri sem er því miður eins og allir vita farið að hafa ýmsar alvarlegar afleiðingar.

Ljóst er að út af fyrir sig hefur verið gríðarlega mikill tími til þess að ná samningum. Það var álit þeirra aðila sem komu fyrir nefndina í gær að út af fyrir sig væri tíminn ærinn til að ná samningum. Það þyrfti hins vegar að taka erfiðar ákvarðanir og ég ætla ekki að setja mig í sérstakt dómarasæti þar um.

Frv. gerir ráð fyrir að samningsaðilum verði hins vegar gefinn frestur til 1. júní nk. til að ljúka samningum. Hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma er lagt til að gerðardómi þriggja manna, sem tilnefndir verði af Hæstarétti, verði falið að taka ákvarðanir varðandi kjaramál félaga í áðurnefndum félögum.

Enn fremur gerir frumvarpið ráð fyrir að breytingar verði gerðar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, auk þess sem lög nr. 11/1998, um Kvótaþing, falli úr gildi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því sem segir í nál., með leyfi forseta:

,,Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að sú tilhögun að gerðardómurinn skuli taka mið af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands hafi mætt mikilli andstöðu.``

Það kom reyndar líka fram í þeirri umræðu sem fór fram í gær eins og þegar hefur verið vikið að í þeirri umræðu sem fór fram um störf þingsins og fundarstjórn forseta.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til þá breytingu að gerðardómur skuli í störfum sínum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, að teknu tilliti til sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr. frv., þ.e. aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, LÍÚ og Alþýðusambands Vestfjarða.

Þá leggur meiri hlutinn til að við ákvarðanir um niðurstöðu gerðardómsins þá geti, ég endurtek, þá geti, gerðardómurinn haft til hliðsjónar gildistíma skyldra kjarasamninga.

Hér er auðvitað um umtalsverða breytingu að ræða frá 3. gr. frv. Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að vikið er frá því að hafa beina og bókstaflega skírskotun í nýgerðan samning LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands og í stað þess er orðalagið eins og ég mun gera grein fyrir hér á eftir.

Það hefur líka verið talsvert rætt um 2. gr. frv. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því að í 2. gr. frv. er ekki heldur vikið með neinum beinum hætti að samningum sem gerðir hafa verið á undanförnum árum, það er eingöngu verið að telja upp atriði sem gerðardómur skuli taka afstöðu til. Það er hins vegar býsna opið. Það eru að vísu tiltekin þarna allnokkur atriði frá a- til f-liðar. Síðan er enn fremur tiltekinn g-liðurinn, þar sem segir: ,,önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.`` Með öðrum orðum: Þó um sé að ræða nokkra leiðsögn að því leytinu að af hálfu löggjafans er fitjað upp á því sem gerðardómurinn skuli fjalla að nokkru leyti þá er þetta enn fremur opið. Það er ekkert óeðlilegt af hálfu löggjafans að reynt sé að tiltaka efnisatriði sem þurfa að vera í kjarasamningi sjómanna og útvegsmanna til að það verði fullburðugt plagg til að vinna eftir af hálfu þeirra sem þurfa við svo að búa, þ.e. sjómanna og útvegsmanna, sem þurfa að starfa eftir þeim ákvæðum sem gerðardómurinn kemst að niðurstöðu um.

Virðulegi forseti. Sú brtt. sem meiri hluti sjútvn. leggur fram er svohljóðandi, með leyfi forseta.:

,,Við 3. gr. Greinin orðist svo:

Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr.

Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna og getur í því sambandi haft hliðsjón af gildistíma annarra skyldra kjarasamninga.``

Undir þetta nál. rita Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Vilhjálmur Egilsson, Hjálmar Árnason, Kristinn H. Gunnarson og Árni R. Árnason.