Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:34:42 (7788)

2001-05-15 10:34:42# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Málflutningur talsmanna ríkisstjórnarinnar í öllu þessu máli er eins og gatasigti. Nú er því hampað mjög að enginn árangur hafi verið að nást í deilunni og þetta hafi allt verið úti í hafsauga. Þegar lögin í mars voru réttlætt var hið gagnstæða upp á teningnum. Muna menn það? Þá komu talsmenn sömu ríkisstjórnar, sama meiri hluta, og sögðu: Það er kominn svo góður gangur í viðræðurnar að nú er rétt að fresta verkfallinu. Þetta ætti að klárast innan skamms tíma og við veiðum loðnuna á meðan. Algjörlega 180 gráðu öfug röksemdafærsla. Þá sögðu menn staffírugir að góður gangur væri kominn í viðræðurnar, þetta væri komið á góðan skrið og, jafnfráleitlega vitlaust og það var, að þá væri rétt að grípa inn í og fresta verkfallinu í stað þess að leyfa mönnum að útkljá deiluna. Ég spái því, herra forseti, að öll þessi aðkoma ríkisstjórnarinnar, sem velur sér nálgun eftir hentugleikum í þessum efnum, eins og sést af þessum tveimur dæmum, muni fá harðan áfellisdóm ef, sem manni heyrist reyndar vera líklegt, þessi máli fara fyrir dómstóla og framganga ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar í þessu öllu verður metin þar. Þá kemur þetta allt til skoðunar, þ.e. hversu lengi sjómenn höfðu verið án samninga, fyrra inngrip ríkisstjórnarinnar og rökin sem fyrir því voru færð og svo aftur hvernig hún snýr hlutunum við og kýs að réttlæta lagasetningu nú undir algjörlega öfugum formerkjum. Þetta er ekki boðlegur málflutningur, herra forseti, og er þeim til lítils sóma sem standa fyrir honum.