Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:40:16 (7791)

2001-05-15 10:40:16# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:40]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. segir. Þetta er eitt af þeim efnisatriðum sem við fjölluðum um á hinum ágæta nefndarfundi sjútvn. í gærkvöldi. Við veltum einmitt mjög fyrir okkur efnisþáttum 2. gr. og þess vegna kom ég aðeins að því í ræðu minni áðan um efnisatriði þeirrar greinar. Niðurstaða okkar í meiri hlutanum var að ekki væri tilefni til að gera frekari breytingar á 2. gr. Við töldum eðlilegt að þessi leiðsögn væri búin til án þess að verið væri að binda hendur gerðardómsins um of. Ég vek í því sambandi m.a. athygli á g-lið 2. gr. sem heldur þessum þætti talsvert opnum. Það var mat okkar að þetta væri nægilegt svigrúm sem gerðardómurinn hefði til að uppfylla þetta ákvæði. Það er sannarlega rétt hjá hv. þm. að gera þarf kröfu til að gerðardómurinn njóti sjálfstæðis.

Varðandi breytingartillöguna þá er hún á sömu lund. Ég vek athygli á því að þar er talað um að gerðardómurinn geti haft til hliðsjónar gildistíma annarra skyldra kjarasamninga. Þarna er ekki verið að skylda gerðardóminn í neinum efnum. Það er eingöngu orðað með þeim hætti sem ég las upp hér. Ég tel hins vegar að ef vikið hefði verið nánar að því í nál. eða í framsöguræðu hvaða samninga við værum að tala um, ef við hefðum farið í að skilgreina nánar hugtakið skyldir kjarasamningar, þá hefðum við væntanlega verið komin út á mun hálli ís. Þess vegna er eðlilegast að þessu máli sé haldið opnu fyrir gerðardóminn til að meta, enda er mikilvægt, eins og hv. þm. vék að, að gerðardómurinn hafi sjálfstæði.