Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:14:48 (7795)

2001-05-15 11:14:48# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég svaraði nákvæmlega þessari spurningu í gær, ef hv. þm. fylgdist með umræðunum þá sem hún vafalaust hefur gert en rekur ekki minni til. Ef aflýst er verkfalli, þá er ekki lengur neitt verkfall til þess að setja lög á og þar af leiðandi þarf að breyta frv. í samræmi við það og þeir aðilar ganga þá inn í sinn gamla kjarasamning. Þar af leiðandi verður enginn gerðardómur settur á þá aðila þar sem þeir hafa samning til þess að starfa eftir.

Hvað hins vegar varðar breytingar á Kvótaþingi og á Verðlagsstofu, þá mun ég ekki leggja til breytingar á þeim ákvæðum. Það hefur auðvitað mikið verið fjallað um þessi atriði og þau hafa verið sett upp í tengslum við kjarasamninga. En nú hafa verið gerðir aðrir og nýrri kjarasamningar sem lúta að þessum atriðum einnig. Í ljósi þess að ég hef eiginlega aldrei heyrt forustumenn sjómanna gangast við því að Kvótaþingið hafi komið til vegna þess að þeir hafi beðið um það eða það sé á einhvern hátt í líkingu við það sem þeir hafa viljað, þá sé ég enga ástæðu til að halda því við þegar beinlínis er óskað eftir því vegna annarra kjarasamninga að það detti út. Og ef við skoðum þetta líka í því ljósi sem það mál hefur verið sett í vegna þeirrar skýrslu sem unnin var vegna lagaákvæða um Kvótaþing og áhrif þess og þeirri umræðu sem um það hefur verið, þá sé ég ekki ástæðu til þess að leggja til breytingar á þeim ákvæðum frv. er varða Kvótaþingið og þaðan af síður þeim ákvæðum sem varða Verðlagsstofuna því að ég held að hvernig sem á það er litið þá styrkist staða Verðalagsstofunnar sem slíkrar til þess að ná þeim markmiðum sem ég held að allir hafa ætlað henni að ná.