Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:25:00 (7801)

2001-05-15 11:25:00# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:25]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rjúfa þessa umræðu. Það er margt sem þarf að koma fram í umræðunni og einnig er ljóst að staðan er ekki alveg ljós. Fyrir liggur þessi yfirlýsing frá Sjómannasambandi Íslands.

Einnig kom fram í fréttum í morgun að eitt af stærstu sjómannafélögum landsins, aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, Sjómannafélag Eyjafjarðar, mundi ekki verða aðili að því og mundi afturkalla samningsuppboð sitt til Sjómannasambandsins og mundi þess vegna ekki standa að þessari ákvörðun ef hún yrði tekin af hálfu Sjómannasambandsins.

Mér er heldur ekki ljóst hver staðan er varðandi Farmanna- og fiskimannasamband Íslands þannig að ég held að það væri ekki heppilegt að nefndin kæmi saman fyrr en málið væri orðið ljósara og þeirri umræðu sem þarf að fara fram um frv. yrði lokið. Þá sæi maður stöðuna betur og heyrði betur þau sjónarmið sem þyrftu að koma fram af hálfu einstakra þingmanna í þessu máli.