Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:31:03 (7805)

2001-05-15 11:31:03# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að þessu máli verði frestað. Þingflokkarnir þurfa líka að fá tækifæri til að ráðgast um þau mál sem upp eru komin. Svo er ástæða til að muna eftir því að fleiri aðilar eru að þessari deilu. Það er t.d. ekki enn orðið ljóst hvort Farmanna- og fiskimannasambandið muni aflýsa verkfalli. Ef það mundi gerast væri hér komin upp staða þar sem verkfall gæti orðið úr sögunni ef atvinnurekendur aflýstu verkbanni og þar með stæði Alþingi ekki frammi fyrir því að verkfall væri í gangi eða öllu heldur stöðvun á fiskiskipaflotanum. Mér finnst mikilvægt að menn átti sig á því hvernig málin muni líta út í heild. Það er ekki hægt að gera eins og sakir standa.

Síðan finnst mér að það væri málinu til framdráttar að það lægi eitthvað skýrar fyrir hvernig hæstv. sjútvrh. vill láta þetta þingmál líta út, þær breytingar sem hann vill að settar verði fram. Tillögur hans í gær voru mjög almennt orðaðar og ef menn eiga að geta fengist almennilega við þetta mál, þá þarf að koma skýrt fram hvað menn ætlast fyrir í þessu efni.

Ég tek undir það að sjútvn. verði gefið tækifæri til að setjast yfir málið en tek jafnframt fram að ekki er hægt að vinna það til enda fyrr en ljóst verður hvort aðrir aðilar muni líka aflýsa verkfalli.