Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:40:47 (7811)

2001-05-15 11:40:47# 126. lþ. 123.12 fundur 591. mál: #A viðurkenning á menntun og prófskírteinum# (EES-reglur) frv. 49/2001, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rangt að hér hafi einvörðungu verið tekin upp mál sem eru ágreiningslaus. Það er rangt. Hér var t.d. tekin til 3. umr. mál Landhelgisgæslu Íslands, mál sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagst gegn og greiddi atkvæði gegn í þinginu, en það fjallar um að íslenska ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis er ekki reiðubúinn að láta á það reyna fyrir ESA-dómstólnum hvort íslenskur skipaiðnaður geti fengið það verkefni að smíða og setja saman varðskip hér á landi. Við greiddum atkvæði gegn þessu. Það er ágreiningur um þetta mál.

Það er ágreiningur um fleiri mál sem þegar hafa verið tekin til umfjöllunar, t.d. um birtingu tilskipana EES. Ég sagt hjá við þá atkvæðagreiðslu. Ég er andvígur því frv. Það er því rangt að hér hafi einvörðungu verið tekin til umfjöllunar mál sem ekki er ágreiningur um og ég ítreka þá ósk mína og þá kröfu að hlé verði gert á þessum fundi og formenn þingflokka komi saman til að ræða þinghaldið. Ég óska eftir því að hlé verði gert á þessum fundi meðan slíkur fundur fer fram.

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur þegar tilkynnt að ef þingflokksformannafundur verður boðaður, þá verði gert hlé á fundinum, fyrr ekki. Hv. þm. var í salnum þegar þetta tiltekna mál, um Landhelgisgæslu Íslands, var rætt áðan þannig að hann gat að sjálfsögðu tekið til máls ef hann hafði áhuga.)

Ég var að mótmæla því að það væri ágreiningslaust.