Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:44:03 (7813)

2001-05-15 11:44:03# 126. lþ. 123.13 fundur 653. mál: #A framhaldsskólar# (deildarstjórar) frv. 51/2001, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:44]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. þetta kemur úr menntmn. og er mælt með því af öllum nefndarmönnum að það verði samþykkt. Þetta frv. er flutt í tengslum við lausn kjaradeilu framhaldsskólakennara fyrr í vetur en í byrjun janúar voru gefnar út tvær reglugerðir. Þessar reglugerðir voru um starfslið og skipulag framhaldsskóla annars vegar og um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga hins vegar. En endurskoðun þessara reglugerða var hluti af lausn kjaradeilunnar eins og áður hefur verið drepið á.

Í þessum reglugerðum fólst mikilsverð breyting á innra skipulagi framhaldsskóla. Þar voru mikilvæg ákvæði um vinnutíma, skiptingu starfa og ábyrgð nú skilgreind í reglugerð í stað kjarasamnings áður. Þess vegna þótti nauðsynlegt að breyta lögum þannig að starfsheitið deildarstjóri væri fellt úr lögum en samsvarandi ákvæði væru í staðinn í reglugerð. Eins og ég sagði áðan er það ágreiningslaust innan nefndarinnar að mæla með því að þetta frv. verði samþykkt.