Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 13:30:44 (7819)

2001-05-15 13:30:44# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[13:30]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn að lífeyrisréttindum sjómanna í fyrri hluta ræðu minnar og fjallaði um þau með tilliti til þess að sjómannasamtökin höfðu í þessari kjaradeilu reynt að koma í veg fyrir að hún endaði með verkfalli. Ég fór yfir það að í janúar sl. lögðu sjómannasamtökin sameiginlega fram tillögur sem hefðu, hefðu þau mætt einhverri sanngirni frá viðsemjendum sínum, átt að geta orðið til að forða verkföllum á þessu ári. Tilboðið var, eins og menn muna kannski eftir, formlega lagt fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna sl. janúar, þ.e. fyrir Samtök atvinnulífsins fyrir þeirra hönd.

Svo ég rifji það aðeins upp þá tók tilboðið til þriggja atriða. Þar á meðal launabreytinga, einstakra kaupliða og kauptryggingar, tímakaups og fleira, hlífðarfatapeninga og fæðispeninga, þ.e. launaliða sem vega að jafnaði innan við 10% í árslaunum sjómanna. Eins og allir vita eru árslaun fiskimanna að langstærstum hluta byggð upp á aflahlut, sem betur fer, og kemur sjaldan til kauptryggingargreiðslu. Yfir 90% af árstekjum sjómanna koma að öllu jöfnu af aflahlut. Á mörgum skipum, sem betur fer, er aldrei greitt annað en aflahlutur árum saman. Aflahluturinn er því ráðandi þáttur í tekjum sjómanna. Aflahluturinn byggir á fiskverðinu, því brúttóverðmæti sem kemur inn á skipið. Ég mun síðar fara yfir það sem dregið er frá brúttóverðmæti til að finna aflahlutinn.

Ég var þar staddur í ræðu minni, herra forseti, að ég var búinn nefna annan lið þessa tilboðs sjómannasamtakanna sem var beinlínis sett fram til að koma í veg fyrir að menn enduðu í verkfallsátökum á þessu ári. Ég var kominn að þriðja meginatriðinu í sáttatilboði þeirra, sem laut að lífeyrissparnaði, viðbótarframlögum í lífeyrissparnaði og lífeyrismálum.

Ég fór yfir það hvernig réttindi sjómanna höfðu myndast í lífeyrismálum í gegnum tíðina frá því Íslendingar fóru almennt að greiða í lífeyrissjóði upp úr 1970. Ég rakti hvernig réttindi sjómanna mynduðust í lífeyrissjóðum, hvaða viðmið höfðu verið notuð til að greiða inn í lífeyrissjóði þeirra, sem var lengst framan af kauptryggingunni, hálfri fyrst og síðan af allri kauptryggingu, en heil kauptrygging háseta í dag nemur 86 þús. kr. á mánuði. Það er það sem sjómaður fær í sinn hlut ef ekki er aflahlutur um borð í skipinu. Þætti engum mikið að fá 86 þús. kr. greiðslu fyrir að vera úti á sjó kannski 24--26 daga í mánuði. Almenna reglan um frítíma sjómanna, sem ég mun auðvitað ræða hér síðar í ræðu minni og koma að hvernig hefur þróast, eru fjórir sólarhringar í frí á mánuði.

Ég gerði grein fyrir því, hæstv. forseti, að sjómönnum var færður félagsmálapakki árið 1981 sem átti sér ekkert bakland, félagsmálapakki upp á að þeir mættu hefja töku lífeyris sextugir en það skilyrði fylgdi að þeir yrðu að hafa starfað 25 ár til sjós til að eiga rétt á lífeyri frá sextíu ára aldri. Þetta var félagsmálapakki, settur í lög á hv. Alþingi og samþykktur af öllum þingmönnum sem þá voru í þessum sal. Allir voru sammála því að eðlilegt og sjálfsagt væri að ríkisvaldið legði þetta til kjara sjómanna að þessu leyti, að þeir ættu rétt á lífeyri frá 60 ára aldri enda hefðu þeir þá starfað 25 ár til sjós.

Þetta rakti ég í máli mínu áðan og einnig þá sorgarsögu, herra forseti, að fjármögnun á bak við þann lífeyrisrétt sem Alþingi tók ákvörðun um að færa sjómönnum árið 1981 var engin. Ákvæðið varð til þess að smátt og smátt safnaðist upp skuld í Lífeyrissjóði sjómanna. Eftir að almenn lög um lífeyrissjóð voru sett árið 1997, sem kváðu á um það að lífeyrissjóðir ættu fyrir skuldbindingum sínum, neyddist stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna til að vega og meta stöðu sjóðsins sem varð til þess að lífeyrisréttindi manna voru skert vegna þess uppsafnaða vanda sem fylgt hafði 60 ára reglunni án þess að fjármögnun fylgdi, þrátt fyrir að lögin sem til þess leiddu væru samþykkt samhljóða á hv. Alþingi. Þetta hef ég áður fjallað um, herra forseti.

Ég nefndi einnig að meðan ég starfaði að félagsmálum sjómanna, frá 1975 og fram á árið 1999, þá gekk ég á fund allra fjmrh., í hverri ríkisstjórninni á fætur annarri á þessu tímabili, til þess að reyna að fá vilyrði fyrir því að færa fjármagn inn í lífeyrissjóði sjómanna sem næmi skuldbindingunni sem sett hafði verið í lög og sjómenn höfðu vissulega nýtt sér. Ég greindi frá því að núverandi hæstv. fjmrh. Geir Haarde hefði einnig neitað þessum óskum sem sjómannasamtökin hafa sett fram í gegnum árin. Málið stendur þannig að nú standa yfir málaferli gegn ríkinu vegna þess að inn í Lífeyrissjóð sjómanna er talið vanta 1,7 milljarða kr.

Í þessari sáttatillögu frá því í janúar eru menn hins vegar að tala um viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar. Sem betur fer hefur skilningur á því vaxið á undanförnum árum að gott og sjálfsagt sé að fólk safnaði lífeyrisinneign til elliáranna. Þess vegna hafa verið tekin inn í fjölda kjarasamninga ákvæði um svokallaðan viðbótarlífeyrissparnað, sem er umfram þau 10% sem mönnum er skylt að greiða í almenna lífeyrissjóði. En þeir lífeyrissjóðir eru sameignarsjóðir eins og menn vita, svokallaðir samhjálparsjóðir og launþeginn greiðir þar 4% og atvinnurekandinn 6%.

Um þetta var fjallað í 3. gr. þessa sáttatilboðs sem ætlað var að koma í veg fyrir verkföll sjómanna á þessu ári. Þar sagði að sjómenn vildu að inn í kjarasamning þeirra kæmi viðbót, sambærileg grein í alla kjarasamninga hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sjómannasambandinu og Vélstjórafélaginu, um greiðslur í lífeyrissjóð. Gert var ráð fyrir að þar yrði ekki farið inn á þá gömlu braut að byrja að greiða viðbótarsparnað í lífeyrissjóði af kauptryggingu eins og gert var 1970, reyndar af hálfri eins og ég hef áður rakið, heldur yrði viðmiðunin kaupgreiðsla til sjómanna, aflahlutur sjómanna. Það er ekki að ástæðulausu að sjómenn hafa sett þetta þannig fram, því af hinu fyrirkomulaginu hafa þeir haft afar slæma reynslu.

Eins og ég gat um þá hafði áður verið tekið mið af kauptryggingu sem varð til þess að þegar menn fóru að skoða inneign sína í lífeyrissjóði upp úr 1980, hvaða lífeyri menn hefðu rétt á, kom í ljós að sjómenn á bátaflotanum sem höfðu greitt í lífeyrissjóð í tíu ár --- þessu var öðruvísi hagað á stóru togurunum, þar sem menn greiddu í lífeyrissjóð af öllum launum frá 1958 --- höfðu nánast ekki öðlast nein lífeyrisréttindi og sátu einfaldlega uppi með það að lífeyrisréttur þeirra var ákaflega rýr. Þegar ég tók við forustu í Farmanna- og fiskimannasambandinu 1983 og fór að kafa betur ofan í lífeyrismálin sá ég að ekki var um nema tvennt að ræða, annaðhvort næðu menn fram leiðréttingum, að greitt yrði í lífeyrissjóð af öllum launum fiskimanna eða þá að þessu yrði hent og ekkert með það gert.

Niðurstaðan varð sú að á árinu 1984 mótuðu menn þá kröfu að barist yrði fyrir því í kjarasamningum sjómanna að tryggja að greitt yrði í lífeyrissjóð af öllum launum. Menn fóru í slag með lífeyriskröfuna 1985. Þá hafðist í gegn að tekið skyldi upp það fyrirkomulag að greitt yrði í lífeyrissjóði sjómanna miðað við heildarlaun en til að létta útgerðinni aðlögunina var það gert í áföngum frá árinu 1985 og fram á árið 1987. Það byrjaði þannig að í stað kauptryggingarinnar þá greiddu menn í lífeyrissjóð af hálfum launum sínum árið 1985, af 75% aflahlutarins árið 1986 og af öllum launum árið 1987. Þannig náðu menn loks þeim áfanga að sjómenn fóru að greiða í lífeyrissjóð af öllum launum sínum.

Þessa atburðarás rek ég vegna þess að í sáttatilboði sjómanna frá því í janúar, sem var beinlínis sett fram til að koma í veg fyrir að hér hæfust verkföll, var sett fram krafa um viðbótarlífeyrissparnað. Sjómenn settu eðlilega fram kröfur um að við þá yrði samið eins og aðrar stéttir, að viðbótarlífeyrissparnaðurinn yrði miðaður við greiðslur af öllum launum.

Frv. sem við ræðum núna miðar beinlínis við svokallaðan ,,Laxdælu-samning``. Hvað innifelur sá samningur í sér varðandi lífeyrissparnaðinn? Jú, hann innifelur að miða skuli lífeyrissparnaðinn við kauptryggingu. Menn eru sem sagt komnir á sama stað, varðandi viðbótarlífeyrissparnaðinn, og þeir hófu leikinn upp úr 1970, að miða enn á ný við kauptrygginguna. Kauptrygging hásetans er eins og ég sagði 86 þús. kr. og þó hún hækki um 30% þá verður það engin stórkostleg upphæð. Ætli það fari ekki nálægt 110 þús. kr. Það mundi vera grunnurinn sem borgað yrði af í þennan viðbótarsparnað á sama tíma og aðrir kjarasamningar í landinu sem gerðir hafa verið fyrir aðra launþega miða við heildarlaun þeirra. Það verður ekki af þeim tekið að þeir eru lagnir við að finna gamla drauga. Þeir beita draugaganginum til að finna sér viðmiðun til að halda niðri kjörum og réttindum sjómanna. Þess vegna er ekki nema eðlilegt að menn séu ósáttir við frv. og þær viðmiðanir sem eru beinlínis taldar upp í 2. gr. þess.

[13:45]

Þetta var þriðja atriðið í tilboði sjómanna og kemur á eftir kaupliðakröfunni í þessu sáttatilboði frá því í janúar sem ég ítreka, herra forseti, að var sett fram til að koma í veg fyrir verkföll sjómanna á þessu ári. Þá er ég kominn að fjórðu og síðustu greininni í þessu sáttatilboði en sáttatilboðið sem sjómenn lögðu fram var aðeins í fjórum liðum. Í fyrsta lagi um samningstímann, þ.e. út þetta ár. Í öðru lagi um launin. Í þriðja lagi um viðbótarlífeyrissparnaðinn, sem ég var að fara hér yfir og allan aðdraganda í kringum lífeyrismál sjómanna. Í fjórða lagi um slysatryggingu. Fleiri voru kröfur sjómannasamtakanna ekki í þessu sáttatilboði sem var ætlað að tryggja vinnufrið á þessu ári og koma vinnu við málið í ákveðinn farveg, til ákveðins starfshóps sem var lagt til í fyrstu grein að tæki til við erfiðustu málin, fyrst og fremst fiskverðsmálin og mönnunarmálin en jafnframt fleiri þætti.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður sjútvn., nefndi það í morgun að einmitt þau mál væru erfiðust, verðlagsmálin og mönnunarmálin og þau hefðu lengi verið það. Stjórnarliðar eru þannig ekki ósammála því að þetta séu erfiðustu málin. Þar af leiðandi eru þeir sammála því sem sjómannasamtökin lögðu fram í janúar í tilboði sínu. Þeir eru sammála því vinnulagi sem lagt var upp með af sjómannasamtökunum í sáttatilboði þeirra, þ.e. að vinna þessi erfiðu mál á öðrum vettvangi og ekki undir pressu. Hvað voru sjómenn að bjóða? Þeir voru að bjóða slíkt vinnulag í upphafi þessa árs, eftir að hafa verið kjarasamningslausir í tæpt ár. Þá buðu þeir fram sáttarhönd og kváðust mundu sætta sig við að vera með lausan kjarasamning að því er varðaði fiskverðsmyndun, grundvöll skiptaverðsins og mönnunarmál, ekki bara í ár heldur nánast út þetta ár. Starfshópurinn átti ekki að ljúka vinnu sinni fyrr en í október og samningurinn ekki að renna út fyrr en 31. desember. Menn hefðu svo sem haft einhverja mánuði eftir að starfshópurinn skilaði af sér til að ná samkomulagi.

Í þessu sáttatilboði voru sjómenn ekki að fara fram á annað en almennar kaupbreytingar á kaupliðum þeirra. Að samið yrði við þá um viðbótarlífeyrissparnað eins og aðrar stéttir og á sama grunni, ekki fundin einhver ný viðmiðun aftan úr grárri forneskju. Síðan yrði tekið á slysatryggingamálum sjómanna og þeir losnuðu við þá kvöð að þurfa alltaf að leita uppi sökudólg til að eiga rétt á bótum.

Sjómennirnir fyrir utan Alþingishúsið áðan sögðu söguna af kokknum sem var að elda þegar báturinn valt hressilega. Sjómanninum skrikaði fótur, hann datt og slasaðist en þá dæmdi Hæstiréttur að hann ætti ekki rétt á bótum vegna þess að hann hefði mátt vita að honum gæti skrikað fótur. Svona fyrirkomulag vilja sjómenn eðlilega ekki hafa og gera þess vegna kröfu um að slysatryggingar þeirra verði með þeim hætti að þeir séu almennt tryggðir fyrir slysum um borð í skipum, tryggðir fyrir slysum á sínum vinnustað. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa.

Ég held að það sé ekki vanþörf á þessu tali mínu um sáttatilboð sjómanna svo að stjórnarliðar skilji hvað þeir eru að fást við og hvað þeir gera með því að lögfesta þetta frv., þrátt fyrir að þeir séu sammála um að erfið mál standi út af. Það voru akkúrat þessi erfiðu mál sem sjómenn buðust til að leggja til hliðar og setja í sérstakan starfshóp þannig að á þessu ári mætti haldast vinnufriður, að koma á skammtímasamningi út þetta ár svo taka mætti á þessum erfiðu málum.

Maður vonaðist til að Samtök atvinnulífsins og Landssamband ísl. útvegsmanna sæju að í þessu tilboði sjómannasamtakanna frá því í janúar fólst mikill sáttavilji, vilji til þess að koma í veg fyrir átök og verkfallsaðgerðir. Maður hefði haldið að þeir teygðu sig langt til að koma til móts við þessi atriði og koma þar með á föstu vinnulagi til að taka á erfiðustu málunum. Nei, það varð ekki niðurstaðan hjá LÍÚ og Samtökum atvinnulífsins, af því varð allt önnur niðurstaða.

Með leyfi, herra forseti, langar mig að lesa upp svarið sem sjómannasamtökin fengu við þessu sáttatilboði sínu í janúar sem, ef það hefði verið samþykkt, hefði orðið til þess að koma í veg fyrir verkfallsátök. Hvernig var þetta svar LÍÚ? Það er fróðlegt að lesa það í ljósi umfjöllunarinnar um þetta mál. Það er svona, með leyfi hæstv. forseta:

,,Svar Samtaka atvinnulífsins og Landssambands íslenskra útvegsmanna við tilboði FFSÍ, SSÍ og VSFÍ f.h. aðildarfélaga sinna dags. 19. 1. 2001.

Kauptrygging, tímakaup, hlífðarfatapeningar, fæðispeningar og sektarupphæð.

Þessir liðir hækki á sambærilegan hátt og umsamdar hækkanir á milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins, þ.e.`` --- takið eftir --- ,,um 7% frá gildistöku samnings,`` --- ekki 30% eins og sett var inn núna heldur um 7% frá gildistöku samnings --- ,,um 3% 1. janúar 2002 og um 2,25% 1. janúar 2003. Þetta á ekki við um sektarákvæði í kjarasamningum`` --- sem venjulega hafa fylgt þessum hækkunum --- ,,sem skulu falla niður.``

Í svarbréfi LÍÚ var krafa um að sektarákvæði kjarasamninga félli niður. Menn áttu sem sagt ekki að hafa nein ráð til þess að bregaðst við brotum á kjarasamningnum. Það átti að fella sektarákvæðin niður. Það var krafa LÍÚ. Ég held að það sé rétt að menn hugleiði það, sérstaklega fulltrúar í sjútvn. sem í nótt hlustuðu á orð Friðriks Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ, um að það hefði með engum hætti verið gengið nægjanlega langt á móti kröfum LÍÚ. Hann sagði mikið hafa vantað á að kröfum LÍÚ væri fullnægt. Það er ekki skrýtið þegar maður les þetta bréf.

Næsti liður sem ég ætla að lesa, herra forseti, er svohljóðandi:

,,Útvegsmenn eru reiðubúnir til að ræða við stéttarfélög sjómanna um að hækka kauptryggingu umfram það sem greinir í grein 1.1. enda lækki hlutur samsvarandi.`` Hér er átt við aflahlut.

Ég fór yfir það í ræðu minni fyrr í morgun að aflahluturinn er yfirleitt yfir 90% af hinum raunverulegu launum sjómanna. Sem betur fer eru menn sjaldan á kauptryggingu. Þetta skal samt sett í þetta samhengi, að ef kauptrygging breytist, sem vegur sem betur fer sáralítinn hlut af heildarárslaunum sjómanna þó hún sé nauðsynleg sem lágmarksgrunnur og sé í raun og veru allt of lág sem slík, þá skal tekið til við að lækka hlutaskiptin. Þetta var inni í svari Samtaka atvinnulífsins og Landssamtaka ísl. útvegsmanna sem dagsett er 23. janúar 2001 og undirskrifað af Friðriki Arngrímssyni.

Þriðji liður í svari útgerðarmanna var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Útvegsmenn eru tilbúnir að vinna að því á samningstímanum að koma á launakerfi með föstum launum auk ábata í núverandi hlutaskiptakerfi, auk ábata í stað núverandi hlutaskiptakerfis.``

Þetta eru svörin sem sjómenn fengu til baka við tilboði sínu varðandi launaliðina.

Þá komum við að lífeyrissjóðnum, sem var annar liðurinn í sáttatilboði sjómanna til þess að koma í veg fyrir að verkföll sjómanna á þessu ári. Það var svona, með leyfi forseta:

,,Ef og þegar fallið verður frá hlutaskiptakerfi`` --- takið eftir, ef og þegar fallið verður frá hlutaskiptakerfi sem byggir á yfir 90% af tekjum sjómanna --- ,,og tekið upp sambærilegt launakerfi og hjá flestum öðrum launþegum en sjómönnum eru útvegsmenn tilbúnir til að ræða lífeyrissjóðsframlög með svipuðum hætti og samið hefur verið um hjá sambærilegum stéttum.``

Þetta var uppistaðan í svarinu við kröfu sjómanna í lífeyrismálum. Síðan segir:

,,Við óbreytt hlutaskiptakerfi er ekki unnt að bera lífeyrissjóðsframlög annarra atvinnurekenda við lífeyrissjóðsframlag útvegsmanna enda hafa sjómenn hlut úr aflaverðmæti en aðrir launþegar hafa ekki fastákveðinn hluta af tekjum atvinnurekanda.``

Þannig var svarið varðandi þetta.

Þá komum við að tryggingunum, sem einnig var fjallað um í sáttatilboði sjómannasamtakanna og svar útvegsmanna er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Útvegsmenn eru reiðubúnir til að setja á stofn starfshóp með fulltrúum sjómanna þar sem tekið verði saman yfirlit yfir slysatryggingar sjómanna og greiðslur til þeirra vegna slysa. Jafnframt verði réttindi sjómanna borin saman við réttindi annarra launþega en útvegsmenn telja að réttindi þeirra séu betri en almennt er.``

Útvegsmenn telja að réttindi þeirra séu betri en almennt er. Síðan segir:

,,Þá verði kostnaður af aukinn vátryggingavernd sjómanna metinn. Starfshópurinn skal taka til starfa strax og ljúka störfum fyrir 15. febrúar 2001. Í framhaldi af niðurstöðum starfshópsins og áður en nýr kjarasamningur tekur gildi, skulu aðilarnir fjalla um slysatryggingar sjómanna.``

Næst segir hér:

,,Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Vísað er til meðfylgjandi samantektar um tillögur til breytinga.`` Þar er vísað til samantektar sem fylgdi með.

Gildistími nýs samnings var samkvæmt svörum LÍÚ við sáttatilboði sjómanna til þriggja ára.

Sáttatilboðið lögðu sjómannasamtökin fram eftir að hafa verið með lausan kjarasamning í tæpt ár og án þess að hafa beitt verkfallsvopninu á þeim tíma. Ég rakti það í ræðu minni fyrir hádegi að sennilega eru sjómannasamtökin seinþreyttust allra samtaka í þessu landi til að beita verkfallsvopninu. Þau hafa lengst allra samtaka í landinu á undanförnum árum verið með lausa kjarasamninga og það hafa liðið mánuðir og jafnvel ár áður en sjómenn hafa gripið til þess að beita verkfallsvopninu til að knýja fram niðurstöðu. Sjómenn verða því ekki sakaðir um það að hafa rifið verkfallsvopnið upp samdægurs og kjarasamningur fellur úr gildi. Þeir verða ekki sakaðir um það.

[14:00]

Hins vegar má finna aðrar stéttir á Íslandi sem hafa gert það. Sjómenn eru á hinn bóginn sú stétt manna sem hvað oftast hefur orðið fyrir því að fá á sig lagasetningu til að binda niður kjör þeirra og stoppa aðgerðir þeirra til að ná fram leiðréttingu og menn eru enn þá að berjast við það sem hafið var og kemur fram í skýrslu Farmannasambandsins frá árinu 1988 þar sem talað var um frjálst fiskverð og hvernig það ætti að myndast. Ég mun kannski síðar í dag, herra forseti, lesa nokkra kafla úr þessari skýrslu ef mér býður svo við að horfa. Ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að kunna þessa sögu. Hér æða menn alltaf á yfirborðstillögunni og halda að það sem er akkúrat í dag hafi aldrei skeð áður og ekkert í sögu kjarabaráttu sjómanna eigi rétt á sér. Hægt sé að berja þá út í horn í hverju málinu á fætur öðru með lagasetningu. Þetta tel ég algerlega óviðunandi og tekur þó fyrst steininn úr á þessu ári þegar sett eru tvisvar sinnum lög á sama verkfall. Það hefur ekki borið við áður, held ég. Það er sennilega nýmæli. Þeim fer fram í þeim hæfileikum sínum að stöðva verkfallsaðgerðir sjómanna með lagasetningu.

Herra forseti. Er hægt að saka stétt um ábyrgðarleysi við beitingu á neyðarvopni sínu sem hefur haft þann aðdraganda sem ég hef verið að draga fram í máli mínu síðan í morgun? Að sætta sig fyrst við að kjarasamningar falli úr gildi, séu lausir án kaupbreytinga mánuðum og árum saman, bjóða síðan fram sérstakt sáttatilboð sem felur í sér að þeir ætla að taka það á sig að vera með mörg atriði ófrágengin í næstum tvö ár og þegar slíkt sáttatilboð er lagt fram, þá er því hafnað bara einn, tveir og þrír og gerð krafa um að hlutaskipti skulu lækkuð, hlutaskipti skulu lögð af og annað eftir því. Ég tel að svar Samtaka atvinnulífsins og LÍÚ í janúar sl. við sáttatilboði sjómanna sé lítilsvirðing. Það er lítilsvirðing hvernig þessi samtök atvinnurekenda brugðust við tilmælum sjómanna. Að koma í veg fyrir að hér á landi mynduðust verkfallsátök á þessu ári og setja málin í ákveðinn farveg, að setja málin til starfshóps sem fjallaði um erfiðustu málin og við erum ekki einu sinni ósammála um það í hv. Alþingi hver eru erfiðustu málin. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður sjútvn., lýsti því yfir í morgun hver hann teldi erfiðustu málin og ég er honum sammála um það. Verðmyndunarmál og mönnunarmál hafa í gegnum tíðina verið erfið mál. Það var einmitt um þau mál sem sjómenn buðust til að mynda starfshóp til að takast á við að leysa. En á þá sáttarhönd sló LÍÚ, enda jafnan haft vissu fyrir því að hringja mætti í stjórnarliða til að fá lög. Það er það sem menn hafa tekið sér fyrir hendur --- lög á verkfall sjómanna og aftur lög --- núna í tvígang á þessa deilu. Það er ekki nema von, herra forseti, að illa gangi að lagfæra kjaramál sjómanna þegar menn eiga við að búa það sem hér er.

Lengi framan af í þessari deilu stóðu samtök sjómanna saman eins og sáttatilboðið frá því í janúar ber með sér. Útgerðarmenn höfðu hins vegar iðulega kvartað undan því að ekki væri semjandi við sjómenn vegna þess að þeir næðust ekki saman að samningaborðinu, það þyrfti að ræða við samtökin hvor í sínu lagi, þetta væri alveg óþolandi, það yrði að ná þessum mönnum saman. Sjómannasamtökin brugðust við því og fóru sameiginleg til þessarar samningagerðar, gerðu sameiginlega þetta sáttatilboð. Því var hafnað eins og ég er búinn að greina frá. En viti menn. Þegar búið var að ræða við sjómannasamtökin sameiginlega, þá kom allt í einu upp sú staða í röðum útgerðarmanna að það væri ekki hægt að ræða við þessa menn sameiginlega, það yrði að hafa þá aðskilda. Annað væri ekki boðlegt. Tíndar hafa verið til alls konar ástæður fyrir því. Menn hafa sagt að Sævar væri svo vondur í skapinu að það væri ekki hægt að tala við hann. Menn hafa sagt að Grétar Mar hefði einhverra annarlegra hagsmuna að gæta og hefði allt aðrar skoðanir á kvótakerfinu en útgerðarmenn. Skyldi ekki meiri hluti þjóðarinnar hafa allt aðrar skoðanir á kvótakerfinu en útgerðarmenn? Er þá meiri hluti þjóðarinnar, af því að hann er á annarri skoðun en LÍÚ, einhver sérstök vandræðabörn sem ekki er hægt að tala við? Þau rekast ekki í hópi, eða hvað?

Skilgreining LÍÚ á því hvað eru vandamál í þjóðfélaginu er nefnilega allt önnur en skilgreining hins almenna Íslendings á því hvað er vandamál í þjóðfélaginu. Svör LÍÚ við sáttatilboði sjómannasamtakanna bera það með sér að forustumenn LÍÚ hafa myndað sér allt annað siðferðismat og allt aðra lífsskoðun en þorri Íslendinga. Lífsgildi þeirra og lífssýn fær brautargengi í lagasetningu á Alþingi. Meiri hlutinn tryggir að lífssýn þeirra og lífsskoðun á sýn landsins og fólkins skuli fylgt eftir með lagasetningu, ekki bara í þessu máli heldur í fjöldamörgum öðrum málum. Það gæti vel farið svo að einhvern tíma síðar í kvöld færi ég að ræða stjórn fiskveiða undir þessum lið að því er varðar kjaramál sjómanna því að þau skipta ekki litlu máli í því sambandi.

Frv. sem hér er til umræðu byggir á því að það tókst að kljúfa sjómannasamtökin, það tókst að koma mönnum út úr því sameiginlega fari sem þeir höfðu verið í. Með áróðri, hótunum og hvíslingum tókst mönnum koma sér upp kvislingum. Niðurstaðan af þeirri vinnu endaði með því að menn bjuggu til kjarasamning sem í almennri umræðu meðal sjómanna er kallaður ,,Laxdæla``.

Gerð var grein fyrir þessum kjarasamningi í hv. sjútvn. í nótt af forustumanni Vélstjórafélagsins sem er samningsaðili LÍÚ í þessum samningum. Ég held að ég sé ekki að fara neitt með rangt mál þó að það hafi skýrlega komið fram í viðtölum að eftir á að hyggja hafi forustumaður Vélstjórafélagsins séð að í kjarasamningnum, hinni svokölluðu ,,Laxdælu``, eru mörg slæm skref, skref sem menn ættu helst ekki að þurfa að feta en eru í raun og veru að hluta til ætlað að feta með stuðningi ríkisstjórnar og lagasetningu á Alþingi.

Ákvæði í þeim samningi eins og ákvæðið um að færri menn séu á skipi en samkvæmt skiptaákvæðum kjarasamningsins þýðir að kjararýrnun verður hjá sumum sjómönnum upp á 14--15%. Háseti sem hefur í árslaun 3 millj. kr. á samkvæmt kjarasamningi Vélstjórafélagsins á sumum skipunum í flotanum, þekktum dæmum sem hægt er að sýna fram á, að lækka um 450 þús. kr. á ári, þ.e. 15%. Hlutur hans á að fara úr 3 millj. kr. niður í 2.550 þús. kr. Það er árangurinn af mannafækkunarákvæðinu sem merkt er 2.1 í þessum kjarasamningi. Áhrifin eru minni sums staðar annars staðar, 5%. Það var upplýst að þessi áhrif væru meiri en menn hefðu gert ráð fyrir í samninganefnd vélstjóranna og jafnframt var upplýst af forustumönnum Sjómannasambandsins sem kom mér reyndar á óvart af því að talið var af formanni Vélstjórafélagsins að þetta næði til fárra skipa og væru afmörkuð dæmi, en formaður Sjómannasambandsins telur að miðað við fyrri útreikninga hafi þetta einhver áhrif í öllum kjarasamningum, mismunandi mikil. Það er illt að standa uppi með það eftir að hafa sýnt biðlund í heilt ár með lausa kjarasamninga og boðið síðan fram sáttatilboð til að koma í veg fyrir að hér hæfust verkföll, enda síðan í verkfallsaðgerðum til þess að knýja fram lausn á kjarasamningi, að standa þá uppi með það að niðurstaðan af því að einn forustumaður sjómanna tók sig út úr og ákvað að búa til snöggan kjarasamning skuli vera sú að það þýði launalækkun hjá meginþorra sjómanna. Það er illt hlutskipti. Ég kannast ekki við það úr kjarasamningssögu fiskimannanna að það hafi áður gerst í kjarasamningum að menn hafi samið um launalækkun. Þetta held ég að sé afar slæmt fordæmi, enda viðurkenndi formaður Vélstjórafélagsins að þetta væri slæmt, þetta væru mistök. Það þyrfti að leiðrétta þetta og jafnvel væri vilji fyrir því að leiðrétta þetta.

Gott og vel. Málið skánar auðvitað ef menn ná að leiðrétta mistök. En það er bara fleira í þessum samningi. Varðandi lífeyrissjóðinn, viðbótargreiðslurnar í viðbótarsparnaðinum er komin viðmiðun við kauptryggingu sem er skref sem ég tel að sjómannasamtökin hefðu alls ekki átt að stíga. Það hefði verið betra að semja um áfangahækkanir af öllu kaupi heldur en byrja á að finna gömlu viðmiðunina sem menn voru að berjast við að ná út úr kjarasamningi. Gömlu viðmiðunina, gömlu kauptrygginguna sem á fyrstu árum lífeyrissjóðsins frá 1970--1980 gaf sjómönnum engan lífeyrisrétt, nánast engan vegna þess hve litlar greiðslur voru inn í sjóðinn. Þarna held ég að hefði ekki átt að byrja og ég held að nær hefði verið að nota annað viðmið.

Síðan er útfærslan á fiskverðinu kapítuli út af fyrir sig og hverng að því er staðið. Og hvað segir um það í frv. því sem við erum hér að ræða? Jú, í 2. gr. segir um það atriði, með leyfi forseta:

,,Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm. Skal gerðardómurinn ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr.:``

Eins og ég gat um áðan eru þar enn nefnd samtök sem eru búin að aflýsa verkfalli og við erum samt að ræða frv. eins og það liggur hér fyrir.

[14:15]

Síðan segir að því er fiskverð varðar:

,,Skal gerðardómurinn ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr.:

a. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila.``

Skyldi vera tilviljun að þetta er orðað svona eða skyldi þetta orðalag koma einhvers staðar frá? Jú, það kemur nefnilega úr samningi Vélstjórafélagsins. Þangað er þetta hugtak sótt sem hér er að fæðast um viðmiðunarverð til hlutaskipta. Ekki brúttóverð, ekki skiptaverð, nei, viðmiðunarverð til hlutaskipta, ný útfærsla inn í kjarasamning sjómanna.

Dettur mér þá í hug að víkja að orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar hann talar stundum um það hér í þessum ræðustól að fjármagnið fái ekki hlut, (PHB: Nægan.) nægan hlut, rétt skal vera rétt. Nú er það þannig að í kjarasamningum fiskimanna fær fjármagnið 20% beint út úr brúttóverði. Af hverjum 100 kr. sem aflast á skip fá útgerðarmenn beint til sín í hlut í fjármagninu, í hlut fyrir fjármagnið 20% í beina kostnaðarhlutdeild. Það er hlutur fjármagnsins í kjarasamningnum. Síðan kemur næsti hlutur sem dreginn er frá áður en laun sjómanna eru fundin, sem er hlutur olíukostnaðarins, hlutur þess að hægt sé að sigla skipinu. Hann er 10%. Þá eru tekin 10% frá áður en kemur til hlutaskipta í sérstakan olíukostnað útgerðarinnar. Og eru þá farin 30% af innkomunni.

Þá höfum við hingað til verið komnir að nokkru sem kallað hefur verið skiptaverð og úr skiptaverðinu hafa sjómenn fengið hlut. Þeir hafa samkvæmt kjarasamningum okkar oftast nær verið á bilinu 28% og upp í 33% eftir veiðiaðferðum eða gerðum skipa, sem sjómenn hafa fengið í sinn hlut af 70%, af skiptaverðinu. Það hefur verið kaup þeirra. Eins og ég gat um áður hefur aflahluturinn sem betur fer oftast nær dekkað langmestan hluta launa sjómanna og vægi aflahlutarins sennilega yfir 90% í launum sjómanna, fiskimanna almennt, en aðrir kaupliðir eins og tímakaup, kauptrygging og slippfararkaup, fatapeningar --- ef hægt er að kalla það kaup, það er náttúrlega greiðsla á fatnaði sem menn eru að nota og varla hægt að kalla það kaup --- hafa verið innan við 10%.

En í þessum samningi fæðist ný hugsun varðandi sérstakt viðmiðunarverð til hlutaskipta. Er þetta eitthvað sem útgerðarmenn sáu sér sérstakan akkur í að koma inn í samninginn? Það væri e.t.v. hægt að fara að prjóna t.d. fjármagnshlutinn eitthvað við það að færa niður viðmiðunarverðið til hlutaskipta. Kann að vera, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að kviknað hafi á einhverri peru hjá útgerðarmönnum við leiðbeiningar hv. þm. um að sér fyndist að fjármagnið fengi ekki nægan hlut?

Ég tel að þarna sé illa farið ef menn fara að búa sér til enn eina nýja viðmiðun, verð til viðmiðunar í hlutaskiptum. Skyldi það eftir einhver ár vera orðið annað en skiptaverðið, t.d. 60%, að viðmiðunarverðið væri 60% og þá legðu menn skiptaverðinu fyrir róða í staðinn? Ég óttast að þannig geti verið í pottinn búið, að menn séu að koma nýrri hugsun inn í kjarasamning sjómanna sem útgerðarmenn hyggist feta sig eftir við að ná niður kaupi sjómanna því að forustumaður útgerðarmanna sagði í nótt að kröfum þeirra í kjarasamningi, jafnvel gagnvart vélstjórunum, hefði engan veginn verið fullnægt, þar vantaði mikið á. Þeir ætluðu sér að fá meira, miklu meira, eins og upplýsingarnar sem birtust í svari þeirra við sáttatilboði sjómanna bera glöggt með sér. Það er kannski ekki að undra, herra forseti, þó að víða leynist orðalag sem menn þurfi að vara sig á.

Í 2. gr. er einnig atriði b., er varðar þau áhrif sem breytingar í fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör. Síðan eru talin upp fleiri atriði, þau eru öll talin upp í samningi ,,Laxdælu``. Þar af leiðandi liggur það fyrir því miður að þrátt fyrir breytinguna á 3. gr. er enn þá verið að vitna í grunninn í þetta plagg, kjarasamning Vélstjórafélags Íslands sem sjómenn hafa kallað ,,Laxdælu`` og lýst almennt yfir lítilli ánægju með. Sem forustumaður Vélstjórafélagsins hefur einnig lýst yfir að væru í verulegir gallar sem þyrftu lagfæringar við. Það er auðvitað gott þegar menn sjá að þeim hafa orðið á mistök og eru tilbúnir að leiðrétta þau en það er hins vegar alvarlegt þegar Alþingi Íslendinga ætlar að festa gallana við aðrar stéttir. Það er mjög alvarlegur hlutur.

Það sem við ræðum hér er að við ætlum að lögfesta aðgerð sem byggir á því að gerður var sérstakur kjarasamningur við eitt samband sjómanna sem klauf sig út úr þeirri samstöðu sem hafði verið með mönnum. Það er auðvitað illt út af fyrir sig þegar slíkt er komið upp.

Síðan hafa verið rædd hér atriði og voru rædd í nótt í hv. sjútvn. sem fjalla um mannréttindi fólks, réttindi fólks til að gera kjarasamning og hvort slík gjörð sem hér á að fara að lögfesta stæðist þær alþjóðasamþykktir og alþjóðasamninga sem við höfum samþykkt fyrir okkar hönd. Reynt var að fullvissa okkur um það að sá texti sem var á blöðum og var kominn inn í brtt. meiri hluta sjútvn. dygði sennilega til þess að ekki yrði um málsókn að ræða á hendur stjórnvöldum. En 3. gr. hafði frá því að frv. var fyrst lagt fram verið breytt á svofelldan hátt, og les ég nú upp úr nál. meiri hlutans, með leyfi forseta:

,,Við 3. gr. Greinin orðist svo:

Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr.

Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna og getur í því sambandi haft hliðsjón af gildistíma annarra skyldra kjarasamninga.``

Ætli skyldleikinn birtist nú ekki þarna í 2. gr. sem ég var að vitna til? Það held ég að hljóti að vera.

Undir þetta nál. skrifa fimm þingmenn stjórnarflokkanna, Einar K. Guðfinnsson, Vilhjálmur Egilsson, Hjálmar Árnason, Kristinn H. Gunnarsson og Árni Ragnar Árnason. Þetta var sem sagt niðurstaða þessa meiri hluta, að orðalagið eins og það er nú í 3. gr. dygði til þess að stjórnvöld á Íslandi fengju þó aldrei nema létta áminningu um það að þau hefðu nú kannski farið örlítið á svig við lögin, á svig við alþjóðasamninga.

Ég verð hins vegar að segja og ítreka þá skoðun mína að í 2. gr. eru svo skýrt talin upp þau viðmið sem hvergi er að finna annars staðar en í ,,Laxdælu`` að gerðardómur getur varla velkst í vafa með það að við þann samning er átt enda mun hann hvergi í samningi finna orðalagið ,,verð til viðmiðunar í hlutaskiptum`` en í þeim samningi, að ég hygg. Það mál er þannig vaxið að með þessu lagafrv. er ætlað að koma málum í þann farveg að sjómenn almennt á landinu þurfi að una því að kjarasamningurinn sem nefndur hefur verið ,,Laxdæla`` verður yfir þá færður.

En hvað stendur þá upp úr í raun og veru eftir allar þessar vangaveltur mínar? Ég hygg að það standi upp úr að LÍÚ hafði aldrei nokkurn minnsta vilja til þess að lenda þessu máli. Ef þeir hefðu haft vilja til þess þá held ég að þeir hefðu teygt sig langt í janúar við að búa til sáttaleið sem byggðist á þessum þremur atriðum sem í sáttatilboðinu fólust og hefðu þannig komið í veg fyrir það að hér hæfust verkfallsátök 16. mars sem ríkisstjórnin aflýsti að vísu strax 19. mars og ætlar svo síðan að fara að aflýsa aftur nú. Þeir sáu sér ekki hag í því, mennirnir sem eiga atvinnutækin sáu sér ekki hag í því að tryggja að hér yrði starfsfriður allt þetta ár án verkfallsátaka. Nei, þeir völdu hina leiðina, þeir völdu þá leið að svara mönnum nánast með skætingi eins og að krefjast þess að þegar hlutaskiptakerfið væri aflagt þá gætu menn farið að ræða þetta eða ræða hitt. Þannig er viðhorfið sem sjómannasamtökin hafa fengið.

Það er niðurstaða mín að það sé Landssamband ísl. útvegsmanna sem séð hafi til þess með viðbrögðum sínum í þessari deilu allri og reyndar í fyrri deilum einnig, mörgum hverjum, að hér hafa sjómenn, seinþreyttir til verkfalla, orðið að grípa til þess að hefja verkföll og láta það á sér og sínum bitna að berjast fyrir kjörum sínum með því að taka sjálfa sig af kaupi. En eins og ég gat um áður hafa þeir verið langþreyttir til þess og hafa ekki gripið til þess ráðs í neinni skyndingu.

[14:30]

Sjómannasambandið gaf út sérstaka yfirlýsingu sem farið var yfir í morgun. Ég ætla að lesa hana aftur, herra forseti:

,,Yfirstandandi verkfalli aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, sem samninganefnd sambandsins hefur umboð fyrir, er hér með aflýst. Ákvörðun þessi er byggð á þeirri forsendu að fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um kjaramál fiskimanna og fleira sem sviptir sjómenn samnings- og verkfallsrétti.

Verði frumvarp þetta að lögum munu félagsmenn aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands verða sviptir grundvallarmannréttindum, sem þeim eru tryggð í íslenskum lögum, stjórnarskrá lýðveldisins og alþjóðlegum sáttmálum, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að hlíta. Félagsmenn aðildarfélaga sambandsins og stéttarfélög þeirra yrðu með þessu jafnframt svipt rétti til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um kjarasamningsbundin réttindi sín.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir verulegri kjaraskerðingu sjómanna auk þess sem mælt er fyrir um afnám gildandi laga, sem beinlínis er ætlað að tryggja réttindi félagsmanna aðildarfélaga sambandsins.

Með hliðsjón af ofangreindu og í því skyni að varna því að umrædd lög verði samþykkt á Alþingi Íslendinga, er yfirstandandi verkfalli aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, sem samninganefnd sambandsins hefur umboð fyrir, aflýst.``

Formaður samtakanna, Sævar Gunnarsson, skrifar undir þessa yfirlýsingu.

Það er svo sem ekki að undra að menn hafi í neyð sinni valið þennan kost frekar en að sitja uppi með það að þurfa kannski að una kjaraskerðingu í kjölfar lagasetningarinnar sem hér um ræðir.

Herra forseti. Ég hef í höndunum dæmi um lítinn ísfisktogara þar sem ekki er tekið tillit til raunmönnunar, um hvernig það muni breytast miðað við þann kjarasamning sem sjómenn hafa hér í þessum texta kallað fyrir og eftir ,,Laxdælu``. Þannig er að almenna kjarabreytingin á öllum stöðugildum frá skipstjóra niður í háseta er 14,39%. Hlutur úr veiðiferð þar sem aflaverðmæti er 3,5 millj. kr. lækkar úr því að vera 77.700 kr. á háseta niður í 66.500 kr. á háseta, eða um 11.200 kr. tæpar.

Það er ekki nema von að menn velji þann kostinn, jafnvel eftir að hafa verið með lausa kjarasamninga talsvert á annað ár, að aflýsa verkfalli sínu í von um að þeir megi með þeirri aðgerð komast undan lagasetningu á löglegar og réttmætar aðgerðir sjómanna. Ég ætla að endurtaka, herra forseti, að ég held að í annan tíma hafi ekki verið gerður kjarasamningur upp á slíkar launalækkanir sem hér er tekið dæmi, hvað þá að samið hafi verið um almenna launalækkun fyrir langmestan hluta starfandi sjómanna, eins og fram kom í máli forustumanna sjómanna í nótt.

Deilan um fiskverðið hefur löngum snúist um að hér á landi voru stofnaðir uppboðsmarkaðir fyrir fisk. Fiskur fór að seljast hér í frjálsum viðskiptum á uppboðsmörkuðum þar sem verðið réðst af framboði og eftirspurn, þ.e. opnum og eðilegum viðskiptaháttum. Sjómenn hafa lengi sóst eftir því að verð á uppboðsmörkuðunum yrði notað í verðmiðun þeirra. Þó þeir hafi vissulega talið að réttast væri, og ég er þeim sammála um það, að fiskur yrði almennt verðlagður samkvæmt fiskmarkaði þá hafa þeir samt verið tilbúnir til að hann hafi í það minnsta viðmið af fiskmarkaðsverði. Sjómannasamtökin hafa sett þá kröfu fram á undanförnum árum, að þannig væri verðmyndun afla hér á landi eðlilega fyrir komið. Þetta er reyndar sama aðferðin og notuð er í flestum löndum í kringum okkur og hefur gefist ágætlega. Þessari aðferð var komið á í Danmörku á síðasta ári og Færeyingar tóku upp þessa verðmyndunaraðferð alfarið á fiskafla sínum fyrir nokkrum árum. Það hefur gefist vel. Þetta er einnig sú aðferð sem menn telja almennt eðlilega í viðskiptum, að viðskiptin fari fram fyrir opnum tjöldum og menn séu jafnir í þeim viðskiptum.

Þessi aðferð ætti að eiga upp á pallborðið hjá forustumönnum í Sjálfstfl., hún ætti í raun og veru að flísfalla við þeirra hugsun, væri einhver minnsti vilji hjá þeim til að fylgja eftir sumum af þeim stefnumálum og áherslum sem flokkurinn telur sig hafa staðið fyrir á undanförnum árum, þ.e. að markaðurinn ráði verðmyndun svo að halda megi uppi virkri og eðlilegri samkeppni og eðlilegum viðskiptaháttum. Þess vegna hefði maður haldið að Sjálfstfl. og forustumenn hans mundu taka slíkri framsetningu fagnandi og feta þá braut með Sjómannasamtökunum að fiskverð hér innan lands myndaðist á almennum uppboðsmörkuðum. Það væri jákvætt skref að setja löggjöf um að verð í viðskiptum milli manna, vilji þeir kaupa eigin fisk eins og sagt er, skuli a.m.k. hafa viðmiðun í fiskmarkaðsverði. Nei, það er ekki raunin.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum birtist, eftir landsfund Sjálfstfl., stefnumótunarplagg. Þar sagði m.a. eitthvað á þá leið að stefnt skyldi að því að allur fiskur tæki verðmyndun á markaði. Ég hugsa að hv. þm. Pétur H. Blöndal muni þetta með mér, við erum álíka langminnugir, hugsa ég. Kannski að hv. þm. Katrín Fjeldsted muni þetta líka. Seinni árin hef ég hins vegar tekið eftir því að þessi upptalning er ekki lengur inni í stefnumálum Sjálftsfl. Hún hefur sennilega dottið til hliðar, a.m.k. verið sett ofan í skúffu tímabundið, alla vega fram að næstu kosningum. Kannski væri þetta gott kosningamál fyrir menn að draga upp, svipað eins og sáttatilboðin í stjórn fiskveiða sem rædd voru í gær og sagt frá því að í sérstakri sáttanefnd hefðu aðallega verið haldnir fáir fundir. Það hefði oft verið boðað til þeirra en þeim hefði jafnoft verið aflýst. Samkvæmt þessu hafa fáir fundir verið boðaðir í þessari svokölluðu sáttanefnd, sem var jú eitt af kosningaloforðum Sjálfstfl. í síðustu kosningum varðandi hið stóra deilumál, stjórn fiskveiða, sem vissulega tengist kjaramálum sjómanna. Ágætistækifæri mun gefast til að fara yfir það við þessa umræðu seinna í dag og í kvöld.

Ég var hins vegar að ræða hér um eðlilega, opna viðskiptahætti við verðmyndun. Ég verð að segja að ég sé að hjá öðrum þjóðum hefur slíkt fyrirkomulag leitt af sér góða hluti, aukin verðmæti, betri umgengni um auðlindina og aukna veltu í þjóðfélögum. Þannig hefur það t.d. verið í Færeyjum, afkoma sjávarútvegsins hefur orðið betri og skuldasöfnun útgerðarinnar minnkað. Ekki væri vanþörf á því hér á landi eftir að ,,blessað`` kvótakerfið var tekið hér upp og mönnum tókst að safna skemmtilegum skuldum út á kvótabraskið, skuldum sem vaxa án þess að nokkur hafi hugmynd um það og birtast annað slagið í því að skuldir útgerðar hækka um 30--40 milljarða á örfárra ára fresti. Skyldi ekki vera að það væri akkur í því fyrir íslenska útgerð að fá sem hæst verð fyrir aflann og að teknir yrðu upp eðlilegir og sjálfstæðir viðskiptahættir varðandi fiskverð? Jú, maður skyldi ætla það.

Út frá samkeppnissjónarmiðum skyldi maður líka ætla að eðlilegt væri að skilja á milli fiskveiða og vinnslu, að fiskveiðifyrirtækin skyldu rekin undir annarri kennitölu en fiskvinnslufyrirtækin, jafnvel þó að eigendur væru þeir sömu. Þar væri sérstakt og aðskilið bókhald og hluthafarnir yrðu þá að gera kröfu til arðsemi beggja megin, jafnvel þó að það væru sömu hluthafarnir sem ættu bæði fyrirtækin. Það mundi kannski hjálpa mönnum við að átta sig á því að tekjur útgerðarinnar koma í gegnum fiskverð.

Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál útgerðar og sjómanna í eðlilegu þjóðfélagi að halda uppi háu fiskverði, góðu og háu fiskverði, auðvitað að því gefnu að kaupendur treysti sér til að kaupa á því verði. Auðvitað þarf vinnslan að geta staðið undir sér líka en við höfum dæmi um það hér á landi að hægt hefur verið að reka fiskvinnslu árum saman með því að kaupa nánast allt sitt hráefni á fiskmörkuðum. Nokkur fyrirtæki hér á landi hafa staðið sig frábærlega í að kaupa allan afla á fiskmörkuðum. Ég tel að slíkt fyrirkomulag mundi bæta eðlilega viðskiptahætti hér á landi, tryggja betur hag útgerðarinnar og reyndar einnig hag sjómanna. Það mundi auka almenn verðmæti úr sjávaraflanum og almennt verða til góðs fyrir íslenskt þjóðfélag þegar upp væri staðið. Maður skyldi því halda að það væri einnig kappsmál Sjálfstfl. að taka hér upp frjálsa verðmyndun á fiski.

Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan hlýtur að vera sú, miðað við hvernig Sjálfstfl. hefur tekið á þessum málum á undanförnum árum, að sjálfstæðismenn leggjast ævinlega á sveif með útgerðarmönnum og hjálpa þeim að skammta sér lægra fiskverð en þeir gætu fengið, eins einkennilegt og það er nú að menn sem veiða fisk skuli ekki vilja fá fyrir hann hæsta verð. Útgerðarmönnum er hjálpað við að binda það fyrirkomulag niður að hér á landi sé fiskverði útgerðanna handstýrt, m.a. til að halda niðri kaupi sjómanna og útgerðarmennirnir geti þá skammtað sér það sem afgangs er í arð fyrir auðlindina, í arð fyrir kíló af syndandi fiski.

Það skyldi þó ekki vera að meinið í allri þessari deilu sé að þeir sem fengið hafa handhöfn og eignarhald á aflanum syndandi í sjónum ætli sér sérstakt verð fyrir slíkt vald, að hafa aflann óveiddan á sinni hendi? Það skyldi þó ekki vera þess vegna að mönnum er svo í mun að ná fram lágu viðmiðunarverði, lágu viðmiðunarverði hlutaskipta --- takið eftir að ég nefni hið nýja viðmið kjarasamninga. Er ætlunin að útgerðarmenn geti farið að reikna sér arð af kílóunum í sjónum og sagt við sjálfa sig: Hvað eigum við að fá til okkar af þessum arði, einir og sér? Ætli það sé ekki hluti af þessu máli?

[14:45]

Herra forseti. Ég held að það væri fróðlegt að fara í langa umræðu um verðmyndun á fiskafla og hvers vegna í ósköpunum menn standa í illvígum deilum frekar en að láta fiskmarkaðinn sjá um verðmyndunina, ekki bara á þessu ári heldur árum saman, áratugum saman. Það er óskiljanlegt að Sjálfstfl., flokkur sem kallar sig flokk frjálsrar samkeppni, skuli berjast fyrir því að halda þessu fyrirkomulagi óbreyttu.

Það er vitnað til annarra ákvæða í kjarasamningi Vélstjórafélagsins í þessu frv., t.d. um, eins einkennilegt og það er nú er, afmörkun helgarfría á netaveiðum fiskimanna. Það er sérstaklega talið upp í þessu kjaramálafrv. að skoða þurfi afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum. Það er alveg sérstakt mál fyrir Alþingi að koma að því og taka það atriði með.

Miðað við þessa upptalningu er ég hissa á að menn skuli ekki hafa sett inn í frv. að skoða þyrfti sérstaklega hversu mikinn frítíma sjómenn hafa í kjarasamningi sínum. Eins og ég hef vikið að hér áður þá hafa sjómenn að meðaltali um fjóra frídaga í mánuði, það er lágmarksréttur þeirra. Á sumum veiðum eru helgarfrí og hafa verið lengi. Ég held að það hafi ekki verið mjög miklar deilur um þessi helgarfrí. En hér er allt í einu sett inn í lagatexta að það sé sérstakt vandamál sem menn skuli velta sérstaklega fyrir sér, helgarfrí sjómanna á netaveiðum og afmörkun þess. Já, það er alveg sérstakt hvað menn taka sér fyrir hendur að kveða á um í lagafrumvörpum.

Auðvitað er meginatriði þessa máls, það sem er algjörlega óásættanlegt í því, að verið er að taka verkfallsréttinn af sjómönnum. Ég ætla að víkja aðeins að því, herra forseti, hvernig staðið hefur verið að málum eftir að boðað var til verkfallsaðgerða. Það liðu þrír sólarhringar frá því að verkfall skall á 16. mars þar til komið var fyrir Alþingi frv. um að aflýsa verkfalli sjómanna. Síðan var sæst á að setja því takmörk, að því skyldi frestað til 1. apríl. Það var talið mikið kappsmál að setja þau lög á þeim tímapunkti.

Ég lít svo á að með þeirri lagasetningu hafi verið um algjört skemmdarverk að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar á þróun kjaradeilunnar. Telja má að það hafi beinlínis orðið til þess að kjaradeilan hefur dregist svo á langinn eins og raunin hefur orðið. Ef kjaradeilan hefði haldið áfram frá því að verkfall hófst 16. mars þá hefði a.m.k. verið fullur þrýstingur í deilunni fyrstu daga þess. Það hefði kannski getað leitt til þess að menn hefðu náð samkomulagi á þeim dögum, meðan þrýstingurinn var sem mestur.

Eftir að kjaradeilan hófst að nýju 1. apríl var búið að taka þann þrýsting burtu sem var í verkfallinu frá 16. mars. Þannig var alveg ljóst, ekki síst með tilliti til þess að sjómenn höfðu verið keyrðir hart mánuðina og vikurnar á undan til veiða, enda vitað að það gæti dregið til verkfallsaðgerða, að þegar þeir voru sendir aftur út á sjó eftir fjóra daga og kæmu aftur inn í verkfallsaðgerðir 1. apríl þá væri enginn svakalegur samningsvilji. Þar fyrir utan verða öll inngrip í slíka kjaradeilu ævinlega til þess að upp kemur hnútur á viðræðurnar, sem mismunandi erfitt er að leysa. Það þekkja allir sem tekið hafa þátt í gerð kjarasamninga að slík inngrip valda því að það gengur frekar aftur á bak í einhverja daga en áfram. Það varð auðvitað raunin af þessu inngripi.

Núna er gripið í annað sinn inn í þessa kjaradeilu, herra forseti, og það er út af fyrir sig nýmæli, að tvisvar skuli sett lög á sömu kjaradeiluna. Ég sagði fyrr í ræðu minni að mönnum færi fram, þ.e. stjórnarliðum, í lagasetningum á sjómenn. Ég tel að þegar verkfallið var sett á í mars hafi verið kominn nokkur gangur í þá deilu. Því var auðvitað mótmælt að gripið væri inn í kjaradeiluna á þeim tímapunkti. Auðvitað mótmæltu deiluaðilar því. Nú standa menn hins vegar, eftir sex vikur, frammi fyrir afleiðingum þessara inngripa, þ.e. þeim að samningar hafa ekki enn komist á. Afleiðingarnar eru einnig þær að samstaða sjómanna hefur verið brotin upp með tilheyrandi trúnaðarbresti á milli sjómannasamtakanna og jafnframt eru ákvæði í kjarasamningi ,,Laxdælu`` sem eru algjörlega óásættanleg. Sjómannasamtökin voru búin að bjóðast til að miðað yrði við svokallaða raunmönnun, að raunmönnun yrði skoðuð eins og hún hefði verið á skipunum undanfarin ár og vinna sig út frá því. Hefði mönnum enn fækkað frá því sem þar var gert ráð fyrir þá hefði staðan breyst á milli sjómanna og útgerðar, einkum ef slík fækkun stafaði af nýrri tækni og aukinni vinnuhagræðingu um borð í skipunum og sýna mætti fram á það. Um það atriði í ,,Laxdælu`` er sennilega ekki mikill ágreiningur. En um hitt atriðið, að ef mönnum fækki um borð í veiðiskipi þá skuli útgerðin fá hlut, eru menn mjög ósáttir, enda er verið að tala um fyrirkomulag sem verið hefur til fjölda ára.

Dæmið um matsveininn sem veikist og áhöfnin tekur að sér að vinna verkin hans er þannig að af 1,25 hásetahlut matsveinsins fær útgerðin 1/4 þó að áhöfnin taki að sér eldamennskuna, sjái til þess að veiðiferðin gangi fyrir sig og bæti á sig vinnunni, þá fær útgerðin 1/4 og áhöfnin 3/4. Þannig er það fyrirkomulag. Auðvitað hefði þurft að skoða þessi mál miklu betur og vinna þetta miklu betur en þessi útfærsla ber með sér, enda er það viðurkennt af þeim mönnum sem komu að þessari samningagerð að því miður hefðu verið gerð mistök í henni. Þannig er nú það, hæstv. forseti. Menn sitja uppi með frv. sem að hluta til er byggt á atriðum sem þeir sem gerðu samninginn hafa lýst yfir að væru mistök.

Sett voru lög um kjaramál sjómanna á árinu 1998. Þá komu m.a. inn ákvæði um Kvótaþing, Verðlagsstofu skiptaverðs og nánari ákvæði um úrskurðarnefnd. Þessi ákvæði voru lögfest hér á hv. Alþingi. Þeim ákvæðum var ætlað að draga úr deilum milli sjómanna og útgerðarmanna, m.a. um fiskverð og hvernig fiskverð myndaðist og til að koma í veg fyrir svokallaða kvótaþátttöku sjómanna. Það verður að segjast að þrátt fyrir að þessu hafi verið komið á þá eru menn enn á sama stað og enn er deilt um þessi atriði. Ég hef heyrt forustumenn sjómanna tala um að þeim fyndist í aðra röndina að þegar lög hafi verið sett til að ná ákveðnum markmiðum sem þó nást ekki þá standi það frekar upp á Alþingi að lagfæra slíkt en hitt, að gera það verra. Það sem menn óttast núna er að það sem nú stendur til verði til þess að ástandið í verðlagsmálum batni ekki heldur versni. Það er auðvitað óásættanlegt. Mér finnst að sjómenn hafi nokkuð til síns máls varðandi það að þegar lög sem Alþingi setur virka ekki þá beri frekar að lagfæra þau svo þau nái markmiðum sínum fremur en að snúið sé frá og sett á lög sem eru beinlínis í andstöðu við það sem áður var stefnt að með lögum árið 1998. Meðal annars þess vegna eru sjómannasamtökin ekki hrifin af þeim breytingum sem í frv. felast.

Herra forseti. Ég er að velta því fyrir mér að fara að ljúka máli mínu að þessu sinni og leyfa fleiri sjónarmiðum en ég hef gert að umtalsefni að komast að. Ég vonast hins vegar til, þar sem fyrir liggur að Sjómannasambandið hefur aflýst verkfalli sínu, að stjórnarliðar taki sér það fyrir hendur að skoða hvort ekki þurfi að endurskoða algjörlega frv. sem við erum hér að ræða, ekki eingöngu út frá yfirlýsingu Sjómannasambandsins heldur t.d. einnig út frá því sem fram hefur komið um Alþýðusamband Vestfjarða, sem mér var tjáð í morgun af mönnum vestur á fjörðum að hefði aldrei boðað til neinna verkfallsaðgerða. Það kann hins vegar að vera að staðan sé sú að verkbann LÍÚ verði þess valdandi og knýi það fram að lagasetningin nái til Alþýðusambands Vestfjarða. Það kann að vera, ég er ekki nógu lögfróður til að átta mig á því. Hitt er hins vegar alveg ljóst, að menn þurfa að skoða frv. alveg upp á nýtt í ljósi nýrra upplýsinga um að Sjómannasambandið hafi aflýst verkfalli.

Það væri náttúrlega eftir öllu öðru og eftir þeim litla samningsvilja sem LÍÚ hefur sýnt í allri þessari deilu ef þannig yrði í pottinn búið að yfirlýst verkbann LÍÚ yrði til þess að það yrðu jafnvel sett lög á menn sem ekki eru í verkfalli. Þá væru menn náttúrlega búnir að ná miklum árangri í að láta stjórnarflokkana þjóna markmiðum Landssambands íslenskra útvegsmanna með sérstöku afbrigði lagasetningar á Alþingi, herra forseti.