Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 15:03:14 (7820)

2001-05-15 15:03:14# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, kærlega fyrir yfirgripsmikla og ítarlega ræðu sem var um margt mjög upplýsandi. Mig langaði eingöngu til að spyrja hv. þm. um eitt í ljósi þess að hann hefur um árabil og raunar áratuga skeið verið í forustusveit sjómanna og síðan Farmanna- og fiskimannasambandsins og enn fremur lengstan hluta þess tíma einnig verið í forustusveit Sjálfstfl. á þeim tíma þar til um síðustu kosningar. Í ljósi yfirgripsmikillar þekkingar hans á innviðum beggja þessara samtaka og þess umhverfis sem við hrærumst í og erum hér að ræða lítur hann þannig á að Sjálfstfl. hafi breyst mjög í tímans rás og kannski á síðustu missirum og árum í þá veru að sýna meiri harðdrægni og miskunnarleysi og skilningsleysi á kjörum sjómanna og ekki síður í samskiptum við samtök sjómanna og verkalýðshreyfingarinnar almennt? Mér þætti fróðlegt að heyra viðhorf hv. þm. til þessara mála.

Ég hef þá tilfinningu að afstaða Sjálfstfl., þessa flokks allra stétta sem hann kallar sig á hátíðastundum, hafi breyst mjög í þessa veru og vísa m.a. til mjög harkalegrar ræðu hv. þm. Árna Johnsens og fleiri í þessu sambandi. Er Sjálfstfl. ekki raunverulega að koma núna út úr skápnum sem harður flokkur útgerðarmanna og atvinnurekenda á Íslandi og það sé hjóm eitt og hlægilegt, satt að segja, að hann reyni að sveipa um sig skikkju flokks allra stétta?