Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 16:32:31 (7835)

2001-05-15 16:32:31# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það veitti nú ekki af umræðunni sem var hér í gær. Það er nú búið að sýna sig. Hvaða máli skiptir það að stytta málið í dag? Ég veit ekki til þess að málið hafi getað gengið hraðar fyrir sig. Það þarf þá að hafa eitthvert sérstakt ... (PHB: Afbrigði.) Það hefur ekki verið leitað eftir neinum afbrigðum hér. Ég veit ekki til þess. Og það verður auðvitað ekki hægt fyrr en umræðunni er lokið.

Ég sé enga ástæðu til annars en að menn fari yfir málin eins og menn telja sig þurfa. Það mun ekki lengja þetta verkfall og hefur ekki lengt það. Þetta mál er nú ekki búið að vera svo lengi til ákvörðunar hér í Alþingi. Það hefur ekki veitt af þeirri umræðu sem hefur farið hér fram. Vel kann að vera að mönnum hafi líka sést yfir eitthvað. Það er ekki búið að lagfæra þetta frv. eins og hefði þurft. Ég held að nefndin þyrfti að gefa sér tíma til þess að fást við það. Mér sýnist samt ekki að hv. stjórnarliðar hafi neinn áhuga á því að gera neinar lagfæringar á frv. til viðbótar. Aðalatriðið í málflutningi þeirra virðist vera að drífa þetta bara af.

Ég skil það svo sem vel. Það segi ég nú eins og er. Ég mundi ekki vilja vera í sporum hv. stjórnarþingmanna og sitja hér undir umræðu um þetta mál allt saman eins og það er og þurfa að bera ábyrgð á því að setja enn einu sinni lög á sjómenn vegna atriða sem eru fullkomlega á ábyrgð stjórnvalda í þessu landi.