Kjaramál fiskimanna og fleira

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 16:58:06 (7838)

2001-05-15 16:58:06# 126. lþ. 123.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Annars vegar hafa menn úr stjórnarandstöðunni bent á að nefndin, eða gerðardómurinn svokallaði, sé í reynd til málamynda. Það sé í reynd verið að þröngva vélstjórasamningnum upp á sjómenn. Þetta hafa menn úr stjórnarandstöðunni gagnrýnt. Hins vegar hef ég verið að gagnrýna gerðardóminn og að þessi nefnd eða gerðardómur skuli fá opinn tékka á að ákvarða kjör sjómanna.

En einu gleymir hv. þm. og það er grundvallaratriðið. Stjórnarandstaðan er algerlega einhuga í því að vísa þessu frv. í heild sinni til föðurhúsanna. Og hann er að leggja þetta upp á þá lund að hér sé einhver meiri háttar ágreiningur um það innan okkar raða hvernig eigi að orða frv. Stjórnarandstaðan er algerlega einhuga í því að þetta frv. beri að draga til baka í heild sinni. Sú er okkar afstaða og þar eru menn fullkomlega einhuga.