Ríkisútvarpið

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:18:43 (7846)

2001-05-15 18:18:43# 126. lþ. 123.16 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv. 50/2001, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Nefndarálitið er frá menntmn.

Markmið frumvarpsins er að leggja niður Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins sem stofnaður var með breytingu á útvarpslögum árið 1970. Var þá kveðið á um að 5% af heildartekjum stofnunarinnar skyldu renna í sjóðinn. Hlutfallið var hækkað í 10% með breytingu á útvarpslögum árið 1979.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að þau markmið sem stefnt var að með stofnun sjóðsins hafi verið að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins. Þessum markmiðum hafi verið náð.

Nefndin vekur hins vegar athygli á að í máli fulltrúa Ríkisútvarpsins og umsögn stofnunarinnar kom fram að enn er ólokið uppbyggingu dreifikerfis fyrir útvarp og sjónvarp sums staðar á landsbyggðinni. Leggur nefndin áherslu á að þeirri uppbyggingu verði lokið þrátt fyrir að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins verði lagður niður í núverandi mynd.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Menntmn. er einhuga í afstöðu sinni til málsins.