Ríkisútvarpið

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:20:16 (7847)

2001-05-15 18:20:16# 126. lþ. 123.16 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv. 50/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:20]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Frv. til laga um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, innifelur það í sér að 11. gr. laganna falli brott, eins og hv. frsm. málsins sagði áðan.

Það vakti athygli nefndarmanna þegar farið var að vinna að málinu að í grg. með frv. segir eftirfrandi, með leyfi forseta:

,,Þau markmið sem stefnt var að með stofnun Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins voru að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins. Þessum markmiðum hefur verið náð.``

Þessi setning úr greinargerðinni, herra forseti, er ekki rétt. Það sem hún lýsir er ekki rétt, eins og fram kom á fundi nefndarinnar þar sem útvarpsstjóri kom að máli við hv. menntmn. Þá kom að sjálfsögðu fram að allar þessar framkvæmdir eru viðvarandi og engri í raun lokið því áframhaldandi þörf er fyrir að endurnýja tækjakost stofnunarinnar og húsnæði og dreifikerfið er sannarlega enn þá afar götótt. Og það vita allir hv. þm. sem hafa fengið þær upplýsingar sem lagðar voru fram á þinginu á síðasta ári að u.þ.b. 75 heimili í landinu njóta ekki sæmilegra skilyrða til að taka við sjónvarps- eða útvarpssendingum.

Það kom líka fram í máli útvarpsstjóra þegar hann kom fyrir nefndina að Landssíminn muni hafa ákveðin áform um að fylla upp í þessi göt en þau loforð sem þar eru til staðar eru afar óljós. Í umræðum um málið í nefndinni var það alveg ljóst, herra forseti, að þeir sem bera hag landsmanna allra fyrir brjósti telja það fullkomlega óviðunandi að dreifikerfi Ríkisútvarpsins skuli ekki ná til allrar þjóðarinnar. Og ég vil ítreka, herra forseti, að afar mikilvægt er að tekið sé vel á þessu máli og því sé hraðað að dreifikerfið nái til allra landsmanna. Fyrr ríkir ekki sá jöfnuður sem við höfum viljað telja að hér ríkti.

Það má nefna t.d. varðandi dreifikerfið, eins og kom fram í umræðum í nefndinni, að bara þjóðvegur 1 er mjög illa dekkaður. Fyrir hlustendur sem keyra um á þjóðvegi 1 eru stór svæði sem ekki er hægt að ná útvarpssendingum sæmilega, svo ekki sé talað um ef farið er út fyrir þjóðveg númer 1 og var t.d. Barðaströndin nefnd í því sambandi.

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að taka það fram og ramma inn að tími framkvæmda hjá Ríkisútvarpinu er ekki liðinn og það er rétt, herra forseti, að minna á það hér að þingmenn hafa auðvitað annan vettvang en þann að halda Framkvæmdasjóðnum lifandi og halda klásúlunni um hann í lögunum til þess að efla Ríkisútvarpið. Og sá vettvangur, herra forseti, eru fjárlög íslenska ríkisins. Það verður að sjá til þess að tekið verði myndarlega á málum Ríkisútvarpsins í fjárlögum næsta árs ef það er vilji þingmanna, eins og maður hefur talið á umræðum hér og maður hefur lesið út úr því sem þingmenn segja og hafa vikið að, svo margir í mörgum ræðum og í ýmsum ritum, þá verðum við að fá að sjá þá pólitík í fjárlögum íslenska ríkisins.

Mikilvægt er að þetta komi fram hér, herra forseti, við þessa umræðu. Þó svo að ég sé sátt við það að þessi klásúla sé tekin út úr lögunum sjálfum og þessari skyldu Ríkisútvarpsins að setja þessa prósentu inn í Framkvæmdasjóðinn sé aflétt þá er það bara ítrekað hér að framkvæmdum við Ríkisútvarpið er sannarlega ekki lokið.