Húsaleigubætur

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:29:27 (7850)

2001-05-15 18:29:27# 126. lþ. 123.19 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv. 52/2001, Frsm. MS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Frsm. félmn. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. á þskj. 1185 um frv. til laga um breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa félmrn. ásamt því að fá umsagnir frá nokkrum aðilum.

Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélög og leigjendur þeirra verði leyst undan skyldu til þinglýsingar á leigusamningi þar sem sveitarfélögin eru í senn leigusalar og greiðendur húsaleigubóta. Þá er lagt til að áhrif skyldleikatengsla verði þrengd og að réttur til húsaleigubóta verði rýmkaður til að koma betur til móts við þá hópa sem búa við sérstakar aðstæður, svo sem fatlaða á sambýlum og námsmenn á framhalds- eða háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélögin séu ekki í stakk búin til að taka á sig hærri greiðslur húsaleigubóta. Telur nefndin rétt að sveitarfélögunum verði bættur sá kostnaðarauki sem samþykkt frumvarpsins mun hafa í för með sér.

Mælir nefndin með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta álit skrifa nefndarmenn en þrír með fyrirvara, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal og Ásta R. Jóhannesdóttir.