Húsaleigubætur

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:31:06 (7851)

2001-05-15 18:31:06# 126. lþ. 123.19 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv. 52/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá frsm. nefndarinnar hef ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, þ.e. fulltrúar Samfylkingarinnar í félmn., ritað undir þetta nál. með fyrirvara og leggjum við fram brtt. við málið.

Eins og fram kemur í nál. er verið að leggja til að reglur eða réttur til húsaleigubóta verði rýmkaður til að koma betur til móts við þá hópa sem búa við sérstakar aðstæður, svo sem fatlaða á sambýlum og námsmenn á framhalds- og háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum.

Við leggjum fram brtt. á þskj. 1236 um að einnig öðlist rétt til húsaleigubóta einstæðir foreldrar sem búa saman tímabundið í sérstöku húsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra þannig að þeir öðlist rétt til húsaleigubóta.

Eins og mörgum er eflaust kunnugt er það svo að margir einstæðir foreldrar sem eru í húsnæðisvandræðum búa tímabundið í íbúðum Félags einstæðra foreldra þar sem þeir deila jafnvel eldhúsaðstöðu og annarri sameiginlegri aðstöðu. Þetta fólk hefur ekki átt rétt á húsaleigubótum en við leggjum til að gerð verði breyting á 3. gr. frv. í þá veru að inn í það komi tvær nýjar málsgreinar.

,,Við 3. gr.

a. Inngangsmálsgrein orðist svo:

Við 7. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi.

b. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. hafa einstæðir foreldrar sem búa saman tímabundið í sérstöku húsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra rétt til húsaleigubóta.``

Einnig viljum við minna á það baráttumál okkar sem við höfum vakið máls á í umræðu um húsnæðismál sem er að afnema skattskyldu á húsaleigubætur, þ.e. að undanþiggja skal þær frá skatti eins og t.d. vaxtabætur. En þar sem það er ekki hluti af þessum lögum var ekki unnt að gera þá breytingu við þessa lagasetningu en við minnum á að þetta er eitt af baráttumálum Samfylkingarinnar í húsnæðismálum og teljum við að gera þurfi þá breytingu hvað varðar húsaleigubæturnar.

En hér er sem sagt, herra forseti, brtt. frá okkur, mér og hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, um að einstæðir foreldrar sem búa tímabundið í húsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra og deila hluta af húsnæðinu saman öðlist rétt til húsaleigubóta.