Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:09:54 (7869)

2001-05-16 10:09:54# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:09]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Eftir að Sjómannasambandið aflýsti verkfalli sínu í gær er orðið ljóst að málið er allt öðruvísi vaxið en þegar það kom hér inn fyrst, að því er mér virðist, að það á að búa til sérstakan farveg með gerðardómi sem á að ákveða kjör sjómanna. Ég held að tilgangur frv. sé nánast orðinn einn, þ.e. að færa tekjur frá sjómannastéttinni yfir til útgerðarinnar í gegnum mönnunarmálin.

Ég held að kröfur Landssambands íslenskra úvegsmanna, sem viðheldur verkbanni á alla sjómenn, jafnvel þá sem ekki hafa boðað til vinnustöðvunar eins og Alþýðusamband Vestfjarða, til þess að koma öllum inn í þennan sama pakka, séu að fá samþykkt lög af meiri hluta Alþingis um gerðardóm og lög á verkfall sjómanna þar sem tilgangurinn virðist vera orðinn sá einn að sjómönnum skuli skipað í sínum kjaramálum til framtíðar með þann grunn að breyta tekjuskiptingunni milli sjómanna og útgerðarmanna. Mér sýnist það vera orðinn eini tilgangur málsins.