Orð sjávarútvegsráðherra

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:25:04 (7880)

2001-05-16 10:25:04# 126. lþ. 124.94 fundur 555#B orð sjávarútvegsráðherra# (um fundarstjórn), SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefði út af fyrir sig verið ærið tilefni til að biðja líka um orðið út af fundarstjórn forseta eins og hún hefur verið hér upp á síðkastið. En ég vil bera af mér þær sakir að ég hafi einhvern áhuga á því að snúa út úr máli hæstv. sjútvrh. Svo er ekki.

Nú vill svo vel til að hægt er að fá útskrift af ræðum hæstv. sjútvrh., bæði hér á mánudaginn var og eins í gær, þar sem hæstv. ráðherra talaði þannig að það var ómögulegt að skilja mál hans öðruvísi en svo að þeir sem mundu aflýsa verkfalli væru þar með komnir út úr gerðardómshluta frv. og ráðherra tók það sérstaklega fram, en hins vegar teldi hann að svo lengi sem einhverjar stéttir ættu í deilunni, þá mundi afgangurinn af frv., bandorminum, ganga hér í gegn og verða að lögum.

Nú skulum við, herra forseti, ekkert vera að þrátta í sjálfu sér um þetta, heldur styðjast við útskrift af ummælum hæstv. sjútvrh. og það er best að nota þær þegar til umræðunnar kemur og þá mun sjást og sannast að mínu mati að hæstv. ráðherra er kominn í miklar ógöngur því að hann var í raun búinn að gefa fyrirheit um allt aðra afgreiðslu málsins en nú stefnir í ef marka má þær fréttir sem við höfum fengið.