Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:48:23 (7887)

2001-05-16 10:48:23# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar ríkir svona víðfeðm sátt um þær breytingar á lögum um Seðlabankann sem hv. þm. kynnti í framsögu sinni fyrir nefndaráliti. Þingmenn Samfylkingarinnar skrifa undir með fyrirvara en þeir eru sammála þeim meginbreytingum sem er að finna í frv.

Frv. miðar að því að auka sjálfstæði Seðlabankans og laga löggjöf um hann að breytingum innan lands og líka að alþjóðlegum markaði. Meginmarkmið er það sama og seðlabankar mjög víða um veröld hafa verið að taka upp, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi með því að heimila seðlabönkum sínum að lýsa yfir tölulegum markmiðum um verðbólgu. Í þessum lögum er gert ráð fyrir að Seðlabankinn hafi slíka heimild eftir að hafa fengið samþykki ríkisstjórnarinnar.

Við erum sammála öllum þessum meginbreytingum, þ.e. við þingmenn Samfylkingarinnar, en við leggjum til, sá sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir, á sérstöku þingskjali allnokkrar breytingartillögur. Ég ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir þeim helstu.

Við leggjum til að í stað þess að hafa þrjá bankastjóra verði einungis skipaður einn bankastjóri. Hins vegar gerum við jafnframt breytingartillögu um að ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum verði ekki teknar af bankastjóranum heldur af sérstakri peningastefnunefnd. Þetta er í samræmi við þær breytingar sem hafa verið gerðar á ýmsum seðlabönkum, t.d. Englandsbanka, Japansbanka og seðlabanka Svíþjóðar. Þær breytingar sem þar hafa verið gerðar á skipulagi bankanna ganga í meginatriðum út á það að bönkunum er veitt sjálfstæði til að ákveða skammtímavexti og það eru helstu stýritæki þeirra en þetta vald er falið í hendur peningastefnunefndum. Þær geta verið frá fimm til níu manns. Í þeim eiga jafnan sæti aðalseðlabankastjórinn, varaseðlabankastjórar og ýmsir aðrir háttsettir yfirmenn í viðkomandi seðlabanka eða utanaðkomandi sérfræðingar. Í peningastefnunefnd Englandsbanka eiga þannig sæti níu meðlimir; seðlabankastjórinn, tveir varaseðlabankastjórar, aðalhagfræðingur, yfirmaður peningamálaaðgerða og síðan fjórir háskólahagfræðingar. Með vissum hætti má segja að breytingartillögur okkar taki mið af því skipulagi sem ég var hér að lýsa. Við gerum jafnframt ráð fyrir því að skipaðir verði tveir varaseðlabankastjórar og að ákvarðanir innan nefndarinnar séu teknar með einföldum meiri hluta, atkvæði bankastjórans ráði hins vegar falli þau jafnt.

Ég vek sérstaka eftirtekt á því, herra forseti, að við leggjum til ákvæði til bráðabirgða og erum þar að reyna að haga málum þannig að sem mest tillit sé tekið til þeirra manna sem gegna nú störfum seðlabankastjóra. Við gerum því ráð fyrir því með bráðabirgðaákvæðinu að bankastjórarnir haldi störfum sínum til loka skipunartíma síns, með þeirri breytingu sem leiðir þó af því að tekið verður upp það skipulag að einungis einn bankastjóri er skipaður. Við gerum því ráð fyrir því að verði þessi breytingartillaga samþykkt og að lögum þá muni við gildistöku ákvæðisins verða skipaður einn aðalbankastjóri af hálfu hæstv. forsrh. og jafnframt verði þá skipaðir tveir varabankastjórar úr röðum þeirra tveggja sem eftir sitja.

Herra forseti. Þetta eru þær meginbreytingar sem við leggjum hér til, þ.e. að í stað þriggja bankastjóra verði einn bankastjóri og að ákvarðanir um beitingu stjórntækjanna verði teknar af peningastefnunefnd.