Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:52:59 (7888)

2001-05-16 10:52:59# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og kem hingað fyrst og fremst til að skýra þann fyrirvara því áður hef ég gert grein fyrir sjónarmiðum mínum gagnvart lagabreytingunum í heild sinni.

Fyrirvari minn lýtur ekki síst að 3. gr. frv. þar sem kveðið er á um meginmarkmið laganna, það er nú ekki minna en það. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi.``

Í greinargerð og athugasemdum með lagafrv. er þetta meginmarkmið síðan útlistað því þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Að sama skapi hefur skilningur vaxið á nauðsyn þess að festa stefnu verðstöðugleika í lög. Með því ávinnst það að mun erfiðara verður að bregða út af stöðugleikastefnu í peningamál um fyrir skammtímahagsmuni.`` --- Litlu síðar segir, með leyfi forseta:

,,Breytingarnar sem felast í þessu frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands þýða að meginmarkmið stefnunnar í peningamálum verður hið sama og annars staðar, ...`` --- og er þar vísað til þess sem er að gerast í löndunum í kringum okkur.

Það sem mig langar til að vekja athygli á er annars vegar hvað það er sem er að gerast í löndunum í kringum okkur sem vísað er til í frv. og hins vegar til þeirra skammtímahagsmuna sem hér er vikið að. Það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur er eftirfarandi --- og þá hef ég fyrst og fremst Evrópusambandsríkin til viðmiðunar og þá stefnu sem tekin hefur verið upp af hálfu Evrópusambandsins: Til að bregðast við sveiflum í efnahagslífinu eru til ýmsar leiðir og það eru ýmsar breytur í efnahagskerfinu. Eitt er gengi, þ.e. verðlagið á peningunum. Annað er verðlagið sjálft. Í þriðja lagi er það atvinnustigið. Það eru vextirnir. Allir þessir þættir eru breytingum háðir. Til þess að hafa áhrif á gangverk efnahagskerfisins hafa menn reynt að hafa áhrif á alla þessa þætti. Þróunin hefur gengið út á það að festa nokkra þessara þátta. Í fyrsta lagi verðlagið, að stuðla að stöðugleika í verðlagi, sem er að sjálfsögðu eftirsóknarvert. Hið sama gildi um gengið. Halda vöxtum stöðugum og lágum. Að sjálfsögðu þykir það eftirsóknarvert að halda uppi háu atvinnustigi en það er engu að síður breyta sem er afgangsstærð.

Ef litið er til Evrópusambandsins í seinni tíð hefur gengið bærilega að halda stöðugu verðlagi. Mönnum hefur gengið allvel að halda vöxtum lágum og mönnum hefur einnig gengið bærilega að ná því markmiði sem sett var fram í Maastricht-sáttmálanum á sínum tíma um að keyra niður skuldir hins opinbera. Eitt af markmiðum Maastricht-sáttmálans var að ná skuldum opinberra aðila niður fyrir 60% af landsframleiðslu og þessu markmiði hafa menn náð. Oft hefur þetta reyndar verið notað sem skálkaskjól fyrir ríkisstjórnir til að skera niður í mikilvægri velferðarþjónustu, nokkuð sem ég hef oft gagnrýnt. En hitt hefur mönnum ekki tekist eins vel og það er að tryggja fulla atvinnu. Á svokölluðu Eurozone-svæði, sem er Evrópusambandið og þau ríki sem eru háð því, eru tæpar 14 milljónir einstaklinga án atvinnu en eru í atvinnuleit, 13,7 milljónir minnir mig að það hafi verið. Reyndar eru þetta lágmarkstölur vegna þess að skilgreiningar á atvinnuleysi eru þrengri en þær voru áður.

Herra forseti. Mér finnst sannast sagna mjög vafasamt, jafnvel þótt við viljum ná því markmiði að halda verðlagi stöðugu og öðrum þeim markmiðum sem ég hef verið að lýsa, að festa það í lög eins og hér er gert að þetta eitt skuli haft að leiðarljósi. Reyndar er einnig vikið að atvinnustiginu í athugasemdum með frv. og sagt að það sé að sjálfsögðu eftirsóknarvert markmið og lýst þeirri trú að auðnist okkur að stuðla að kröftugu efnahagslífi, muni það ganga eftir að eftirspurn eftir vinnuafli verði mikil, þá er það engu að síður meginmarkmið laganna að tryggja að verðlagsmálin og stöðugleikinn verði höfð að leiðarljósi en önnur atriði verði víkjandi.

Færð hafa verið ágæt rök fyrir því að afnema þau ákvæði í lögum að halda genginu innan ákveðinna vikmarka eins og gert hefur verið, þetta sé nokkuð sem gangi einfaldlega ekki upp við þær aðstæður sem við búum nú við, við frjálst flæði fjármagnsins. Þannig hafi aðilar á fjármagnsmarkaði litið á þessi vikmörk sem eins konar gengistryggingu. Af því að vaxtamunur milli Íslands og viðskiptalandanna hafi farið umfram ákveðin mörk hafi skapast hvati fyrir aðila til að hagnast á þessum vaxtamun. Þeir hafi tekið lán erlendis og endurlánað síðan innan lands á hærri vöxtum. Þetta hafi síðan aukið á útlánaþenslu og raskað stöðugleika á fjármálamarkaði. Þetta finnst mér að sjálfsögðu vera rök sem er vissulega nauðsynlegt að horfa til.

Þetta voru þau meginsjónarmið sem ég vildi gera grein fyrir hvers vegna ég mun ekki styðja 3. gr. frv. Að lokum vil ég einnig vekja athygli á því að enda þótt verið sé að gera grundvallarbreytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, þá er ekki þar með sagt að það feli í sér miklar og afgerandi breytingar í starfsháttum bankans vegna þess að hann hefur verið að laga sig að breyttum aðstæðum í starfi sínu. Megingagnrýni mín er sú að við skulum vera að takmarka frelsi okkar með þessu frv. og reyndar öðrum lagabreytingum sem við höfum orðið vitni að í seinni tíð. Að takmarka frelsi okkar til þess að bregðast við aðstæðum. Þar með sagt er ég ekki að hafna þeim meginmarkmiðum sem stefnt er að en ég hafna því að við skulum láta binda okkur á höndum og fótum með þeim hætti sem ég hef lýst.