Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 11:02:01 (7889)

2001-05-16 11:02:01# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[11:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur skrifað undir þetta nefndarálit um Seðlabanka Íslands með fyrirvara.

Eins og hér hefur komið fram við þessa umræðu og 1. umr. málsins þá er vissulega verið að stíga veigamikið jákvætt skref í átt til sjálfstæðis Seðlabankans þó að okkar mati sé hvergi nægjanlega langt gengið í því efni. Fyrirvari okkar lýtur að því að við flytjum brtt. á þskj. 1244, en þær miða að því að auka frekar sjálfstæði Seðlabankans en frv. gerir ráð fyrir, þ.e. fyrst og fremst að því, eins og fram kom í máli Össurar Skarphéðinssonar, að einn bankastjóri verði við bankann sem beri ábyrgð ásamt varabankastjórum og við hlið hans verði síðan skipuð sérstök peningamálastefnunefnd.

Þessi leið hefur verið farin í nokkrum löndum, eins og Noregi og Nýja-Sjálandi og gefist vel. Ég vil í því sambandi nefna varðandi Nýja-Sjáland að komið hefur fram mjög athyglisverð skýrsla um seðlabankann í Nýja-Sjálandi frá Lars Svensson, en þessi Lars Svensson er einhver þekktasti peningahagfræðingur í heiminum í dag. Hann hefur m.a. verið prófessor við háskólann í Stokkhólmi og sérstakur akademískur ráðgjafi sænska seðlabankans. Hann hefur einmitt í skýrslu sinni fært rök fyrir því sem við flytjum fram hér í breytingartillögu, að það sé mjög jákvætt að hafa slíka peningastefnunefnd. Eins hefur hann fært rök fyrir þeim hæfnisskilyrðum sem við höfum sett fram varðandi skipan bankastjóra sem er ekki að finna í þessu frv.

Ég vil geta þess að a.m.k. þrír umsagnaraðilar komu inn á þær leiðir sem við hér nefnum, þ.e. skipan peningastefnunefndar. Það er í fyrsta lagi Þjóðhagsstofnun sem í umsögn sinni mælir með skipan slíkrar nefndar.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp hluta af áliti Þjóðhagsstofnunar þar sem inn á þetta er komið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eins og áður segir telur Þjóðhagsstofnun frumvarpið bæta mjög umgjörð peningastefnunnar. Þó mætti ganga enn lengra er varðar skyldur Seðlabankans um upplýsingagjöf. Til dæmis mætti kveða á um reglubundna vaxtaákvörðunarfundi. Seðlabankanum væri þá jafnskylt að skýra ákvarðanir um óbreytta vexti eins og breytingar á þeim. Einnig væri til bóta ef lögin kvæðu á um að Seðlabankanum bæri að senda ríkisstjórn greinargerð ef verðbólga færi út fyrir þolmörk yfirlýsts verðbólgumarkmiðs og að þessi greinargerð yrði gerð opinber innan ákveðins tíma frá því að þolmörkin væru rofin. Þá mætti huga að öðru fyrirkomulagi við ákvarðanir í peningamálum en kveðið er á um í frumvarpinu. Í 24. gr. frumvarpsins segir að bankastjórn skuli setja starfsreglur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Þannig eru ákvarðanir formlega bankastjórnarinnar þó fleiri muni koma að undirbúningi þeirra. Í samræmi við þær áherslur á fagleg vinnubrögð sem koma fram í frumvarpinu telur Þjóðhagsstofnun að til álita komi að kveða á um faglega peningamálanefnd sem tæki ákvarðanir í peningamálum. Val í slíka nefnd gæti til að mynda tekið mið af skipan þessara mála í Englandi. Sæti í nefndinni gætu átt bankastjórn, aðalhagfræðingur bankans og einn eða fleiri utanaðkomandi aðilar. Brýnt væri að fagleg sjónarmið væru höfð að leiðarljósi við val allra nefndarmanna.``

Þetta segir í áliti Þjóðhagsstofnunar um peningastefnunefnd.

Ástæða er til þess að nefna líka að laganefnd Lögmannafélags Íslands mælir með þessari leið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt frumvarpinu verður bankastjórn nokkurs konar fjölskipað stjórnvald eins og verið hefur með formann sem ræður úrslitum ef atkvæði eru jöfn, og er jafnframt opinber talsmaður bankans. Breytingarnar á skipun bankastjórnar að þessu leyti eru til bóta, en betra hefði verið að stíga skrefið til fulls og ákveða að einn maður færi með vald bankastjóra. Hefði svo verið gert, hefði og vafalítið þurft að skipa svokallaða peningastefnunefnd, eins og víða mun gert, enda er fyrirkomulagi um einn mann sem ábyrgur er að lokum alls ekki ætlað að gera einn bankastjóra einráðan í þeim efnum sem falin eru bankastjórn.``

Alþýðusamband Íslands gerir líka að umtalsefni þá leið sem við mælum með og gerum brtt. um. Í umsögn þeirra segir, með leyfi forseta:

,,Önnur leið sem ASÍ telur líklegri til að tryggja faglega niðurstöðu og breiða samsetningu við ákvarðanatöku er að sett verði á laggirnar fjölmennari peningastefnunefnd þar sem sæti eiga einnig aðilar utan bankans. Nefndin sinni því hlutverki sem bankastjórn er ætlað í fumvarpinu. Bent skal á að þannig fyrirkomulag er á skipan mála a.m.k. í Englandi, Svíþjóð, Evrópska seðlabankanum og þeim bandaríska.``

Ég vildi geta þessara þriggja umsagna varðandi peningastefnunefndina sem ég tel afar mikilvæga og fram kemur í breytingartillögum okkar. Í breytingartillögum okkar gerum við ráð fyrir að í peningastefnunefnd sitji bankastjóri, sem jafnframt er formaður, varabankastjórar og þrír af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jafnt ræður atkvæði bankastjóra. Peningastefnunefnd skal halda fundi að minnsta kosti átta sinnum á ári. Auk þess getur peningastefnunefnd haldið fund ef bankastjóri ákveður eða tveir nefndarmenn krefjast þess. Peningastefnunefnd setur sér starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal gera grein fyrir ákvörðunum peningastefnunefndar og forsendum þeirra. Peningastefnunefnd getur þó ákveðið að skýra ekki frá ákvörðunum um viðskipti á gjaldeyrismarkaði.

Herra forseti. Þetta er leið sem við teljum tvímælalaust vera betri en sú leið sem lögð er til í frv. Þess vegna leggum við mikla áherslu á, herra forseti, að þessi leið verði farin.

Það sem Þjóðhagsstofnun nefnir í umsögn sinni varðandi upplýsingagjöfina og ég kom aðeins inn á hér áðan er afar mikilvægt. Um það urðu nokkrar umræður í nefndinni. Umsagnaraðilar voru ekki á einu máli um ágæti þess en Þjóðhagsstofnun leggur áherslu á að kveðið verði á um reglubundna vaxtaákvörðunarfundi þar sem skýrðar verða vaxtabreytingar og líka þegar vöxtum er ekki breytt. Þeir telja mjög til bóta að fara þá leið og þeir telja og setja fram rökin fyrir því að það ylli minni óróa en að láta liggja í lausu lofti hvenær vaxtaákvarðanir eru teknar.

Herra forseti. Önnur tillaga okkar lýtur að skipan bankastjórnar og bankastjóra. Samfylkingin hefur talað fyrir því og einstakir þingmenn hennar hafa flutt frumvörp um að seðlabankastjóri verði bara einn. Út á það ganga tillögur okkar.

Eins og fram hefur kannski komið er mjög mismunandi hvernig skipan þeirra mála er í einstaka löndum. Noregur er með einn bankastjóra, England einn og tvo aðstoðarbankastjóra, sömuleiðis Nýja-Sjáland. Hér á landi eru þrír bankastjórar. Það er sama skipan og höfð er á í Danmörku og mér sýnist að fyrirkomulag þeirra breytinga á Seðlabankanum sem við erum hér að ræða sé helst sótt til Danmerkur. En síðan eru þeir fleiri í Svíþjóð og Finnlandi. Ég held að þessi leið, ásamt því að hafa peningamálastefnunefnd, sé miklu eðlilegri en að hafa marga bankastjóra.

Enda er það svo, herra forseti, að það er reynsla okkar á liðnum árum að í þetta virðulega embætti hefur skipast, a.m.k. að stórum hluta til, með þeim hætti að það virðist fyrst og fremst vera pólitískt hæli fyrir stjórnmálamenn þegar þeir eru skipaðir bankastjórar í Seðlabankanum. Það er athyglisvert, herra forseti, að í frv. er ekki að sjá að sett sé neitt skilyrði eða hæfniskröfur gerðar, þ.e. skilyrði um hæfni þeirra sem gegna þessu starfi og er það auðvitað afar sérstakt og rökstyður það að áfram virðist eiga að hafa þessa stöðu sem pólitískt hæli fyrir stjórnmálamenn.

Nokkur umræða varð við 1. umr. þessa máls um að ekki sé skylt að auglýsa þessi embætti laus til umsóknar. Auðvitað eru rökin fyrir því að ef halda á áfram að skipa í þetta starf þannig að stjórnmálamenn setjist fyrst og fremst í þennan stól, þá er auðvitað sýndarmennska að auglýsa stöðuna. En mér finnst mjög ankannalegt það sem er í 23. gr. frv., að ekki eigi að auglýsa þetta embætti laust til umsóknar. Við það geri ég athugasemd, herra forseti.

Hinar breytingartillögurnar sem við flytjum eru minni í sniðum en þær tvær sem ég hef nú lýst og ekki er ástæða til að fara yfir þær kannski mörgum orðum. Ég vil þó nefna að nokkuð var rætt um 7. gr. sem kveður á um að þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins getur hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í 1. mgr. eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur.

Ég hefði gjarnan viljað sjá að þarna væru settar ákveðnar reglur um það hvenær og hvernig mætti beita þessu ákvæði sem er nokkuð sérstakt og laganefnd Lögmannafélags Íslands gerði t.d. athugasemdir við. Í umsögn laganefndar segir, með leyfi forseta:

[11:15]

,,Í 2. mgr. 7. gr. eru ákvæði um að Seðlabanki geti komið fram sem örþrifalánveitandi. Í greinargerð með frumvarpinu er nokkuð fjallað um kosti slíks fyrirkomulags og þá galla, sem slíku fyrirkomulagi fylgja. Vegna freistnivanda, sem af slíku fyrirkomulagi getur leitt, sýnist nauðsynlegt að Seðlabanki setji sér allítarlegar reglur um það hvenær og vegna hverra yrði gripið til úrræða, sem heimiluð eru í 2. mgr. 7. gr. Slíkar reglur gætu dregið úr þeirri áhættu að stjórnendur einstakra lánastofnana létu skeika að sköpuðu í trausti þess, að Seðlabankinn kæmi til bjargar, ef illa færi.``

Um þetta ákvæði urðu töluverðar umræður í nefndinni. Bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn mæltu gegn því að sett yrði ákvæði inn í frv. um skyldu Seðlabankans til að setja reglur um hvernig þessu ákvæði yrði beitt. Mig minnir að þeir hafi orðað það svo að það væri mjög óheppilegt ef fyrir lægju opinberlegar reglur eða fyrir fram lýsing á hvernig lánastofnunum yrði bjargað úr þeim vanda sem þetta ákvæði lýtur. Talið var eðlilegra að þeir væru ekki skyldaðir til að birta opinberlega slíkar reglur. Það verður að fallast á, herra forseti, að rökin sem sett voru fram, bæði af hálfu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, eru út af fyrir eðlileg.

Alþýðusambandið gerði athugasemdir við 24. gr., sem lýtur að starfsreglum bankastjórnar. En í 24. gr. segir:

,,Bankastjórn setur starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal gerð grein fyrir ákvörðunum bankastjórnar í peningamálum og forsendum þeirra.``

Um þetta segir Alþýðusambandið, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands telur jafnframt að starfsreglur bankastjórnar hefðu átt að liggja fyrir þegar frumvarp þetta var lagt fram. Það hlýtur að vera lýðræðiskjörinna fulltrúa að ákveða hversu opnar og ítarlegar fundargerðir bankastjórnar verða. ASÍ telur einnig nauðsynlegt að starfsreglur Seðlabanka Íslands uppfylli kröfur sem gerðar eru í lýðræðisþjóðfélögum þannig að fram komi í fundargerðum bankastjórnar frásagnir af umræðu á fundunum og hvernig hver meðlimur bankastjórnar greiðir atkvæði, því eins og áður sagði geta ákvarðanir bankastjórnar Seðlabanka Íslands haft afgerandi áhrif á atvinnumöguleika og kjör allra landsmanna.``

Út af fyrir sig er hægt að taka undir það að þessar starfsreglur hefðu átt að liggja fyrir og vera hluti af þessu frv. Þessar starfsreglur, ef ég skil málið rétt, voru hins vegar ekki tilbúnar og því ekki hægt að taka þær inn sem hluta af þessu máli og ræða í samhengi við þær breytingar sem hér er verið að gera, herra forseti, og er það miður.

Aðrar smærri breytingar eru gerðar á frv. sem lúta að því að draga nokkuð úr vægi forsrh. við ýmsar smærri ákvarðanir sem þetta frv. lýtur að, t.d. að tilnefna í sjóðsráð í Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðnum. Við sjáum heldur enga sérstaka ástæðu til þess að forsrh. ákveði, að fengnum tillögum Seðlabankans, lög um úthlutun og fjárhæð seðla þeirra og mynta sem bankinn gefur út og lætur birta auglýsingu um. Við teljum að bankastjóri eigi að ákveða slíkt að fengnu samþykki bankaráðs.

Herra forseti. Ég hef hér greint frá þeim fyrirvörum sem við höfum sett fram að því er varðar þetta frv., sem fyrst og fremst lúta að því að styrkja enn frekar sjálfstæði Seðlabankans með þeim leiðum sem lýst er í breytingartillögum sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson höfum gert grein fyrir.