Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:08:16 (7892)

2001-05-16 12:08:16# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma til umræðunnar og fyrir ræðu hans. Það var þarft og áhugavert um margt að hlusta á hann fara yfir málin.

Ég hygg að við séum ekki svo ósammála um spurningar eins og um einn bankastjóra eða fleiri og peningamálaákvarðanir að tilefni sé til að eyða í sjálfu sér tíma í það.

Um þau rök sem hæstv. ráðherra færði fram fyrir þeirri leið sem valin var til að kynna breytingarnar og láta þessa hluti alla ganga fram samtímis, þá eru þau vissulega gild og ég tek að mörgu leyti mark á þeim. En ég held hinu fram að þetta hafi kannski ekki heppnast sérstaklega vel.

Um viðskiptahallann sem ég kem kannski að í seinna svari mínu ef forsrh. verður svo vænn að svara mér, þá vísa ég bara til þess að hrein skuldastaða þjóðarbúsins hefur aldrei versnað eins mikið milli ára eins og hún gerði milli áranna 1999 og 2000.

Síðan verð ég að fá tækifæri, herra forseti, til að leiðrétta eftirfarandi. Mér varð á að grípa til annarrar hendingar en þeirrar sem mér hafði komið í hug þegar ég heyrði svartnættisræðu utanrrh. og eignaði þar af leiðandi Birni í Laufási texta eftir Jóhann Sigurjónsson og þykir mér mjög miður. En hvor tveggja var gott skáld og ortu báðir á köflum tregablandna og angurværa texta.

Hendingin eftir Björn í Laufási sem mér kom fyrst í hug þegar ég heyrði af stóriðjusvartnættisræðu utanrrh. á ársfundi Útflutningsráðs var þessi:

  • Verði þér myrkur á vegi,
  • vesturför óyndisleg,
  • kvíðirðu komandi degi
  • kolbrýnda nótt eins og ég.
  • Þetta held ég sé örugglega eftir Björn og hann mun hafa ort þetta einhvern tímann á erfiðum stundum í sínu lífi, sá ekkert nema myrkur hellast yfir utanverðan Eyjafjörðinn og setti saman þessa texta. Og af einhverjum ástæðum kom þetta upp í hug mér þegar ég heyrði af þessari döpru framtíðarsýn hæstv. utanrrh., sem ekkert sér nema svartnætti, rétt eins og sálmaskáldið forðum, nema hér verði virkjað og virkjað.