Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:10:26 (7893)

2001-05-16 12:10:26# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það hefði verið langæskilegast að sú breyting hefði orðið og verið tilkynnt á áherslum og viðmiðunum Seðlabankans frá gengisviðmiðun yfir í verðlagsmarkmið og viðmiðun þegar stöðugleikinn hefði verið sem mestur, eins og hann hefur verið allmikill á undanförnum árum.

Ég tek undir það með honum að efasemdir mínar gengu einmitt út á það hvenær ætti að fara þá leið sem flestir voru sammála um að fara. Ég velti meira að segja fyrir mér hvort rétt væri að tengja þetta strax við breytingar á Seðlabankanum. En skynsömum mönnum fannst það nánast ekki ganga að gera reginbreytingar á Seðlabankanum og færa honum sjálfstæði án þess að fara að þessum markmiðum sem langflestir virtust styðja, bæði bankinn og menn hér í þessu húsi, sem skipti líka máli.

En ég held mig við það að ákveðið var að fara þessa leið og ég axla ábyrgð á því vegna þeirra röksemda sem komu fram hjá bankanum að ekki væri hægt að hafa þennan þáttinn í lausu lofti í tvo til þrjá mánuði meðan þingið væri að taka eðlilegan tíma í að afgreiða þetta mál.