Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:18:05 (7897)

2001-05-16 12:18:05# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Spurningunni um skilyrðin svaraði ég strax í 1. umr., og er það til í gögnum þingsins, vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um þau efni og sjónarmið mín koma þar fram.

Varðandi hitt þá er ég þeirrar skoðunar ef menn mundu taka ákvörðun að hafa einn allsráðandi bankastjóra í Seðlabankanum þá þyrfti að hafa nefnd til hliðsjónar sem í væru líka menn utan úr bæ, vegna þess ef um er að ræða aðeins bankastjórann, allsráðandi bankastjórann, með undirmenn sína sex sem ráðgjafarnefnd þá held ég yrði nú ansi þröngt fyrir dyrum hjá þeim undirmönnum að hafa áhrif á niðurstöðu hans. Ég tel því að ef menn færu í að hafa einn allsráðandi bankastjóra þá yrði hluti nefndarmannanna að koma frá öðrum aðilum, til að mynda frá Hagfræðistofnun Háskólans eða einhverjum slíkum aðilum, þ.e. ef menn færu þá leið. Ég tel ekki nægjanlegt að hafa einn allsráðandi bankastjóra og síðan yrðu það bara undirmenn hans sem ættu að geta haft svona einhver takmarkandi áhrif á völd hans, að einu leytinu til, bara að einu leytinu til. Ég held að það gengi ekki upp.

Ég held að það sé skynsamleg breyting. Ég nefndi það reyndar í fyrstu ræðu minni að auðvitað er ekkert útilokað að menn komist síðar að þeirri niðurstöðu eftir nokkur ár og reynslu af auknu sjálfstæði bankans að skynsamlegt sé að hafa einn bankastjóra. Ég er ekki sannfærður um það. Vel má vera að það gerist. En þá tel ég rétt að þetta sé gert í þeim áfanga að staða formanns bankastjórnarinnar sé örlítið styrkt frá því sem nú er, en ekki gengið of langt í þeim efnum, þ.e. að í fyrsta lagi sé sjálfstæði og vald Seðlabankans aukið og um leið fái einhver einn bankastjóri svo mikið vald til viðbótar því. Ég held að það sé of í lagt.