Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:22:00 (7899)

2001-05-16 12:22:00# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ef hv. þm. les það sem ég sagði um þá hæfileika sem viðkomandi bankastjórar þyrftu að hafa til að gegna þessu starfi þá mundi það nú vera mjög svipað og hv. þm. var að nefna hér. Ég sagði einmitt í ræðu minni að það ætti hins vegar ekki að binda þetta starf einni tiltekinni starfsstétt. Undir það tók formaður Samfylkingarinnar og ég hélt þess vegna að um það væri sæmileg sátt.

Varðandi það sem ég sagði um þrjá bankastjóra eða einn bankastjóra, þá oftúlkaði nú hv. þm. aðeins orð mín. Ég segi að ég tel á þessu stigi máls eigi menn ekki að ganga lengra og ég sagði það meira að segja í andsvarinu áðan, menn eigi ekki að ganga lengra en að auka nokkuð vald formanns bankastjórnarinnar á sama tíma og við erum að auka sjálfstæðið. Ég sagði að ég gæti alveg ímyndað mér að menn fari yfir þessi mál í framtíðinni og kunni í framtíðinni að geta hugsað sér að taka einhver önnur skref. En í þessari andrá tel ég óskynsamlegt þegar við erum að auka sjálfstæði bankans að setja allt of mikið vald í hendur eins manns um leið. Þetta sagði ég í andsvari mínu og hef sagt í ræðu minni.