Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 16:30:47 (7918)

2001-05-16 16:30:47# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þurfi að grípa inn í svona deilu þá skiptir öllu máli að um lágmarksinngrip sé að ræða. Ég spyr hv. þm.: Finnst honum það vera lágmarksinngrip í þessa deilu að skipa öllum kjörum sjómanna með gerðardómi?

Deilan hefur staðið svo lengi yfir ekki síst vegna þess að menn gripu inn í hana fyrr í vetur. Ég held að menn verði að átta sig á að svona er ekki hægt að vinna að málum. Þessi endalausu inngrip hafa valdið því að ekkert traust ríkir milli aðila. Menn gera bókstaflega ráð fyrir því að hægt sé að bíða eftir lögum.

Ég spyr hv. þm.: Finnst honum þetta besta niðurstaðan, úr því að það átti að grípa inn í deiluna? Er hann ekki sammála mér um að nóg hefði verið að banna verkföllin og setja t.d. mönnunarmálin í gerðardóm en leyfa mönnum síðan að fást við að semja á þeim grundvelli sem þá hefði myndast? Þá hefði eitt heitasta deilumálið verið tekið út í þetta skiptið? Hefði sú tilraun ekki verið betri en taka öll samningamál sjómanna í gíslingu og skipa þeim með sérsakri lagasetningu?