Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 20:03:50 (7938)

2001-05-16 20:03:50# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, BH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[20:03]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Góðir landsmenn. Fyrr á þessum vordegi gerðust þau tíðindi á Alþingi Íslendinga sem munu marka spor í sögu þeirrar ríkisstjórnar sem situr nú, spor sem munu vart verða henni til vegsauka því lögin, sem sett voru hér í dag á hinu háa Alþingi, eru gróf íhlutun í frjálsan samningsrétt á vinnumarkaði, þau eru fádæmi í sögunni.

En þrátt fyrir óhæfuverk ríkisstjórnarinnar höfum við fulla ástæðu til að vera bjartsýn. Við búum í góðu og gjöfulu landi og þó sannarlega séu blikur á lofti í efnahagsmálum hefði vissulega verið hægt að ná lendingu eftir háskaflug ríkisstjórnarinnar síðustu missiri. En til þess þarf jákvæð viðhorf, til þess þarf samstöðu og samvinnu bæði stjórnar og stjórnarandstöðu en ekki síður á vinnumarkaðnum. Sem ábyrg stjórnmálahreyfing er Samfylkingin reiðubúin til þeirrar samvinnu sem þarf til að skapa betra samfélag.

Það er staðreynd að við Íslendingar búum við þrefalt meiri verðbólgu en nágrannaþjóðirnar. Það er staðreynd að við búum við þrefalt hærri vexti en löndin í kringum okkur. Það er staðreynd að krónan hefur á einu ári fallið um tæp 25%. Það er staðreynd að viðskiptahallinn er geigvænlegur og þótt útlit sé fyrir að halli á vöruskiptum fari lækkandi eykst greiðslubyrði erlendra lána og vaxtagreiðslur vegna þeirra.

En, góðir Íslendingar, þetta þarf ekki að vera svona. Við megum ekki missa tökin á stöðugleikanum sem verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda lögðu grunn að í samstarfi við þáv. ríkisstjórn fyrir rúmum áratug. Við getum unnið okkur út úr efnahagsvandanum en slíkt tekur tíma, vinnu og þolinmæði. Til þess þarf traust milli stjórnvalda, atvinnulífs og verkalýðshreyfingarinnar, traust á borð við það sem ríkti fyrir rúmum áratug þegar með samstilltu átaki tókst að koma böndum á óheillaþróun í efnhagslífi þjóðarinnar.

Það versta sem hent getur íslenskt efnahagslíf nú er að af stað fari sú víxlverkun hækkana verðlags og launa sem leiðir til hækkandi verðbólgu með tilheyrandi kaupmáttarskerðingu fyrir launafólk. Nauðsynlegt er því að ná tökum á verðbólgunni, endurheimta stöðugleikann. Og það er hægt. Það er ekkert sjálfgefið að við þurfum að gjalda fyrir umframeyðsluna með því að leggja náttúru Íslands að veði þótt ríkisstjórnin telji það einu færu leiðina til að halda uppi lífsgæðunum. Slíkar hugmyndir þurfum við að skoða af mikilli varfærni með framtíð komandi kynslóða í huga. Í því efnahagsástandi sem við blasir í dag skiptir sköpum að gefa atvinnulífinu vítamínsprautu þannig að vaxandi verðbólga, háir vextir og skammsýn ríkisstjórn nái ekki að draga úr því þróttinn þegar líður á árið.

Verðbólgan, sem ríkisstjórnin hefur nú misst í 6% á ársgrundvelli, kemur því miður í veg fyrir að hægt sé að lækka vexti í bráð. Við getum hins vegar komið til móts við atvinnulífið með því að lækka skatta á fyrirtæki, en Samfylkingin hefur viðrað hugmyndir í þá veru. Skattalækkun mundi styrkja væntingar um arðsemi fyrirtækja, gæti leitt til verðhækkana á hlutabréfamarkaði, styrkt innstreymi fjár til landsins, stuðlað að því að stöðva flótta innlendra fjárfesta og þar með styrkt gengi íslensku krónunnar.

Hins vegar er ekki sanngjarnt að einungis fyrirtækin njóti skattalækkana. Eðlilegt er að samhliða skattalækkunum á fyrirtæki verði lækkaðir skattar á þeim sem eru tekjulægstir. Samfylkingin hefur því lagt til að afnema skatta á félagslega aðstoð, á húsaleigubætur og draga úr skatti á þeim hluta lífeyristekna sem líta má á sem fjármagnstekjur. Samfylkingin boðar velferð og vill að velferðinni fylgi jafnframt ábyrgð. Öflug velferð verður að hvíla á stoðum trausts atvinnu- og efnahagslífs. Við teljum að í framtíðinni eigi að taka upp auðlindagjöld á sameiginlegar auðlindir okkar, orkulindirnar, fiskimið, fiskistofna og fjarskiptarásir og nota svigrúmið til að lækka tekjuskatta á einstaklinga og efla velferðarkerfið.

Til lengri tíma skiptir þó langmestu að stórauka fjárfestingar í menntakerfinu. Róttæk uppbygging menntunar í takt við breytta tíma er forsenda þess hátækni- og þekkingarsamfélags sem við viljum byggja á Íslandi. Jafn aðgangur allra, hvar á landinu sem þeir búa, að fyrsta flokks menntakerfi er leið okkar jafnaðarmanna til að tryggja jöfn tækifæri allra í þekkingarsamfélagi framtíðarinnar.

Góðir Íslendingar. Þetta segir okkur að við þurfum að hlúa betur að atgervi æskunnar því staðreyndin er sú að þrátt fyrir staðhæfingar menntmnrh. um hið gagnstæða standa Íslendingar sig ekki vel í samanburði við aðrar þjóðir í menntamálum. Í skýrslu frá OECD kemur fram að Ísland vermir í ýmsum þáttum neðri sæti þeirra 25 landa sem voru skoðuð. Eftir átta ára skólagöngu eru íslensk börn að jafnaði tveimur árum á eftir börnum hinna OECD-landanna. Mikið brottfall er í framhaldsskólum en það var t.d. 24% á milli áranna 1998 og 1999. Rétt um helmingur hvers árgangs lýkur framhaldsskólaprófi hér á landi en sambærilegar tölur eru á bilinu 68--88% annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kallar á róttæka menntabyltingu í skólakerfinu, auk eflingar starfsmenntunar í atvinnulífinu sem nauðsynleg er fyrir starfsmenn fyrirtækjanna, fyrirtækin sjálf og fyrir hag þjóðfélagsins alls.

Í framhaldsskólanum þurfum við að auka veg og vanda starfsnámsins, auka námsframboð sem atvinnulífið viðurkennir og tryggja að allt nám verði metið til háskólanáms. Fyrsta verk Samfylkingarinnar, þegar við tökum við menntamálum, verður jafnframt að sjá til þess að háskólanemar geti hafið háskólanám einu til tveim árum fyrr en nú er. Það er ánægjuefni að Samtök atvinnulífsins hafa tekið sérstaklega undir þetta markmið okkar. Háskólar í fremstu röð eru forsendur þeirra róttæku framfara sem við viljum sjá gerast með menntabyltingu í íslensku samfélagi á næstu árum. Í framtíðinni mun þekkingariðnaður á grundvelli öflugs menntakerfis skera úr um velferð Íslendinga. Þess vegna er brýnt að lyfta með öllum ráðum undir myndun og uppbyggingu fleiri nýrra fyrirtækja í þekkingariðnaði. Velsæld okkar í framtíðinni og samkeppnishæfni mun byggjast á því að okkur takist að gera Ísland að þekkingarsmiðju. Til þess þarf gríðarlegt átak í menntamálum. Þess vegna setur Samfylkingin menntamálin í öndvegi.

Samfylkingin telur nauðsynlegt að búa öllum viðunandi afkomu, líka þeim sem hafa ekki atvinnutekjur sér til viðurværis. Við höfum því lagt fram tillögur um sérstaka afkomutryggingu sem miðar að því að bæta kjör þeirra sem af félagslegum, heilsufarslegum eða öðrum ástæðum ná ekki lágmarkslaunum til framfærslu.

Góðir landsmenn. Í dag ríkir alvarlegt ástand í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar þess að félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður án þess að önnur úrræði væru þróuð til að leysa vanda þeirra tekjulægstu. Samfylkingin hefur lagt fram ítarlegar hugmyndir um hvernig bregðast skuli við þessum vanda með uppbyggingu leiguíbúða á svæðinu sem tilfinnanlegur skortur er á. Verði ekkert að gert mun vandinn vaxa og stuðla að auknu félagslegu ójafnrétti.

Á liðnum vetri hafa miklar umræður verið á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu um lýðræði. Samfylkingin hefur lagt sitt af mörkum í þeirri umræðu og í tillögum okkar birtast hugmyndir um hvernig bæta megi íslenskt lýðræðisþjóðfélag. Það er mikilvægt í þeim efnum að afhjúpa þá leynd sem hvílir yfir fjármálum stjórnmálaflokkanna og að búa þeim skýrar reglur um þau efni. Þá er ekki síður mikilvægt að jafna atkvæðisrétt allra Íslendinga, að stíga skrefið til fulls með því að gera landið að einu kjördæmi.

Góðir landsmenn. Stefna Samfylkingarinnar er til þess fallin að skapa betra þjóðfélag þar sem landsbyggð og höfuðborgarsvæði búa í sátt og samlyndi. Við viljum styrkja möguleika byggðanna til að takast á við verkefni framtíðarinnar, við viljum sjá stórbætt menntakerfi, heilbrigða samkeppni og öfluga neytendavernd. Við viljum sjá hag þeirra verst settu bættan og umfram allt viljum við endurheimta stöðugleikann. Samfylkingin mun ekki bregðast þessu hlutverki sínu. --- Góðar stundir.