Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 20:42:11 (7942)

2001-05-16 20:42:11# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[20:42]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. ,,Góðærinu á Íslandi er haldið gangandi með erlendri skuldasöfnun.`` ,,Blindflug í efnahagsmálum er hið mesta hættuspil.`` Þessar tvær tilvitnanir eru ekki frumsamdar af þeim sem hér talar. Þeir sem þessar yfirlýsingar gáfu á liðnum vetri voru framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og formaður þeirra fjölmennu og öflugu landssamtaka. Tæplega verða þeir sakaðir um óþjóðhollustu eða meinfýsi í garð stjórnvalda, eins og allar aðvaranir af hálfu stjórnarandstöðu heita í munni ríkisstjórnarmanna. Yfirlýsingarnar eru harður áfellisdómur þrautkunnugra manna um stöðu atvinnuveganna.

Það er því miður hrollvekja fram undan í íslensku efnahagslífi. Bölvaldurinn mesti, verðbólgan, er komin á þungan skrið og margföld á borð við það sem hún mælist í viðskiptalöndum okkar.

Ríkisstjórnin hefir misst tök á gengi krónunnar sem valda mun stórhækkun á vöruverði innan lands og kyndir undir verðbólgu. Skuldastaða þjóðarbúsins erlendis fer hríðversnandi og er orðin næsta óbærileg.

Viðskiptahalli þjóðarbúsins hefur um margra ára skeið verið ógnvænlegur og eykst stöðugt án þess að ríkisstjórnin fái rönd við reist og gerir reyndar ekkert til að reisa rönd við. Í válegri stöðu viðskiptahallans er lífsnauðsyn að beita fjárráðum hins opinbera til að draga úr eftirspurnarþenslu og rifa þannig seglin. Ríkisstjórnin hefur farið öfuga leið. Ár frá ári hafa ríkisstjórnarflokkarnir stórhækkað útgjaldaliði fjárlaga og hlutfallslega langt umfram vöxt verðbólgu. Ríkisstjórnin hælir sér á hinn bóginn af því að tekjur ríkissjóðs hafi hækkað mikið en lætur þess ógetið að lunginn úr þeirri tekjuaukningu eru tollar og önnur gjöld af hinum gífurlega innflutningi sem myndar viðskiptahallann auk skattpíningar á öllum almenningi, einnig öldruðum og öryrkjum. Öll loforð sem gefin hafa verið um réttláta úrlausn kjaramála aldraðra og öryrkja hafa verið svikin af núverandi ríkisstjórn og lagakrókum beitt til að níðast á þeim, en dómur æðsta dómstóls þjóðarinnar að engu hafður til að ná fram svikunum.

Auk þess var Hæstiréttur í því sambandi hafður til verka sem veikja hann stórkostlega og er ekki bitið úr nálinni með þau vinnubrögð.

[20:45]

Menn eru oft glámskyggnir á atburði líðandi stundar enda hefur meiri hluti þjóðarinnar ekki enn áttað sig á umgengni núverandi valdhafa við lög og dómsvald og niðurstöður dóma. Þegar fram líða stundir er ekkert efamál að sagan mun að því leyti dæma ríkisstjórnina harðlega fyrir yfirgang hennar og valdníðslu.

Æ ofan í æ hafa stjórnvöld virt dóma að vettugi og umbylt þeim með nýjum lögum sem þjónar þeirra á löggjafarsamkundunni hafa látið þau hafa sig til að setja.

Nægir í því sambandi að minna á dóm Hæstaréttar frá 3. des. 1998 um fiskveiðimál, viðbrögð forsrh. við undirréttardómi í Vatneyrarmálinu og pöntun hans á hæstaréttardómi í sama máli.

Með framkomu ríkisstjórnar vegna hins svokallaða öryrkjadóms beit hún höfuðið rækilega af skömminni og leiddi í leiðinni í ljós undirlægjuhátt meiri hluta dómenda í hinum hæsta rétti og takmarkalaust virðingarleysi fyrir löggjafarsamkundunni.

Íslendingar búa ekki lengur við þingbundna ríkisstjórn svo sem mælt er fyrir í stjórnarskrá sem meginstoð lýðræðisins heldur stjórnbundið þing. Rígbundið Alþingi á klafa ríkisstjórnar sem skeytir ekki um skömm né heiður við misnotkun þess. Þótt margt bjáti á er þetta varhugaverð þróun sem leiðir til ófarnaðar ef ekki er tekið í taumana.

Hinn margrómaði stöðugleiki er rokinn út í veður og vind. Þjóðarskútan skelfur stafna á milli í átökum áhafnarinnar við þá sem við stýrið standa. Brotsjóir verkfalla hafa riðið yfir undanfarin ár og sér ekki fyrir endann á þeim ólögum. Raunar rekur skútan á reiðanum og mikil hætta á að hana beri upp á sker ef kjósendum tekst ekki fljótlega að skipta um skipsstjórnarmenn sem engum ráðum vilja taka en treysta á góðæristíð sem virðist því miður um götur gengin.

Þeim staðreyndum sem ekki henta valdhrokagikkjunum er snúið við og boðberendur þeirra staðreynda bornir út á hræsibrekkur, sem ótal dæmi eru um og hið nýjasta sundrun Þjóðhagsstofnunar sem fyrir dyrum stendur af því sem yfirmaður hennar sagði sannleika um stöðu þjóðmála sem maðurinn í skutnum vildi ekki heyra.

Lítum á nokkrar staðreyndir í sjávarútvegsmálum og kollhnís stjórnvalda í þeim. Höfuðmarkmið fiskveiðistjórnarlaganna var verndun og síðan vöxtur og viðgangur fiskstofna við landið. Ríkisstjórnarmenn segja að lögin hafi náð tilgangi sínum að því leyti. Staðreynd er: Allir aðalstofnar fisks á íslenskri fiskislóð virðast hafa látið stórlega á sjá undir núverandi fiskveiðistjórn.

Í öðru lagi var meginmarkmið fiskveiðilaganna hagræðing í greininni. Ríkisstjórnarmenn guma mjög af hagræðingu í sjávarútvegi. Staðreyndin er: Flestöll útgerðarfyrirtæki af stærri gerðinni eru rekin með bullandi tapi þrátt fyrir gjafakvóta. Skuldir þeirra nálgast stjarnfræðilegar tölur enda gripdeildarmennirnir í greininni búnir að draga út úr útgerðinni morð fjár sem þeim hefur tekist að skjóta skattfrjálsu úr landi og vænkast nú enn hagur þeirrar strympu við hrapandi gengi íslensku krónunnar.

Gerð hefur verið könnun á brottkasti afla, en gífurlegt brottkast ber þetta kvótakerfi í skauti sér. Lengst af vildu sægreifarnir ekki kannast við neitt brottkast og sögðu slíkt umtal níð um sjómenn. Nú, þegar sannað hefur verið óyggjandi að um mikið brottkast er að tefla bregðast formælendur kerfisins við með því að segja að brottkast hafi ævinlega tíðkast á Íslandsmiðum.

Það brottkast, sem í könnuninni kom fram er þó aðeins toppurinn á ísjakanum. Um áratuga skeið gaf íslenska þorkslóðin af sér yfir 400 þús. tonn á ári að meðaltali. Gjörkunnugir menn í sjávarútvegi telja að svipað magn af þorski sé drepið árlega þó aðeins séu flutt að landi 250 þús. tonn eða svo. Hinu sé öllu skilað aftur í sjó.

Fyrir þjóðfélagi sem byggir á blekkingum og beinum ósannindum í höfuðmálum er illa komið. Í því er falin mikil hætta sem að okkur steðjar.

Á síðari helmingi aldarinnar sem leið risu Íslendingar úr öskustónni og skipuðu sér á bekk með mestu velferðarríkjum heims. Það þurfti gjöfular auðlindir og djarfmannlegt framtak einstaklinganna til þess að það mætti takast á svo skömmum tíma. Aðalauðlindin sem að mestu leyti stóð undir öllum framförunum var sjávarauðlindin. Hana tókst að nýta með frjálsu framtaki einstaklinga. Það voru aflamenn sem áttu drýgstan þátt í þeim stórstígu framförum á Íslandi sem við búum við. Nú eru ungir framtaksmenn útilokaðir frá því að sækja í sína eigin auðlind.

Fullyrt er að sjávarútvegur hafi fyrir daga kvótakerfisins ekki verið rekinn af viti og litlu skilað í þjóðarbúið þrátt fyrir þá staðreynd að hann væri undirstaða framfaranna. Þegar stjórnvöld og aðrir formælendur kvótakerfisins hafa þannig snúið staðreyndum við komast þeir að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast sé að færa auðlindina örfáum útvöldum að gjöf. Allur lygavefurinn er síðan spunninn áfram í gríð og erg og lénsskipulag miðalda innleitt á Íslandi.

Þeir sem séð hafa í gegnum blekkingarvefinn spyrja í forundran hvernig það megi vera að augu alls almennings skuli ekki opnast fyrir þeim ókjörum sem hér eru á ferðinni? Svarið er einfalt. Velflestir öflugustu fjölmiðlarnir ganga undir blekkingunni, annað tveggja vegna þrælsótta við stjórnvöld og beinna hótana þeirra eða af pólitískri þjónkun. Ríkisfjölmiðlarnir eru svínbeygðir undir stjórnvöld ella væri atvinna og afkoma starfsmanna í hættu eins og nú stendur í bæli ofurstjórnarmanna. En réttlætið mun sigra að lokum. Það hefur löngum og víða átt erfitt uppdráttar en á Íslandi getur gegndarlaust óréttlæti ekki þrifist til lengdar.

Ég þakka þeim sem hlýddu og óska landsmönnum öllum góðs og gleðilegs sumars.