Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 21:06:40 (7945)

2001-05-16 21:06:40# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[21:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við upphaf nýrrar aldar er okkur hollt að líta til baka og meta áhrif lagasetninga og stjórnvaldsaðgerða liðinna ára á þróun mannlífs, atvinnulífs og umhverfis hér á landi. Okkur hefur vegnað misvel á hinum ýmsu sviðum og oftar en ekki má finna skýringu á misgóðu gengi í löggjöf eða afgreiðslum Alþingis. Ábyrgð okkar er því mikil því að við erum núna að setja lög og taka ákvarðanir sem munu móta samfélag og lífsskilyrði hér á landi langt fram á komandi öld. Þegar vel árar á að vera jafnvægi í byggðum landsins, stöðugleiki í efnahagsmálum þjóðarinnar, næg atvinna og öryggisnet samfélagsþjónustunnar traust.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. heldur því fram að ríkisstjórnin hafi fært okkur þessi skilyrði á þeim sex árum sem hún hefur setið og svo muni verða áfram undir hennar stjórn. Hæstv. forsrh. neitar því að blikur séu á lofti í efnahagsmálum en forherðist í einkavæðingunni og stóriðjustefnan er orðin að trúarbrögðum. Til að bjarga völtu gengi krónunnar og halda uppi áframhaldandi hagvexti kann hæstv. ríkisstjórn ekki annað ráð en að selja sameiginlegar eignir okkar og þenja út stóriðjustefnu sína sem aldrei fyrr til að fá inn erlent fjármagn.

Á þessu vorþingi er fyrirhugað að leyfa sölu Landsbankans, Búnaðarbankans og Landssímans. Hugur stjórnarliða stendur helst til að selja allt sem rekið er af hinu opinbera, þó er heilbrigðisþjónustunni haldið til hliðar að svo stöddu.

Sú var tíðin að sjálfstæði þjóðarinnar stóð traustum fótum í banka allra landsmanna og síma allra landsmanna. Það þótti mikilvægt að treysta byggðina um allt land með því að efla þjónustu þessara stofnana. En nú er svo að sjá að okkur sé sama um hinar dreifðu byggðir og mætti ætla að það skipti ekki lengur máli hvort þjónusta við íbúa landsbyggðarinnar heldur áfram að skerðast því þannig mun það verða ef öll samfélagsþjónusta á að standa undir sér, hvort heldur fyrirtækin verða rekin í eigu íslenskra eða erlendra fjárfesta.

Væri nú ekki skynsamlegt að læra af reynslu annarra þjóða og viðurkenna að einkavæðing almannaþjónustu hefur það fyrst og fremst í för með sér að þjónustan verður dýrari, hún verður óaðgengilegri og kemur færra fólki til góða?

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki valið réttar leiðir til að viðhalda eðlilegum hagvexti og góðum lífskjörum hér á landi. Byggðir landsins eru flestar veikburða og þó eitthvað kunni að hafa dregið úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þá eru fá merki þess að sú þróun sé að snúast við. Nei, herra forseti, til að snúa byggðaþróun á réttan veg þarf fyrst og fremst að efla þá starfsemi sem skiptir máli þegar fólk velur sér búsetu. Vel skipulögð samfélagsþjónusta, góðir skólar, öflug heilsugæsla, nauðsynleg þjónusta verslunar, banka og pósthúsa, allt eru þetta mikilvægar stoðir blómlegs mannlífs í byggðum landsins ásamt fjölbreyttri atvinnu og atvinnuöryggi.

Ríkisstjórnin þarf að átta sig á því að ekki er nóg að bæta vegakerfið eitt og sér og kalla það byggðastefnu. Hún þarf að átta sig á því að markviss stefna í byggðatengdri menntun skilar sér betur til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni en eitt risaálver.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill auka atvinnutækifæri um land allt með því að nota hreina, innlenda orkugjafa, m.a. til uppbyggingar í þeim atvinnugreinum sem þegar eru til staðar. Við viljum ekki nota þá takmörkuðu auðlind til mengandi stóriðju og eiga svo ekki lengur aðgang að henni þegar á þarf að halda til fljótandi eldsneytisframleiðslu vetnissamfélagsins.

Herra forseti. Um þessar mundir liggur frammi til kynningar matsskýrsla Landsvirkjunar á fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun þar sem Landsvirkjun réttlætir umhverfisspjöll af virkjunarframkvæmdum með meintum hagnaði af hugsanlegri álverksmiðju Reyðaráls. Áhrif samfélagslegra þátta, sérstaklega á Austurlandi, þjóðhagsleg áhrif og samanburður á kostum annarrar landnotkunar og atvinnuþróunar eru ekki skýr og er í raun ótrúlegt að reynt sé að réttlæta þau stórkostlegu náttúruspjöll sem þarna munu eiga sér stað ef af þessari virkjun verður.

En ríkisstjórnin réttlætir fyrirhugaðar stórframkvæmdir með því að auka þurfi atvinnu og skapa fleiri störf á Austurlandi. Fullyrða má að ef jöfn og eðlileg atvinnuþróun hefði orðið á Austfjörðum hefði brottflutningur fólks ekki verið það vandamál sem við blasir. Við erum oft sögð tíu eða fimmtán árum á eftir þeim þjóðum sem við viljum helst bera okkur saman við því að við tökum oft upp úrelt kerfi þeirra. Stóriðja var svar áttunda áratugarins til að styrkja byggðir. Ríkisstjórnin á sem sé ekki annað svar en úreltar hugmyndir liðinnar aldar. Skotar, svo dæmi sé tekið, hafa lagt þá misheppnuðu stefnu niður, enda skilaði hún engum árangri. Reynslan frá Noregi er sú að næsta kynslóð á eftir álverksmiðjunni flytur burt. Í dag er næg atvinna á Austurlandi, samt flytur fólk og kalla þarf eftir erlendu vinnuafli.

Vöxtur útflutnings í litlu, opnu hagkerfi eins og hjá okkur er mikilvægur til að halda uppi hagvexti. Sökum þess hve hagkerfið okkar er lítið þá er það viðkvæmt, sérstaklega fyrir stórum sveiflum í verðlagi. Af þeirri ástæðu er meira en varasamt fyrir okkur að auka hlutfall útflutnings á áli. Skellurinn í niðursveiflu getur orðið þjóðarbúinu dýrkeyptur. Betri árangur næst með því að styrkja stöðu íslenskra fyrirtækja til að þróa vörur til útflutnings á þeim sviðum þar sem við höfum góða þekkingu.

Herra forseti. Núverandi sjávarútvegsstefna með samsöfnun kvóta til fárra staða hefur ein og sér haft hvað mest áhrif á fólksfækkun, sérstaklega á Austurlandi og Vestfjörðum. Þessi þróun verður að skrifast á hæstv. ríkisstjórn. Ekki mun sú lagasetning sem afgreidd var hér fyrr í dag um kjör og réttindi sjómanna treysta sjávarútveginn og búsetu í sjávarplássum né heldur auka veg og virðingu stjórnarliða sem í annað sinn á þessum vetri skirrast ekki við að brjóta mannréttindi með lögum frá Alþingi.

Góðir landsmenn. Gerðir okkar í dag hafa áhrif á líf okkar á morgun. Ef við hlúum ekki að byggðum landsins með skynsamlegum hætti nú njótum við ekki gæða þeirra í framtíðinni. Ef við fórnum náttúru landsins í dag njótum við hennar ekki á morgun.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.