Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 21:14:16 (7946)

2001-05-16 21:14:16# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[21:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn.

  • Rístu og sýndu sæmd og rögg,
  • sól er í miðjum hlíðum.
  • Dagsins glymja hamarshögg,
  • heimurinn er í smíðum.
  • Eldhúsgluggi eða skjár Alþingis er opinn í kvöld. Ný öld heilsar með einum besta vetri um árabil, vorið og sumarið eru heillandi tímar fram undan. Bjartsýni og trú er afl hins hamingjusama, kraftmikla manns. Ég kem inn í stofu til þín í kvöld, ég tala fyrir hönd Framsfl.

    Nú eigum við sex ár að baki í ríkisstjórn. Ég segi sex góð ár. Hvað hefur gerst á sex árum? Unga fólkið vitnar um tækifærin. Þau eru önnur og fleiri. Lífskjörin hafa batnað. Það hafa orðið til 15 þús. störf á Íslandi á þessu tímabili. Það er atvinna fyrir alla. Íslendingar hafa verið að flytjast heim erlendis frá. Það er mikill árangur og mikil breyting frá því sem var fyrir sex árum. Við framsóknarmenn erum stoltir af því að hafa lagt grunn að þjóðfélagi þar sem þegnarnir mæta nýrri öld, sókndjarfir og bjartsýnir.

    [21:15]

    Stjórnmálin eru að þróast, stjórnmálaflokkarnir að breytast og mótast af nýjum stefnum og straumum. Stjórnmálamenn finna til í stormum sinnar samtíðar.

    Stjórnarandstaðan í þessu eldhúsi hefur valið sér það hlutverk að vera á öndverðum meiði í öllum framfaramálum síðustu ára. Forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar minnir á vindhanann á burstinni sem snýst og snýst. Vinstri grænir eru gamalt vín á gömlum belgjum. Flokkurinn er þverklofinn. Annars vegar eru gömlu allaballarnir og kommarnir. Hins vegar er Hollywood-liðið. Vinstri grænir neita ábyrgð og séu tveir erfiðir kostir í einu máli velja þeir ódýrustu leiðina og eru á móti báðum. Þeir axla ekki ábyrgð.

    Framsfl. hefur alltaf haft manngildi ofar auðgildi og barist undir slagorðunum ,,Fólk í fyrirrúmi.`` Við viljum reka öflugt velferðarkerfi og kostnaðinn af því beri blómlegt atvinnulíf í landinu. Séu atvinnuvegirnir reknir með tapi minnka skatttekjur ríkisins og atvinnuleysi eykst. Þá verða minni fjármunir til ráðstöfunar til velferðarkerfisins. Við höfum jafnframt lagt á það áherslu að lögmál markaðar og frjáls samkeppni ríki í atvinnulífi landsmanna en velferðarkerfið sé í höndum hins opinbera. Hagnaðarvon er drifkraftur atvinnulífsins og markaðarins en mannúð og samkennd eiga að ráða ríkjum í velferðarkerfinu.

    Okkur hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar tekist að gera þó nokkrar kjarabætur á högum þeirra sem verst eru settir. Framsóknarmenn telja að í þeim efnum verði að gera enn betur og munum við leggja á það mikla áherslu, enda lýkur baráttunni fyrir lítilmagnann aldrei. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á kerfi barnabóta til hagsbóta fyrir barnafólk. Þá hefur fæðingarorlof verið lengt og réttur feðra tryggður. Framsfl. hefur stóraukið fjármagn til heilbrigðismála og mun standa vörð um þann grunnrétt að Íslendingar eigi sama rétt til heilbrigðisþjónustunnar og menntunarinnar án tillits til efnahags, heilsufars eða búsetu.

    Við framsóknarmenn erum einarðir baráttumenn gegn voða fíkniefna og fyrir síðustu kosningar lögðum við mikla áherslu á að skorin yrði upp herör gegn þessum vágesti. Við lögðum áherslu á að varið yrði meiri fjármunum til þeirrar baráttu og töluðum um einn milljarð á kjörtímabilinu. Nú á miðju kjörtímabili hefur þessu marki verið náð en við munum gera enn betur. Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni að t.d. í toll- og löggæslu hefur náðst mjög mikill árangur á undanförnu missiri.

    Atvinnustefna landbúnaðarins hefur mjög verið til umræðu á síðustu mánuðum. Í kjölfar sjúkdómshörmunga í Evrópu hlaut hún lof allra. Nú flagga þessir sömu menn öðrum fánum og meta einskis hið mikla framtak t.d. íslenskra garðyrkjumanna. Íslenskur landbúnaður er stöðug barátta við að beisla krafta náttúrunnar og breyta þeim í heilnæma gæðavöru. Ég finn sátt hjá þjóðinni um starf bóndans. Ég vil þakka allan þann stuðning.

    Mjög lífleg og á köflum undarleg umræða hefur staðið undanfarnar vikur um verðmyndun á grænmeti og ávöxtum. Ekki hafa sumir látið sig muna um að kenna ríkinu og þá helst þeim sem hér stendur um að verðlag á ávöxtum og grænmeti væri hátt hér á landi, jafnvel á ávöxtum sem ríkið leggur enga tolla á.

    Á vegum ríkisstjórnarinnar er nú unnið að því að leita leiða til að lækka verð á þessum nauðsynjavörum. Fyrstu tillögur um tollalækkanir hafa litið dagsins ljós. Baráttunni er ekki lokið. Auðvitað er mikilvægt að sjá hvernig verðmyndunin á sér stað, hvað hver tekur í sinn hlut, hvað smásalan tekur í sinn hlut, hvað heildsalarnir fá og hvað bóndinn fær. Auðvitað minnir sagan á Bakkabræður þegar þeir fóru í fótabaðið. Það þarf prik og berja í leggina. Þá dregur hver fæturna að sér og verður að viðurkenna hver er hans hlutur. Ég trúi því að við náum árangri í þessu erfiða verkefni.

    Hæstv. forseti. Fákeppni er alvörumál. Heilbrigð samkeppni knýr menn áfram til góðra verka. Því er brýnt að í smásöluverslun keppi fleiri en tvær keðjur. Rannsókn Morgunblaðsins bendir til að smásalan sé dýr og hörð í viðskiptum.

    Við Íslendingar eigum töfrandi land. Við eigum auðlindir til að fóstra stóra þjóð. En dýrmætasta auðlindin er duglegt fólk. Það er skylda okkar að gefa þessu fólki frelsi til athafna. Þannig verða barni þínu tryggð lífskjör og hamingja í landinu bláa.

    Sterkasta aflið til að byggja upp atvinnulíf er hugsjónaríkt fólk og sterkasta aflið gegn fákeppni eru lífeyrissjóðir fólksins. Þeir eiga að gegna stóru hlutverki þar sem ríkisvaldið hverfur út úr rekstri. Lífeyrissjóðir fólksins eiga 120 milljarða í fjárfestingum erlendis. Þeir eiga að vera stærstu aðilarnir. Þeir eiga 50--100 millj. til þess að taka við hlutverki ríkisins í atvinnurekstri. Kannski endar hv. þm. Ögmundur Jónasson í einhverju bankaráðinu.

    Góðir Íslendingar. Ég trúi á að við séum á réttri leið. Það er þessi stefna sem tryggir velferð og lífskjör til framtíðar. Bjartsýni og trú fylgir töframáttur. --- Góðar stundir.