Verðmyndun á grænmeti

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 10:32:30 (7953)

2001-05-17 10:32:30# 126. lþ. 127.91 fundur 561#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Á þessu vori höfum við hæstv. landbrh. rætt nokkuð um verðmyndun á grænmeti. Ég rifja það upp að í mars sl. urðu sérstaklega umræður um sveiflur á verði grænmetis sem urðu í þeim mánuði. Ég og raunar fleiri hv. þm. töldum þá að tollar sem landbrn. setti á innflutt grænmeti réðu þar mestu af þáttum sem mátti rekja til innan lands. Hæstv. landbrh. var annarrar skoðunar. Hann vísaði allri ábyrgð á grænmetisokrinu af höndum sér og af höndum ráðuneytisins. Hæstv. ráðherra sagði sem sagt fullum fetum að ekki væri um að kenna tollapólitík sinni eða ráðuneytisins.

Í framhaldinu óskaði hæstv. landbrh. eftir því að Samkeppnisstofnun kannaði verðmyndun á grænmeti, einkum papriku, í þessum sama mánuði. Nú er sú skýrsla komin, herra forseti. Hún var hins vegar ekki kynnt með lúðrablæstri og söng eins og oft er háttur þessa hæstv. ráðherra. Nei, heldur betur ekki. Þessari skýrslu nánast laumað út úr ráðuneytinu. Skýringin er einföld. Skýrslan sýnir svart á hvítu að fullyrðingar um að tollapólitík landbrn. ætti ekki sök á grænmetisokrinu voru rangar. Skýrslan sýnir það einfaldlega að þó að erfitt sé að meta nákvæmlega áhrif tolla á verðið þá varð það eigi að síður niðurstaða skýrslunnar að tollarnir gátu hækkað verð á grænmeti um fast að 50%, þ.e. um helming. Sú hækkun, herra forseti, er alfarið á ábyrgð hæstv. landbrh.

Herra forseti. Ferlið er þannig að tollurinn er lagður á áður en heildsalinn og smásalinn reikna út álagningu sína. Í sumum tilvikum getur þetta leitt til þess að hver króna sem lögð er á sem tollur tvöfaldast í ferlinu. Því er alveg ljóst, herra forseti, að það er að stórum hluta á ábyrgð tollapólitíkurinnar sem hæstv. landbrh. rekur hvers vegna verið er að okra á grænmeti á þessu vori. Ég vil því spyrja, hæstv. landbrh.: Er hann ósammála þeirri niðurstöðu skýrslunnar að af þáttum innan lands hafi tollahækkun hans átt mestan þátt í verðhækkunum á grænmeti á þessum tíma?