Verðmyndun á grænmeti

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 10:34:41 (7954)

2001-05-17 10:34:41# 126. lþ. 127.91 fundur 561#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er gott svona að morgni dags að taka léttan farsa um grænmetið og hv. þm. Össur Skarphéðinsson lætur ekki á sér standa.

Hann spyr mig af hverju skýrslan frá Samkeppnisstofnun hafi ekki verið kynnt með lúðrablæstri. Ég vil segja það hér að skýrslan fór á netið áður en hún kom til mín. Fréttamenn höfðu séð hana áður en hún barst mér í hendur.

Ég er ekki alveg sáttur við skýrsluna og tel að þar sé ekki öllu því svarað sem ég spurði um. Ég nefni það að aðeins eitt fyrirtæki gefur upp cif-verð. Samkeppnisstofnun viðurkennir að það er bara eitt fyrirtæki. Hún tekur tölurnar trúanlegar frá fyrirtækjunum og kafar ekki þannig ofan í málið. Ég hef því beðið um að farið verði betur yfir það.

Ég vil segja um þær ásakanir sem komu að það er lögum samkvæmt, hv. þm., sem tollar hækka og koma hér á 15. mars út af innlendri framleiðslu. Það liggur fyrir að samþykkt Alþingis er fyrir því. Þá héldu kaupmenn því fram að paprikuverðið hefði farið úr 400 kr. í 800 kr. tollanna vegna. Ég þrætti fyrir það og sagði að þarna væri hækkun í hafi af einhverjum öðrum orsökum því það kemur í ljós í skýrslu Samkeppnisstofnunar að tollurinn átti ekki allan hlut. Sennilega var það ný afurð frá öðru landi. En hins vegar hefur komið fram í þessari rannsókn, og það hafa t.d. Hagkaupsmenn, svo að ég nefni eitt fyrirtæki, viðurkennt, að í sumum tilfellum hefur allt upp í 300% álagning verið í smásölu. Þeir tala að vísu um að sín álagning sé 40--45%. Þeir hafa verið að biðja mig um að biðja sig afsökunar á ummælum mínum en ég stend við allt sem ég hef sagt í þessu. Ég vil bara fá skýrari niðurstöðu í málið og hef því beðið hina lögbundnu nefnd sem mér er til ráðgjafar að hitta Samkeppnisstofnun og fara betur yfir það, ekki síst af því að þeir taka allt trúanlegt sem kemur frá þeim grunaða í þessu máli og sá grunaði er smásalan. Það er nú, eins og einhver sagði, (Forseti hringir.) ekki algengt, hæstv. forseti, að láta þann grunaða segja manni bara það sem hann vill sjálfur setja fram. Það verður að rannsaka málið.