Verðmyndun á grænmeti

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 10:39:06 (7956)

2001-05-17 10:39:06# 126. lþ. 127.91 fundur 561#B verðmyndun á grænmeti# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að nauðsynlegt sé að kanna þátt smásölunnar. Ég er honum sammála um það. Ég vil eiga góða samvinnu við hæstv. landbrh. um að reyna að draga úr fákeppni á smásölumarkaðnum, reyna þannig að örva samkeppni og lækka verð til neytenda. Hins vegar var það hæstv. landbrh. sem sagði þegar verðhækkanirnar dundu yfir í mars að það væri ekki vegna tollahækkana landbrn. Og til þess að staðfesta það, herra forseti, fékk hann Samkeppnisstofnun til að gera sérstaka skýrslu um það. Nú hefur Samkeppnisstofnun sent frá sér þá skýrslu. Meginniðurstaða hennar er þessi: Verðhækkanirnar í mars eiga rót sína að rekja til tveggja þátta, erlendra verðhækkana en innan lands er það bara einn þáttur sem hefur leitt til hærra verðs og það eru tollahækkanirnar sem hæstv. landbrh. hefur staðið fyrir. Sýnt er fram á það með dæmum í skýrslunni, herra forseti, hvernig ein króna sem hæstv. landbrh. leggur á sem toll, getur orðið að tveimur í verðmyndunarferlinu. Það er talað um það í skýrslunni að algengt sé að verðið hækki um fast að 50% og í sumum tilvikum líklega um 100%.

Herra forseti. Því sem hæstv. landbrh. sagði hér í umræðum, að það væru ekki tollahækkanir ráðuneytisins sem ættu sök á grænmetisokrinu, er hrundið í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Þess vegna spyr ég þennan hæstv. ráðherra: Er hann ekki þeirrar skoðunar í ljósi þessarar skýrslu að það þurfi að flýta tollalækkunum á grænmeti umfram það sem hann hafði áður tilkynnt á hinu háa Alþingi? Er ekki hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að tími sé kominn til að hætta að nota snigilinn fyrir reiðskjóta í þessu máli?