Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:04:02 (7965)

2001-05-17 11:04:02# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Eins og eftir á að koma fram síðar, í nál. 1. minni hluta samgn., teljum við þetta brýnasta verkefnið áður en kemur að sölu. Ég vil aðeins segja það hér, áður en ég hverf frá þessu, að við breytinguna 1. nóvember 1999, frá því verði sem þá var, jókst munurinn milli fyrirtækis í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu. Mismunurinn var 260% en hann jókst upp í 300%. Það var vegna þess að lækkunin á höfuðborgarsvæðinu var meiri en þarna var.

Þetta hafa menn verið að gagnrýna og þetta kom fram hjá þeim ágæta manni, Eyþóri Arnalds, þegar hann heimsótti samgn. Hann sagði að hann skildi ekki hvernig í ósköpunum fyrirtækin á landsbyggðinni hefðu lifað af þær gjaldskrár sem boðið hefur verið upp á fram að þessu.

Ég ætla að minna á að þegar þessi atvinnugrein hóf göngu sína þá sátu fyrirtæki í Vestmannaeyjum og Reykjavík ekki við sama borð vegna þess að fyrirtæki í Vestmannaeyjum í byrjun árs 1998 þurftu að greiða 1000% meira fyrir leigulínu en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Ef þetta er ekki til að skekkja samkeppnisstöðu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, þá veit ég ekki hvað það er.

Hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja hv. þm. út í er að þeir segja sem svo að sérfræðingar telji sölu á grunnnetinu ekki koma til greina og það sé ekki hægt. Þessir sérfræðingar segja í sömu skýrslu, skýrslu einkavæðingarnefndar, að ekkert komi í veg fyrir að Landssíminn, þegar verður búið að selja hann að hluta eða öllu leyti, geti selt grunnnetið sér.

Mig langar að spyrja hv. þm. út í það álit einkavæðingarnefndar og sérfræðingsins sem var fenginn til að skrifa kaflann um grunnnetið sem telur að sá aðskilnaður yrði baggi á ríkissjóði.