Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:06:18 (7966)

2001-05-17 11:06:18# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. meiri hluta ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að taka undir það að skoðanir manna á aðskilnaði grunnnets og annarra þátta Landssíma Íslands voru misjafnar að því leyti að þær voru háðar margs konar mismunandi skilyrðum. Grunnatriðið var að tryggður yrði jafn aðgangur að grunnlínukerfinu. Að því tryggðu er það mat mitt að hugmyndin um aðskilnað hafi ekki vegið þungt hjá flestum sem nefndin ræddi sérstaklega við af þessu tilefni. Að settum ákveðnum skilyrðum og markmiðum var þetta ekki talið stórkostlegt áhyggjuefni. En auðvitað höfðu menn og hafa menn áhyggjur af mismun á innheimtu eftir fjarlægðum eftir búsetu á landinu.

Þessi þáttur, verðlagning á grunnlínukerfinu, kemur í sjálfu sér ekki við varðandi sölu heimilda Landssíma Íslands. Markmiðið er ljóst. Markmiðið er ljóst, bæði af hálfu ríkisstjórnarinnar og kemur áréttað fram í nál. meiri hluta samgn. um þessa jöfnun. Því er fyrir fram ljóst við væntanlega sölu Landssímans að væntanlegir kaupendur vita að hverju þeir ganga. Þar fyrir utan hefur ríkissjóður áfram tögl og hagldir í málinu með meirihlutaeignaraðild og meðan unnið er að eðlilegum framgangi málsins í farvegi sem á að skila árangri öllum til handa þá ætti þetta ekki að vera áhyggjuefni.