Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:55:43 (7970)

2001-05-17 11:55:43# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:55]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að fá þetta á hreint því að við erum að tala hér um ekkert lítið ríkisfyrirtæki, ekki einn, tvo, þrjá menn í einni stöð heldur erum við að tala um að eftir sitji 450 manna ríkisfyrirtæki, því að það eru u.þ.b. 450--480 manns sem starfa í kringum grunnnetið. Í mínum huga yrði þetta ríkisfyrirtæki sem innan tíðar mundi sitja eftir og daga uppi sem nátttröll. Við vitum öll sem hér erum inni að samkeppni er ekki bara á næsta leiti í grunnnetinu heldur er hún þegar hafin.

Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að það virðist vera sem svo að ekki sé algjör samhljómur í málflutningi hjá Samfylkingunni því að í grein frá hv. þm. Kristjáni Möller var m.a. ýjað að því að grunnnetið gæti verið bæði í ríkiseigu og einkaeigu. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sagði alveg skýrt og klárt í ræðu sinni fyrr út af þessu málefni að dreifikerfið verði ekki selt. Ég tel því ekki vera nægilegan samhljóm hjá Samfylkingunni varðandi þetta tiltekna málefni.