Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:57:08 (7971)

2001-05-17 11:57:08# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum nú kannski ekki stödd á MORFÍS-keppni eða neinu þess háttar. Það liggur alveg fyrir, virðulegi forseti, að við leggjum til að ríkið haldi eftir grunnnetinu. Hins vegar er það skoðun mín og ég held að það sé skoðun flestra í Samfylkingunni og ég veit ekki betur en samhljómur sé í því að vitaskuld mundi ríkið losa sig frá þessu fyrirtæki þegar fram líða stundir.

En að því er varðar að grunnnetið yrði eftir sem nátttröll, þá hefur allur okkar málflutningur byggst á því að einokun leiði til hærra verðs og endalaus söguleg dæmi eru þess að einokun hefur aðeins leitt til þess að neytendur þurfa að greiða hærra verð. Með þessari aðferðafræði erum við að reyna að tryggja að hér skapist ekki einkaeinokun í stað ríkiseinokunar. Það er meginmarkmið okkar með því að skipta fyrirtækinu upp.

Vissulega má færa að því rök að á einhverjum sviðum næðum við ekki að hafa þetta sem hagkvæmast, en heildarsviðið er miklu betra í þessu formi en öðru.