Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:00:05 (7973)

2001-05-17 12:00:05# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé bara eitt í þessu andsvari sem vert er að gera tilraun til þess að svara. Annað var útúrsnúningur og hafði lítið með umræðuna að gera.

Hv. þm. segir að þetta muni auka kostnað hjá neytendum til skamms tíma, þ.e. það þarf hugsanlega að breyta grunnnetinu, það þarf að skipta fyrirtækinu upp og það þarf að koma því á laggirnar. Það þarf að skipuleggja þetta upp á nýtt. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að einhver kostnaður muni verða.

En hver heldur hv. þm. Magnús Stefánsson að verði kostnaður neytenda af einokun á þessu sviði til lengri tíma? Heldur hv. þm. að sú einokun sem hér er ætlunin að skapa muni skila neytendum betra verði til lengri tíma? Það væri ágætt ef hv. þm. nefndi dæmi úr sögunni, nefndi eitt dæmi þar sem einokun hefur tryggt neytendum lægra verð, betri þjónustu og allt sem því fylgir. Það væri gott ef hv. þm. gæti nefnt eitt dæmi, þó ekki væri nema eitt um að einokun hafi skilað neytendum lægri kostnaði.