Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 13:31:50 (7985)

2001-05-17 13:31:50# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (frh.):

Herra forseti. Ég fór fyrir hádegisverðarhlé nokkrum orðum um þær almennu forsendur sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. telur fyrir einkavæðingu. Ég hef farið yfir þær forsendur sem einkavæðingarnefnd leggur ríkisstjórninni til fyrir einkavæðingu og sölu hlutabréfa í ríkisfyrirtækjum. Ég hef gert ítarlega grein fyrir þeim mun sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum á stöðu Landssímans og almenns fyrirtækjarekstrar í landinu. Við teljum að Landssíminn sé fyrst og fremst almannaþjónustustofnun og þótt einhverjir þættir í starfsemi hans geti flokkast undir fyrirtækjarekstur þá sé þetta fyrst og fremst almannaþjónusta.

Við teljum þjónustuna eina af grunnstoðum íslensks samfélags hvar sem er á landinu og að jafnt aðgengi að henni sé grundvöllur þess að einstaklingar, fyrirtæki og samfélög búi í samkeppnishæfu umhverfi, óháð búsetu. Þetta teljum við jafnframt hluta þess sem gerir okkur að einni þjóð. Við teljum að eins og önnur grunnalmannaþjónusta eigi Landssíminn að vera á ábyrgð íslensku þjóðarinnar og þjóðin geti gert til hennar félagslegar kröfur, jafnréttiskröfur, gegnum Alþingi og framkvæmdarvaldið, sem starfar á vegum Alþingis. Þessu hef ég, herra forseti, gert ítarlega grein fyrir.

Ég hef jafnframt rakið að einkavæðingarstefnan, sem átti að leiða til jafnvægis í ríkisfjármálum, hefur ekki orðið til að styrkja íslenskt atvinnulíf til framtíðar. Sala ríkisfyrirtækja átti að leiða til lægri vaxta og atvinnuöryggis. Hún leiðir kannski til atvinnuöryggis um tíma en gerir það ekki til framtíðar eins og þörf hefði verið fyrir. Sá ávinningur sem ríkisstjórnin ætlaði sér með sölu á hlutafé í fyrirtækjum í eigu ríkisins hefur ekki skilað sér.

Ríkisstjórnin og einkavæðingarnefnd settu með einföldum hætti fram forsendurnar og almenn markmið með einkavæðingu í nokkrum liðum. Þar segir t.d. að einkavæðingin í sjálfu sér auki samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu. Hún getur gert það stundum að mínu mati en það er fjarri því að það sé algilt. Það er fáránlegt að setja það fram sem eitthvað algilt. Það sýnir bara ófagleg vinnubrögð.

Í öðru lagi er því haldið fram að einkavæðing dragi úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum. Jú, stundum gæti hún gert það en hún er engin trygging fyrir því. Þannig er fáránlegt, herra forseti, að setja þetta sem markmið með sölu Landssímans.

Þá er rætt um að salan mundi efla hlutabréfamarkað. Vafalaust getur það eflt hlutabréfamarkaðinn að selja hlutabréf Landssímans en þá hefur ítarlega komið fram á fundum samgn. með fulltrúum fjármálamarkaðarins að til að svo verði þá þurfi að selja þau á undirverði, þannig að kaupendur hlutabréfanna sjái í þeim hagnað á eftirmarkaði. Þetta hefur ítarlega komið fram á fundum nefndarinnar. Það markmið ríkissjóðs að efla hlutabréfamarkaðinn er hæpið ef til þess þarf það eitt að selja hlutabréf fyrirtækisins á undirverði.

Ein af röksemdunum sem tíndar hafa verið til af hálfu einkavæðingarnefndar er að salan mundi bæta stöðu ríkissjóðs. Það er svo sem alveg hárrétt. Salan getur bætt stöðu ríkissjóðs en eins og ég tók fram áðan þá væri ágætt að hæstv. fjmrh. kæmi gerði grein fyrir þeirri brýnu þörf sem á því er. Eru það haldbær rök sem hér eru tíunduð fyrir því að selja Landssímann, að bæta stöðu ríkissjóðs? Það er dapurlegt til þess að vita ef þarf að selja bestu almannaþjónustufyrirtæki ríkisins til þess að bæta stöðu ríkissjóðs. Það eru dapurlegt rök.

Ég nefndi einnig að því hefði verið slegið fram sem röksemd að salan ætti að bæta hag neytenda. Stundum getur það orðið í einhverjum tilvikum. En það er fjarri því að slá því fram sem einhverri algildri röksemd fyrir því að þurfa að selja Landssímann til að bæta hag neytenda.

Það hefur einmitt komið fram, herra forseti, hjá öllum þeim fulltrúum neytenda sem komu á fund samgn. að þeir óttuðust mest að samkeppnisstaðan, staða markaðarins og staða þjónustunnar, yrði ekki á þeim grunni að líklegt væri að salan mundi styrkja hag neytenda. Nei, það er talið afar brýnt að setja í gang stóraukið laga- og reglugerðaverk til að freista þess að tryggja stöðu neytenda. Fyrir vikið þarf að efla eftirlitsiðnaðinn. Menn deilu það hvort það þyrfti tvo eða fimm starfsmenn á Samkeppnisstofnun eða fjarskiptastofnun, hvort þeir ættu að kunna meira í peningamálum, í fjarskiptum eða í breiðbandsmálum. Ef fullnægja hefði átt öllum þeim óskum um sérhæfni manna til að takast á við þetta stóraukna eftirlitshlutverk þá sýndist mér að til þess dygðu ekki einn eða tveir starfsmenn, herra forseti. Í þeirri umræðu sem þar kom upp virtist mér af og frá að sala Landssímans gæti orðið til að bæta hag neytenda. Þvert á móti mundi þurfa að stórauka reglugerðaverk og eftirlitsvinnu samtímis til að reyna að tryggja stöðu neytenda, tryggja jafnvel stöðuna eins og hún er í dag og töldu þó ýmsir að hún væri hvergi nærri nógu góð.

Þannig, herra forseti, að þessi röksemd sem einkavæðingarnefnd fyrir sölunni, að bæta hag neytenda, á alls ekki við hér. Það er furðulegt að slík vinnubrögð skuli viðhöfð á hæstv. Alþingi, að bera þetta á borð.

Í listanum yfir markmið með sölunni kemur fram að hún mundi styrkja stöðu starfsmanna. Reynslan af einkavæðingu og sölu á ríkisfyrirtækjum er sú að hið fyrsta sem er gert er að segja starfsmönnum upp stórum hópum. Þess vegna, herra forseti, var einmitt rætt frekar um hvernig unnt yrði að tryggja stöðu starfsmanna eftir að selt yrði, það var fremur vandamál en hitt, að þetta mundi bæta stöðu þeirra.

Svona standa hver rökin á móti öðrum sem hér eru talin upp af hálfu einkavæðingarnefndar og ríkisstjórnarinnar fyrir sölu á Landssímanum beinlínis röng, bara slagorð út í loftið. Markmiðið er ekki að velta þessu fyrir sér heldur bara að selja. Þannig er málið í hnotskurn. Að selja, selja, selja, selja.

Ég ítreka, herra forseti, að það kom mjög ítarlega fram hjá þeim sem komu til fundar við samgn. að það þyrfti að liggja skýrt fyrir hver ætlun ríkisstjórnarinnar væri með 51% eignarhlutinn. Er þess að vænta að ríkisstjórnin sé bara, t.d. í orðum hæstv. utanrrh. sem ég vitnaði til fyrir hádegið, að gefa friðþægingaryfirlýsingu, til að mýkja þá ákvörðun að selja Landssímann?

Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

,,Við munum hins vegar á næstu mánuðum eða missirum ekki selja meiri hlutann í fyrirtækinu.``

Fyrir mér er töluverður munur á því hvort það er næsti mánuður eða næstu missiri. Á því er í sjálfu sér töluverður munur. Það gengur ekki að hafa svo stórt atriði, bæði varðandi verðlagningu, sölu og áhuga kaupenda, skilið eftir í þeirri óvissu sem þarna er. Ég krefst þess að hæstv. utanrrh. geri nákvæma grein fyrir því hvað hann á við.

Í öðru lagi er mikilvægt fyrir neytendur, þessa ræfilsneytendur sem einkavæðingarnefnd og ríkisstjórn bera svo fyrir brjósti að það þarf að selja Landssímann til þess að tryggja og bæta hag þeirra, þá er afar mikilvægt að vita einmitt: Verður haldið áfram með sölu Landssímans, selt af meirihlutaeign ríkisins? Það kom skýrt fram hjá þeim neytendum sem komu á fund samgn. víða að af landinu með stuttum fyrirvara að þeir óttuðust að erfitt yrði að gera auknar kröfur í takt við tímann til einkavædds fyrirtækis, fyrirtækis sem væri gjörsamlega horfið úr meirihlutaeign þjóðarinnar. Þeir töldu að erfitt yrði að gera kröfur til fyrirtækisins eftir á og töldu skipta afar miklu máli að geta gert slíkar kröfur. Þá skiptir máli hvort ríkið á meiri hlutann eða ekki. Ég óska eftir því, herra forseti, að bæði hæstv. samgrh. og hæstv. utanrrh., formaður Framsóknarflokksins, geri örugga og trausta grein fyrir því hvað til stendur.

[13:45]

Herra forseti. Í ræðu minni fyrir hádegi lagði ég áherslu á að samgn. hefði fyrst og fremst fjallað um málið út frá tæknilegum hliðum, út frá þjónustuhliðinni og ekki síst þjónustunni vítt og breitt um landið. Þar kom fram að neytendur óttuðust sölu Landssímans, að hún mundi leiða til þess að erfiðara yrði fyrir notendur að sækja rétt sinn. Talið var að erfitt yrði að gera kröfur til þjónustunnar. Menn óttuðust það. Það voru ekki meðmæli með því að hraða sölunni til að bæta þjónustuna við þessa aðila. Það er mesti misskilningur þó því sé haldið fram í skýrslu einkavæðingarnefndar, að það sé tilgangurinn með sölu Landssímans að bæta þjónustu við neytendur.

Hin hliðin á sölunni, herra forseti, er að hún er sögð vera af efnahagslegum ástæðum en samgn. er í sjálfu sér ekki sérfræðinefnd þingsins á sviði efnahags- og viðskiptamála. Þess vegna óskaði ég eftir því að leitað yrði umsagnar efh.- og viðskn. um þá þætti frv. sem lutu að efnahags- og peningamálum. Eftir nokkra bið hafnaði meiri hluti samgn. því að málið yrði sent til efh.- og viðskn. Ég mótmælti því og tel það ekki boðleg vinnubrögð.

Lögð hefur verið áhersla á að efla þurfi eftirlit og viðurlög, að það væri forsenda þess að samkeppnin geti staðist. Samkvæmt lögum eiga Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun að fylgjast með því að ákvæði samkeppnislaga séu virt og þjónustukröfum fullnægt. Fram kom hjá meginþorra þeirra sem komu til fundar við nefndina að þarna er víða pottur brotinn, það eftirlitskerfi sem við nú búum við væri í stórum dráttum óvirkt nú og þeir töldu að gera yrði grundvallarbreytingar á framkvæmd þessa eftirlits. Hér þyrfti aukna lagastoð, aukið fjármagn og tæknimannafla til að ráða við aukinn þunga í verkefnum á þessu sviði. Voru sagðar daprar reynslusögur frá samskiptum við Landssímann hf. og eftirlitsstofnanirnar. Eins og staðan er nú ræður eftirlitskerfið alls ekki við verkefnin á þessu sviði. Það tjóar lítið að beita leyfissviptingum til að refsa fyrirtæki sem fer ekki að tilmælum en er allsráðandi á markaðnum þegar um almannaþjónustu er að ræða. Þannig að sú heimild að mega svipta Landssímann starfsleyfi, rekstrarleyfi, ef hann ekki fer að þeim tilmælum sem krafist er, er náttúrlega meira og minna út í hött. Hver ætlar að skrúfa fyrir Landssímann út um allt land til þess að fylgja eftir þeim kröfum? Þetta er svo mikil bábylja, herra forseti, að það tekur engu tali.

Nauðsyn ber til að styrkja lagagrunn til að geta beitt, eins og Danir í dag, viðurlögum, dagsektum eða öðrum raunverulegum aðgerðum sem hrífa. Eftir að fyrirtækið hefur verið selt mun verða enn erfiðara að fylgja því eftir að fyrirtækið fari að reglum eða setja því auknar kröfur. Það kom fram hjá langflestum þeirra sem komu fyrir nefndina að þeir töldu erfitt að krefjast þess af einkafyrirtæki að þjónustan yrði aukin.

Ég hef kynnst framgöngu Íslandspósts hf. við lokun pósthúsa og samdrátt í póstþjónustu víða um land og ítrekað tekið það upp hér á þinginu. Er þó fyrirtækið alfarið í eigu ríkisins og á ábyrgð samgrh. og Póst- og fjarskiptastofnun fer með eftirlitið. Skagfirðingar mótmæltu með undirskriftum hundraða íbúa lokun pósthúsa og skertri póstþjónustu á Hofsósi og í Varmahlíð. Mótmælin fóru til samgönguráðherra og Íslandspósts hf., en var í engu svarað. Hvaða traust bera menn til svona eftirlits? Forsvarsmenn héraðsins gengu á fund samgrh. og þingmanna kjördæmisins og mótmæltu uppsögnum starfsfólks, lokun pósthúsa og skertri póstþjónustu. Óskuðu þeir jafnframt eftir skoðun á því hvort skerðing á þessari þjónustu og tilhögun hennar stæðist lög. Herra forseti, því hefur ekki verið svarað. Þetta fólk hefur ekki verið virt svars. Á Alþingi hefur þetta mál ítrekað verið tekið upp og beðið um skoðun á því hvort lokun pósthúsanna og skerðing þjónustunnar stæðust lög og starfsleyfi fyrirtækisins. Við rekum eftirlitsstofnanir sem er ætlað það hlutverk að fylgjast með þessu, eftirlitsstofnanir sem eiga að fá stóraukin verkefni í að fylgjast með því hvernig Landssíminn fylgir lögum og reglum. Það er miklu stærra mál en málefni Íslandspósts sem er alfarið í eigu ríkisins. (Gripið fram í.) Það hefur heldur ekkert fengist gert á þessu sviði.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur óskað eftir afriti af samningum sem Íslandspóstur hf. hefur gert við sjálfstæða rekstraraðila um starfrækslu póstþjónustu á landsbyggðinni. Því var hafnað. Í starfsleyfinu stendur einmitt að fyrirtækinu sé óheimilt að framselja þennan rekstur til þriðja aðila. Hið sama stendur í starfsleyfinu sem fylgir hér með frv. um sölu Landssímans. Þar er nákvæmlega sama setningin, um að viðkomandi fyrirtæki sé óheimilt að framselja þetta leyfi sitt. Þessum óskum hefur ekki verið svarað og þessu eftirliti eigum við að treysta.

Herra forseti. Sveitarstjórn Skagafjarðar sendi Póst- og fjarskiptastofnun bréf 14. mars 2001 með ósk um úrskurð um hvort breyting á ,,póstafgreiðslu í Varmahlíð og á Hofsósi samrýmist lögum og reglum sem varða póstþjónustu í landinu.`` Því bréfi var loks svarað 2. maí sl. Þar er greint frá væntanlegri úttekt sem gæti lokið í september. Þetta er eftilitið í dag og okkur er ætlað að treysta því til að takast á við enn stærri verkefni en einn lítinn Íslandspóst og tvö lítil pósthús.

Er það von þó margir sem komu á fund samgn. og svöruðu eins og þeir gerðu þegar þeir voru spurðir hvers vegna þeir hefðu ekki leitað til eftirlitsstofnana? Þið getið giskað á svörin. (HjÁ: Hver voru þau?) Svörin voru þau að (Gripið fram í: Hann situr í samgn.) það hefði ekki reynst árangursríkt og því hefðu þeir ekki gert það. (HjÁ: Engin kæra.) Nei. Þess vegna var ég að kynna hér, herra forseti, m.a. fyrir hv. þm. Hjálmari Árnasyni, þessa einu kæru sem hafði borist Póst- og fjarskiptastofnun út af einu afmörkuðu máli, hve lengi hún hefði verið að velkjast í kerfinu án þess að vera svarað. Hvað fyndist honum um að allir ættu að ganga þá þrautagöngu? Hvað sögðu ekki sumir sem komu á fund samgn.? Þeir sögðu að það færi endalaus tími í að reyna að sækja rétt sinn, finna út rétt sinn og sækja hann. Ég veit að hv. þm. man eftir þeim orðum. Við erum ekkert ánægðir með það. Ég veit að hv. þm. Hjálmar Árnason er ekkert ánægður með að sú sé staðan. (Gripið fram í: Þeir fá nú tvo.) Ég verð að segja, herra forseti, að reynslan af þessu eftirliti hlýtur að vera aðvörun um það sem gerst getur.

Ég hef fengið leyfi, herra forseti, til þess að vitna í bréfaskipti aðila í Skagafirði og Póst- og fjarskiptastofnunar, sem hefur sent bréf til sveitarstjórnar Skagafjarðar. Það er með fullu leyfi Skagfirðinga. Bréf þessarar eftirlitsstofnunar, Póst- og fjarskiptastofnunar, við bréfi sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 14. mars árið 2001 berst 2. maí árið 2001. Þetta er eftirlitið sem við eigum líka að treysta fyrir Landssímanum. Ég bendi á aðdragandann. Hundruð Skagfirðinga hafa sent undirskriftir til hæstv. samgrh. og Íslandspósts, beiðni um að kannað sé hvort þarna sé farið að lögum. Ég bendi á bréfaskipti sem áður fara þar á milli með ósk um það sama. Málið hefur ítrekað verið tekið upp á þinginu og farið í gegnum það. Maður hefði haldið að alvara málsins væri nokkuð klár og auðvelt væri að ganga úr skugga um hvort þarna væri rétt að staðið. Og þá lægi það bara fyrir.

En síðan kemur bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun til sveitarfélagsins Skagafjarðar, með leyfi forseta. --- Ég hef áður fengið leyfi forseta sveitarstjórnar Skagafjarðar:

,,Vísað er til bréfs yðar, dagsett 14. mars 2001, þar sem farið er fram á að Póst- og fjarskiptastofnun úrskurði um hvort sú breyting sem orðið hefur á póstafgreiðslu í Varmahlíð og á Hofsósi samræmist lögum og reglum sem varða póstþjónustu á landinu.`` --- Spurningin er ekkert dregin í efa. --- ,,Erindi þetta er til komið vegna bréfs Sigríðar Sigurðardóttur, safnvarðar í Byggðasafninu Glaumbæ, sem fylgdi með bréfi yðar. Af þessu tilefni vill stofnunin upplýsa yður um að nú stendur yfir heildarúttekt á þeim pósthúsum úti á landi þar sem afgreiðslufyrirkomulagi hefur verið breytt, m.a. vegna samninga við fyrirtæki um rekstur þeirra auk þess sem unnið er að setningu reglna sem taka munu m.a. á atriðum eins og hvernig og hvar afgreiðslustaðir eiga að vera, póstleynd, öryggismálum, aðgengi almennings að þjónustunni og fleira. Stefnt er að því að úttektinni verði lokið í september næstkomandi og verður þá samin skýrsla. Þykir stofnuninni eðlilegast að úttekt á ofangreindum stöðum verði hluti af þessari skýrslu en að þeir verði ekki teknir út sérstaklega.

Póst- og fjarskiptastofnun telur rétt að það komi fram að lagastoð fyrir setningu reglna um staðsetningu og fyrirkomulag póstafgreiðslna er ekki að finna í gildandi lögum um póstþjónustu, en stefnt er að því að stofnunin fái slíka heimild í nýjum lögum. Beðist er velvirðingar á hvað dregist hefur að svara erindinu.``

Þetta er endanlegt svar þessarar eftirlitsstofnunar sem við eigum að fela aukið eftirlit. Þessi stofnun starfar á ábyrgð hæstv. samgrh. og á að taka að sér enn stærri verkefni.

Herra forseti. Mundi hæstv. forseti ekki halda að íbúar landsins yrðu fljótt þreyttir á að senda inn erindi sín og fá ekki skjótari viðbrögð en Skagfirðingar við sínu erindi? Það er ekki að furða þó aðilar séu ekki að senda mörg erindi inn þegar svarið er að hugsanlega komi út skýrsla um málið eftir ár.

[14:00]

Herra forseti. Ég verð að gera þetta að máli vegna þess að í allri umfjöllun þessa máls var lögð áhersla á að samkeppnin væri ekki fyrir hendi og forsenda fyrir því að hún gæti gengið upp væri sú að eftirlitið væri öruggt og tryggt og það tryggði rétt neytandans hvar sem væri á landinu. Það var rauður þráður í gegnum þessa umfjöllun.

Herra forseti. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18. mars sl. er grein eftir Sólveigu Einarsdóttur sem býr í Ástralíu, en það land hefur oft verið nefnt sem fyrirmynd í nýfrjálshyggju og einkavæðingu almannaþjónustu. Það hefur meira að segja verið sagt hér á landi vera góð fyrirmynd. Fyrirsögn greinarinnar er, með leyfi forseta:

,,Kraumar í pólitískum pottum Ástralíu?

Sýður undir: Hér á landsbyggðinni [þetta er í Ástralíu] hefur undanfarið verið heitt í kolunum. Sé minnst á stjórnmál við nokkurn mann þá sýður upp úr fyrr en varir. Hvað veldur því að fólki er svo heitt í hamsi?``

Síðan telur Sólveig upp nokkur atriði sem sérstaklega valda þessari óánægju, svo sem hækkun skatta á matvælum og hækkun skatta á bensíni sem kemur sér afar illa fyrir íbúa dreifbýlisins í þessu landi mikilla vegalengda.

Um sölu símans segir hún, með leyfi forseta.:

,,Alríkisstjórnin seldi mikinn hluta landssímans (Telstra) fyrir billjónir dollara og hafði um tíma úr nógu að moða. Hins vegar brá svo við að öll þjónusta á landsbyggðinni fór hríðversnandi`` --- þetta er í Ástralíu. --- ,,Þá hafa verslanir og fyrirtæki í litlum plássum hætt starfsemi sinni og margir læknar tekið til fótanna. Bilið milli borgarbúa og dreifbýlis verður stærra og stærra.``

Hljómar þetta ekki kunnuglega? Er þetta sú framtíð sem við viljum sjá? Þannig fer ef ekki er spyrnt við fótum. Stöndum vörð um grunnstoðir samfélagsins, almannaþjónustuna. Beitum afli Landssímans til að styrkja dreifikerfi fjarskipta og gagnaflutnings um allt land. Fórnum honum ekki á altari einkavæðingar ríkisstjórnarinnar, (Gripið fram í: Mammons.) á altari mammons. Þetta eru einu rökin. Það eru ekki þjónustuleg rök. Það gætu verið skuldarök ríkissjóðs þó mér finnist það dapurlegt.

Með vísun til framangreindrar umfjöllunar leggur 2. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

,,Frumvarp um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. var lagt mjög seint fram eða rúmum mánuði eftir að almennur frestur til framlagningar nýrra þingmála var liðinn. Um er að ræða umfangsmikið og flókið mál sem krefst ítarlegrar umræðu og yfirvegunar í æðstu stofnun þjóðarinnar, Alþingi. Samgöngunefnd hefur ekki á þeim stutta tíma sem henni var gefinn til verksins tekist að fara með fullnægjandi hætti yfir málið. Mikil hætta verður að teljast á því að hagsmunum landsbyggðarinnar verði fórnað verði af umræddri sölu Landssímans. Hvorki samkeppnislegar né tæknilegar forsendur eru til staðar til að umrædd sala geti átt sér stað. Rétt er að reka Landssímann hf. áfram sem opinbert þjónustufyrirtæki og beita styrk fyrirtækisins til áframhaldandi uppbyggingar fjarskiptakerfisins og til að tryggja öllum landsmönnum góða þjónustu án tillits til búsetu. Samkvæmt framansögðu samþykkir Alþingi að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.``