Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 14:56:29 (7987)

2001-05-17 14:56:29# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við vorum eitt sinn samstiga í viðhorfum í þessu máli, ég og hv. þm. Hjálmar Árnason, en af máli hans má ráða að við erum það ekki lengur. Hv. þm. sagði að mikil samkeppni væri í grunnnetsþjónustu og hún færi vaxandi og þess vegna hefði hv. þm. ekki áhyggjur af því að grunnnetið yrði selt með fyrirtækinu þegar það yrði selt, þ.e. fyrirtækið í heild sinni.

Ég ætla ekki að fara í deilur hér við hv. þm. um það hvort tiltekin borgarsvæði séu í samkeppni eða hvort tiltekin þjónusta er veitt, til að mynda þráðlaus þjónusta, hvort samkeppni sé við grunnnetið eða ekki, o.s.frv. Ég ætla ekki að fara í þessa umræðu við hv. þm., en þó er rétt að halda því til haga að flutningsgetan í grunnnetinu er vitaskuld margföld miðað við flest önnur grunnnetskerfi og ekkert annað fyrirtæki býður þjónustu á öllu landinu.

En það er aðeins ein spurning sem ég hef til hv. þm. Í dag hefur Landssími Íslands u.þ.b. 135 þús. tengingar við öll heimilin í landinu og við fyrirtækin í landinu, það er ekkert annað fyrirtæki sem hefur allar þessar tengingar, og ég spyr: Sér hv. þm. fyrir sér að samkeppni geti orðið í þessari þjónustu í framtíðinni? Vegna þess að það er einu sinni svo að öll símafyrirtækin eru að reyna að ná tengingu við neytendur hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Þess vegna er grundvallaratriði í þessari umræðu að hv. þm. geri grein fyrir því hvort hann telji líklegt að samkeppni verði á þessu sviði í framtíðinni.