Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 15:16:01 (7999)

2001-05-17 15:16:01# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Við ræðum í 2. umr. um sölu á hlutafé ríkisins í Landssímanum. Mikið af gögnum fylgdu með þessu frv. og var það í raun og veru mjög gott. Það staðfestir náttúrlega og segir okkur að þetta er mjög yfirgripsmikið mál og eru bæði 1. og 2. umr. í takt við það. Inn í þetta dragast að sjálfsögðu önnur málefni, svo sem málefni landsbyggðar og samkeppni á höfuðborgarsvæðinu sem er sem betur fer vel virk og er í gangi.

Ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, samflokksmaður minn, skilum saman áliti 1. minni hluta sem er á þá leið að aðskilja grunnnetið, dreifikerfið, áður en að sölu kemur.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði við 1. umr. en margt af því varðar sölu Símans. Ég er hlynntur sölu á samkeppnishlutanum en tel mjög nauðsynlegt að grunnnetið verði skilið frá áður.

Ég sagði líka þá að mér fyndist miður hvað þetta frv., þó lítið sé, en með miklum gögnum, þarf mikillar umræðu við um framtíðina og það sem gert hefur verið vegna Landssímans og eins því sem verður í framtíðinni og þá sérstaklega gagnvart þjónustu við þá staði úti á landi þar sem samkeppnisfyrirtæki munu ekki verða mjög áfjáð í að koma til leiks.

Þegar frv. var lagt fram sagði ég að mikill flumbrugangur væri við þetta mál og það er það sannarlega. Það kom seint fram. Upplýst var að það hefði legið inni hjá framsóknarmönnum í einn eða tvo mánuði meðan verið var að fá þá til að kyngja því að skipta um skoðun vegna þess að framsóknarmenn höfðu tjáð sig mjög afráttarlaust um að það ætti að aðskilja grunnnetið frá áður en að sölu kæmi.

Herra forseti. Málið var ekki lengi hjá samgn. og heimsóknir voru þannig að þetta álit og annað sem kom frá aðilum var eins og menn væru í spretthlaupi. Það gafst lítill tími. Örfáir aðilar fengu að gefa skriflegt álit og við aðra var talað í hálfgerðu spretthlaupi. Nægir þar sérstaklega að nefna í þessu sambandi bréf frá Alþýðusambandi Íslands. Það er stílað til samgn. og skrifað 7. maí. Efni bréfsins er frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., 707. mál. Svo kemur eftirfarandi, og það kannski segir allt sem segja þarf um þann litla tíma sem samgn. hafði og flumbruganginn við að koma þessu í gegnum þingið á síðustu dögum með óvönduðum vinnubrögðum þar sem ekki gafst nægur tími til að ræða við ýmsa aðila sem hefði verið gagnlegt að tala við og hafa meiri tíma til að ræða við þá sem komu. En Alþýðusambandið skrifar eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Alþýðusambandi Íslands barst í hádeginu í dag til umsagnar frumvarp til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf, nr. 707. Fram kom að umsögn þyrfti að berast eigi síðar en ,,kl. 16.00 mánudaginn 7. maí nk.````

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þetta er sama dag og bréfið kemur til Alþýðusambandsins, þá á að skila umsögn um frv. klukkan 16. Ég geri ráð fyrir að pósturinn hafi nú verið kominn til Alþýðusambandsins kannski um tíu- eða ellefuleytið. Svo segir Aþýðusambandið, með leyfi forseta:

,,Af ofanrituðu má ljóst vera að Alþýðusambandið hefur engar forsendur til að fjalla um einstaka efnisþætti frumvarpsins eða frumvarpið í heild. Það verður heldur ekki séð að það sé raunverulegur vilji Alþingis miðað við aðdraganda málsins.``

Ég held að ekki þurfi, herra forseti, að staldra lengur við til að finna því stað og staðfesta það sem við höfum sagt um flumbruganginn og flýtinn sem á að vera við þetta mál.

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði í morgun mjög ítarlega grein fyrir brtt. okkar tveggja við þetta frv. sem ég gat um áðan og flutti ítarlegt nál. okkar og rökstuddi það sem þar kemur fram um aðskilnað áður en til sölu kemur að grunnnetið verði skilið frá. Eiginlega má segja að þessi tillaga okkar samfylkingarmanna hafi komið fram á blaðamannafundi sem formaður Samfylkingarinnar hélt í Ólafsfirði 17. ágúst 2000. Að sjálfsögðu var mjög eðlilegt að sá fundur væri haldinn í Ólafsfirði, vegna þess að sá staður hefur farið í gegnum miklar breytingar í atvinnuháttum. Fiskvinnsla hafði t.d. lagst af að mestum hluta og þar ætluðu menn sér að stofna fyrirtæki til að fara út í þessa nýju iðngrein sem átti að vera bjargvættur fyrir landsbyggðina, fjarvinnslustörf og ýmislegt því tengt.

Ég ætla ekki að gera hv. stjórnarþingmönnum það einu sinni enn að lesa upp úr því, bæði sem hæstv. forseti þingsins, Halldór Blöndal sagði á blaðamannafundi þeirra þegar þetta var opnað, eða hvað hæstv. iðnrh., ráðherra byggðamála, Valgerður Sverrisdóttir, sagði við þessa opnun en þar taldi hún að fyrir lok mars það ár yrði eitthvað að frétta af flutningi verkefna til þessarar fjarvinnslumiðstöðvar í Ólafsfirði. Ég held, herra forseti, að þetta hafi verið eini 2000-vandinn sem kom fram á Íslandi. Það var hæstv. byggðamálaráðherra vegna þess að öll þessi störf sem áttu að koma í mars eru ekki komin enn. Með öðrum orðum, ég held að tímaklukkan hafi stoppað hvað þetta varðar hjá hæstv. byggðamálaráðherra.

Þess vegna var það að Samfylkingin efndi til blaðamannafundar um þessi atriði í Ólafsfirði á þessum tíma. Þarna höfðu öll loforð frá hendi hæstv. ríkisstjórnar verið svikin við flutning starfa og við að jafna kostnað til að reka svona fyrirtæki úti á landi og reyna að gera það þar en ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum, menn þarna höfðu mikinn baráttuhug við það að byggja upp atvinnu í Ólafsfirði eins og þeir ætluðu reyndar að gera í Hrísey líka og mörgum fleiri stöðum en þeir sátu ekki við sama borð. Kem ég að því síðar þegar við ræðum hér áfram um hinn mikla mun sem er á leigulínuverði á landsbyggð annars vegar og höfuðborgarsvæði hins vegar.

En á blaðamannafundinum var boðað að Samfylkingin teldi að jafn aðgangur að fjarskiptanetinu án tillits til búsetu væri forsenda virkrar byggðastefnu í framtíðinni. Ekki aðeins einstaklingar heldur fyrirtæki verða að hafa sömu möguleika til að nýta sér möguleika fjarskiptanetsins.

Í skýrslu sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar lét gera er kostnaður við gagnaflutning á landsbyggðinni gerður að umræðuefni. Þar segir m.a. að verði verðlagningu Landssímans ekki breytt verði gífurlega erfitt fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni að standast samkeppni við sambærileg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Til að breyta þessu taldi Samfylkingin að upplýsingahraðbrautina ætti að skilgreina sem sameign allra landsmanna með sama hætti og t.d. vegakerfið þar sem allir eiga jafnan aðgang á svipuðu verði. Dreifikerfi Landssímans hf. þarf því að skilja frá samkeppnisrekstri, mynda um það sérstakt hlutafélag í eigu ríkisins, sem verður ekki selt komi til boðaðrar einkavæðingar Landssímans hf. Þessa stefnu mun Samfylkingin leggja fram á Alþingi í formi sérstaks þingmáls sem hér er komið fram í tengslum við það frv. sem við erum nú að ræða.

Herra forseti. Það sem þarna var sagt í ágúst sl. hefur heldur betur verið staðfest af þeim fulltrúum af landsbyggðinni sem kallaðir voru til fundar við samgn. Sumir hverjir tóku á sig langt ferðalag og fengu 10--15 mín., aðrir örlítið meira, eins og ágætur gestur okkar sem kom vestan af fjörðum þar sem hann hefur verið að byggja þar upp fyrirtæki í þessum geira ásamt öðrum, sá maður fékk heilan klukkutíma. Það var eiginlega mjög undarlegt en jafnframt mjög fróðlegt að hlusta á umræður sem þar voru um þetta atriði sem mestur ágreiningur er um milli okkar samfylkingarfólks og ríkisstjórnar.

Margir þeirra sem heimsóttu nefndina voru af landsbyggðinni vegna þess að ég krafðist þess á fundi samgn. að fulltrúar af landsbyggðinni kæmu til fundar til að ræða þetta mál, með öðrum orðum ég vildi ekki að það kæmu eingöngu stjórnarmenn eða fulltrúar í einhverjum samtökum sem allir væru búandi á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að segja alveg eins og er og það er alveg eins með samkeppnina í þessu eina og hitt, að það er mjög mikill munur á hvort við erum að ræða við landsbyggðarbúa eða höfuðborgarbúa eins og hefur reyndar komið fram og verið staðfest í þessari umræðu.

Hér er samkeppni sem ég ætla að koma að síðar. Hér er mikið og gott starf sem er verið að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu að frumkvæði borgaryfirvalda með Línu.Net og förum við betur yfir það síðar.

Það kom með öðrum orðum fram, herra forseti, að þessir aðilar óttuðust að landsbyggðin yrði sett í 2. eða 3. flokk miðað við höfuðborgina hvað þetta varðar. Það má nota samlíkingu sem framsóknarmenn ættu að skilja mjög vel, að landsbyggðarbúum, mörgum hverjum, og þá er ég ekki að taka þéttbýlisstaði eins og Akureyri eða eitthvað svoleiðis, þar verður vonandi samkeppni, öðrum stöðum, verður boðið upp á reiðgötur að hætti framsóknarmanna meðan aðilar á höfuðborgarsvæðinu munu búa við malbikaðar stofnbrautir svo við notum samlíkingu úr gatnakerfinu. Það er kannski tímanna tákn að Framsfl. vilji beita sér fyrir því að landsbyggðarbúar verði áfram á moldarreiðgötum.

Þeir töldu, herra forseti, að þeir væru að tapa í samkeppninni við höfuðborgarsvæðið á þessu sviði. Það er sannarlega rétt. Gjaldskrárnar sem við höfum verið nokkrum sinnum í í morgun, og ég ætla að koma betur að á eftir, segja allt sem segja þarf. Eiginlega má spyrja að því hvort ekki sé verið að brjóta samkeppnislög með því að gera fyrirtækjum í Neskaupstað að borga 260 þús. kr. fyrir aðgang að tveggja megabæta leigulínu á mánuði meðan fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu borgar 26 þús. kr. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 1.000%. Er ekki verið að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæði hvað þetta varðar?

[15:30]

Enda kemur það fram á mörgum stöðum í skýrslu einkavæðingarnefndar að hægt sé að gera þetta eins og sagt er á bls. 88, að ekki sé nauðsynlegt að aðskilja grunnnetið frá. Síðan er talað um að það geti orðið baggi á ríkissjóði ef þetta yrði skilið frá.

Herra forseti. Ég hef oft orðið þess áskynja í þau tvö ár sem ég hef setið á hinu háa Alþingi, sem er sennilega um þessar mundir, að oft er litið á okkur landsbyggðarbúa og þá sem á landsbyggðinni búa sem bagga á þjóðfélaginu. Því miður kemur það allt of oft fram. Hér áður fyrr töldu menn t.d. að Framsfl. væri töluverður málsvari landsbyggðar en hann er það ekki lengur. Hann er það ekki lengur, samanber uppgjöf fyrir Sjálfstfl. gagnvart sölunni á grunnnetinu og að aðskilja það frá, og á svo ótal mörgum sviðum þar sem við sjáum Framsfl. fara þægan frá málum eins og þægur rakki með skottið milli lappanna, í þessu máli og ótal mörgum öðrum.

Og það má eiginlega segja að hæstv. félmrh. hafi staðfest þetta í útvarpi, í svæðisútvarpi Norðurlands, þegar verið var að ræða við hann um landsbyggðina og það sem varðar landsbyggðarfólk, flutninga hingað suður og annað. Hæstv. félmrh. komst þannig að orði að Framsfl. hafi gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu. Herra forseti. Það ber að taka ofan fyrir mönnum sem eru jafnhreinskilnir og hæstv. félmrh. er þegar rætt er um málefni landsbyggðar.

Ég sagði áðan að í skýrslu einkavæðingarnefndar sé það orðað svo að aðskilnaður af þessu, sem hægt er að gera og enginn deilir um að sé ekki hægt, gæti orðið baggi á ríkissjóði. Að aðskilja grunnnetið og krefjast þess að grunnnetinu verði haldið frá áður en að sölu kemur og ríkið eigi það meðan verið er að jafna aðstöðumun á landinu öllu hvað varðar að taka þátt í þessari fjarskiptabyltingu sem er að eiga sér stað og hefur átt sér stað og sem við horfum á að er að verða og sem betur fer, ég tek það skýrt fram, er á fleygiferð á höfuðborgarsvæðinu þannig að íbúar hér munu hafa mjög mikið val og mikla flutningsgetu inn til sín, þannig að það gæti jafnvel farið út í það að það verði nánast aldrei notað. Enda segir svo á bls. 88 um þennan kafla, með leyfi forseta:

,,Innan nefndarinnar hafa loks verið ræddar hugmyndir um stofnun sérstaks félags um grunnkerfið sem yrði í fullri eigu Landssímans, a.m.k. fyrst í stað. Nefndin vekur einungis athygli á þessum hugmyndum en gerir ekki sérstakar tillögur í því efni. Á grundvelli viðskiptasjónarmiða getur Landssíminn framkvæmt slíka skiptingu óháð einkavæðingu fyrirtækisins.``

Með öðrum orðum: Hér er það boðað að Landssíminn geti gert þetta einn og sér síðar, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson lýsti hér mjög vel í morgun hvað væri að gerast í nágrannalöndum okkar sem væru búin að fara út í að einkavæða landssímana sína.

Þetta er mikið atriði og rétt að hafa í huga vegna þess að það kann að koma upp eftir kannski ekkert allt of langan tíma að Landssíminn vilji losa sig við þennan bagga að reka grunnnetið, eins og svo ósmekklega er komist að orði í skýrslu einkavæðingarnefndar, sem kemur mér reyndar ekki á óvart.

Herra forseti. Þeir aðilar sem komu fyrir nefndina og reka þessi fyrirtæki úti um land kvörtuðu mjög yfir yfirburðastöðu Landssímans og sögðu sem svo að þeir óttuðust að Landssíminn mundi í framtíðinni svara samkeppni þar sem hún nú er en láta annað vera. Þeir töluðu einnig um það að ef einn hreyfði sig væru það spastískar hreyfingar, ef eitt fyrirtæki á landsbyggðinni hreyfði sig í þessa veru þá hreyfðist Landssíminn ósjálfrátt nokkrum dögum seinna.

Aðeins varðandi alþjónustukvöðina. Það sem reiknað er með og talað er um 128 kílóbæta flutningsgetu sem á að vera á hvert heimili, koparlínurnar sem við höfum talað um geta flutt 2.048 kílóbæt og það má eiginlega segja að alþjónustukvöðin sem á að tryggja landsmönnum þessi afköst, sem var ekki lengi á höfuðborgarsvæðinu en aðrir á landsbyggðinni munu þurfa að bíða eftir töluvert lengi, eru lítið meira en afköst af litlu faxtæki. Og það telst ekki mikil þjónusta í dag. Þess vegna hefði, herra forseti, að sjálfsögðu átt að setja ADSL inn í alþjónustuskilyrðin og setja það sem skilyrði fyrir sölunni en ekki sem samkomulag milli hæstv. samgrh. og Landssímans eins og gert hefur verið.

Það eitt að aðskilja grunnnetið áður en að sölu kemur gerir það einnig að verkum að það væru ekki allir að grafa. Það vill vera svo stundum með okkur Íslendinga, herra forseti, að við tökum ýmislegt með trompi. Ég hef stundum tekið það sem dæmi hvað við Íslendingar erum nýjungagjarnir og tökum allt með trompi, eins og við séum bara að koma af vertíð í Vestmannaeyjum 11. maí og þá skal allt kaupa. Við tókum okkur einu sinni til og flutt voru inn Clairol fótanuddtæki, nokkur stykki til landsins, það átti að vera jólagjöfin það árið. Ég held að það hafi endað með því að þetta fékk svo góðar og miklar viðtökur að sjö 40 feta gámar komu til landsins og seldist allt og hefði vantað meira en það var bara engin ferð fyrir jólin. (MS: Átt þú svona?) Nei, hv. þm. Magnús Stefánsson, en ég get útvegað hv. þm. svona tæki ef hann vill. Ég get auglýst fyrir hv. þm. í smáauglýsingum að hann óski eftir svona tæki til kaups og þá verður nóg að gera í heimtauginni til hv. þm. Það verður mikil traffík í gegnum þá línu og hætt við að ekki verði hægt að hafa kveikt á tölvunni á meðan.

Ég vil segja þetta, herra forseti, af því að ég ætla að taka sem dæmi að það að aðskilja ekki grunnnetið frá sölu og hafa það í sérfyrirtæki sem allir munu bera við skulum segja sama hug til og eru ekki tortryggnir gegn, að það er mjög þjóðhagslega óhagkvæmt að hafa þetta þannig að hver og einn aðili telji sér það best að leggja sinn eigin ljósleiðarastreng. Það er alveg með ólíkindum ef við ætlum að hafa það þannig að fyrirtæki sem vill fara inn á markaðinn, t.d. á Akureyri, að lagðir verði kannski fimm, sex strengir eða meira norður til Akureyrar. Flutningsgetan er það mikil í dag, þeir strengir sem eru í dag geta flutt allt að 2,5 gígabæt á sekúndu. Og við þurfum ekki að mati sérfræðinga að hafa áhyggjur af burðargetunni á næstu árum, næstu fjölmörgu árum eins og sumir segja. Flutningsgetan er nægjanleg en þessir aðilar eru að gera þetta vegna þess að þeir hafa lent í viðskiptahindrunum, jafnvel viðskiptastríði við Landssímann.

Einnig kom fram á fundi nefndarinnar hjá þeim aðilum sem heimsóttu okkur, þar voru menn spurðir út í þessi atriði, spurðir út í þau atriði sem ýmis landsbyggðarfyrirtæki hafa verið að kvarta yfir, að það taki mjög langan tíma að Landssíminn klári og þjóni þessum fyrirtækjum og uppfylli óskir þeirra. Og það hefur stundum verið svo skrýtið og mikil tilviljun að rétt eftir að þessi viðkomandi fyrirtæki hafa lagt inn beiðni sína, þar með talið til viðskiptavinarins hvert eigi að leggja línurnar og sambandið, þá hafa komið aðilar frá Símanum og boðið sömu þjónustu. Það er út af þessu sem fulltrúar bæði fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og eins af landsbyggðinni sögðu að tortryggni væri ríkjandi milli þessara aðila. Enda var það svo að ég fékk á fundi skilmála fyrir leigulínum frá forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar, skilmála fyrir leigulínum sem Landssíminn setti og gaf út 7. sept. 1999. Þar er t.d. getið um að afgreiðslutími fyrir tallínu, sem er með einhverjum stöfum og öðru sem ég ætla ekki að lesa hér upp, sé fimm virkir dagar eða minna. Og að dæmigerður afgreiðslutími fyrir 64 og 2.048 kb/s stafrænar línur sé tíu virkir dagar eða minna, miðað við að fullnægjandi pöntun liggi fyrir. Ég spurði þessa aðila á fundi nefndarinnar hvort þeir gætu sagt að þetta gengi svona fyrir sig. Ég fékk svar. Ég fékk svar sem var nánast á táknmáli. Ég fékk bros og hlátur. Það gat enginn staðfest að þetta væri svona. Og tekin voru dæmi þar sem menn höfðu pantað línur til ákveðinna viðskiptamanna sem lá á að fá slíka þjónustu frá þessum sprotafyrirtækjum á landsbyggðinni og fram kom að það voru fjórir til átta mánuðir sem höfðu farið í að bíða eftir samböndum.

Herra forseti. Þetta er líka enn einn rökstuðningurinn fyrir því að nauðsynlegt er að aðskilja grunnnetið frá áður en selt er og það sé rekið í sérfyrirtæki, sérhlutafélagi í eigu ríkisins þar sem allir hafa aðgang, sama hvort það er Íslandssími á höfuðborgarsvæðinu eða Tölvumiðstöð Austurlands á Austurlandi eða einhverjir aðrir.

Vegna þess að varaformaður samgn., hv. þm. Hjálmar Árnason, margtók það fram áðan að ekki ein einasta kvörtun eða kæra hefði borist til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þessara þátta vil ég segja að það kom fram, herra forseti, að þessir aðilar veigruðu sér við eins lengi og hægt væri að senda inn kæru. Og það kom fram hjá einum aðilanum að allt að 30% af tíma hans, tíma forstjórans, færi í að kljást við Landssímann og berjast fyrir því að fá þau sambönd sem óskað væri eftir. Með öðrum orðum, þetta var alltaf að rekast á.

Það kom fram að menn sæju ekki hvernig þetta gæti gengið áfram. Það var á þeim fundi sem forstjóri Íslandssíma, sem sat þarna inni á sama tíma vegna þess að allir þurftu að koma á sama tíma, ekki var mikill tími til að skilja þarna í sundur og hafa menn sitt í hvoru lagi, það var á þeim tímapunkti sem forstjóri Íslandssíma sagði eitthvað á þá leið að hann dáðist að því og skildi ekki reyndar hvernig þessi fyrirtæki á landsbyggðinni væru enn þá á lífi miðað við þá stöðu sem þau væru í, bæði hvað varðar verð og þjónustu frá Landssímanum gagnvart grunnnetinu.

Ekki þarf oft að fara langt frá Reykjavík, herra forseti, þar sem ljósleiðarinn byrjar að telja, þar sem 0-kílómetrinn er í verðskrá Landssímans, til að sjá það og fá lýsingar á því að þessi ofurháu gjöld, þessi ósanngjörnu gjöld eins og menn sögðu hvað varðar leigulínur og annað, og tek ég þó skýrt fram að það var lagað verulega 1. nóv. 2000, að menn væru að súpa seyðið af þeim u.þ.b. 100 km sem þeir voru á, rekstrarsvæði þeirra. Einnig kom fram að menn hefðu miklar áhyggjur af því að landsbyggðin mundi sitja eftir vegna fjarlægðarinnar í samkeppninni hvað þetta varðar og fyrirtæki sem ætluðu sér í samkeppni á þessu svæði, mundu hreinlega ekkert sinna ákveðnum stöðum á landsbyggðinni.

[15:45]

Herra forseti. Ég ætla að reyna að hverfa frá því sem ég hef gert að umtalsefni og ég hef mestar áhyggjur af, þ.e. að landsbyggðin muni ekki, m.a. vegna fámennis, sitja við sama borð og höfuðborgarsvæðið hvað þessa framtíðarþróun varðar. Framtíðarþróun og uppbygging atvinnu á landsbyggðinni getur orðið í gegnum þá miklu tæknibyltingu sem hefur átt sér stað, atvinnuuppbyggingu sem þarf ekki frystitogara, þarf ekki kvóta, þarf ekki frystihús en þarf ekkert nema bara eðlilegt rekstrarumhverfi og sanngjarna verðskrá. Það er það sem ég vil enda á að segja. Ég óttast mjög að það að selja grunnnetið með verði til þess að landsbyggðin sitji eftir í þessum efnum.

Herra forseti. Reyndar er mjög nauðsynlegt vegna þess sem hér hefur verið sagt og rætt um og nokkrir hv. þm. Framsfl. eru nú að reyna að bera til baka og segja að þeir hafi ekki sagt þetta í nafni Framsfl., heldur bara sem einstaklingar. Það er sannarlega rétt að rifja þetta upp enn einu sinni. Nokkrum sinnum hefur verið vitnað í ummæli hv. þm. Hjálmars Árnasonar þegar hann sagði svo og tók mjög skýrt fram og var mjög hvassyrtur, með leyfi forseta:

,,Ég hef enn ekki séð rök fyrir öðru en því að ríkið eigi áfram netið og leyfi fyrirtækjum að keppa þar og veita landsmönnum öllum sem besta þjónustu rétt eins og á þjóðvegum landsmanna. Þannig tryggjum við jafnan aðgang allra landsmanna að fjarskiptum. Þannig tryggjum við áframhaldandi eðlilega þróun á sviði fjarskipta og þannig komum við í veg fyrir að hér á landi skapist Microsoft-ástand í fjarskiptum.``

Svo mörg voru þau orð framsóknarþingmannsins sem keppist nú við að réttlæta kúvendingu þeirra framsóknarmanna hvað varðar grunnnet Landssímans.

Varaþingmaður hæstv. félmrh., Árni Gunnarsson, tók líka mjög djúpt í árinni hvað þetta varðar. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég vil taka undir þær áhyggjur sem hér hafa komið fram um þessi mál. Ég er þeirrar skoðunar og vil láta það koma skýrt fram að ég er andvígur því að selja það grunnnet sem felst í lagnakerfi Landssímans hf. Ég er þeirrar skoðunar að þetta net eigi að vera aðskilið, og til þess að tryggja samkeppni og tryggja jafnrétti, m.a. milli landshluta að þessu neti, þá tel ég óæskilegt að það sé selt með Landssímanum hf.``

Herra forseti. Hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hefur líka fjallað um þessi atriði. Ráðherra sagði það ekki á sama tíma og hún gaf yfirlýsingarnar um öll störfin sem átti að flytja til Ólafsfjarðar, sem ég fór yfir hér áðan, en á heimasíðu ráðuneytisins mátti finna ýmislegt í þessum dúr. E.t.v. er það allt farið núna, búið að taka það út, en þar mátti m.a. finna eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þar sem þjónustusalan er hinn raunverulegi samkeppnisrekstur er litið svo á að þennan hluta Landssímans hf. eigi við fyrsta tækifæri að selja (einkavæða). Aftur á móti ætti að fara hægar í að einkavæða rekstur grunnkerfisins, mikilvægara er að halda áfram og ljúka uppbyggingu þess.``

Svo kemur fram tillaga:

,,Landssímanum hf. verði skipt í tvö sjálfstæð fyrirtæki. Annars vegar fyrirtæki sem á og rekur grunnkerfið, þ.e. dreifikerfið ásamt nauðsynlegum búnaði, og hins vegar fyrirtæki sem annast almenna síma- og fjarskiptaþjónustu.``

Í megináherslum iðn.- og viðskrh., byggðamálaráðherra hæstv., fyrir 2001--2003 segir m.a.:

,,Upplýsinga- og fjarskiptatækni mun gegna veigamiklu hlutverki fyrir þróun búsetu á landsbyggðinni. Hún mun bæði bera upp nýja atvinnustarfsemi og vera veigamikill þáttur í því að jafna aðstöðu og lífskjör landsmanna.``

Herra forseti. Náttúrlega er til allt of mikils mælst að reikna með því að hæstv. byggðamálaráðherra sé nú við umræðu um sölu Landssímans og það að selja grunnnetið með. Vafalaust getur hæstv. byggðamálaráðherra komið upp eins og aðrir framsóknarmenn og reynt að skýra út fyrir okkur hvers vegna þeir hafa algjörlega skipt um skoðun.

Ég held að það sé svo í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum að þarna hefur Framsfl. þurft að lúffa fyrir Sjálfstfl., með öðrum orðum, Sjálfstfl. hefur gengið yfir Framsfl. í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Framsóknarmenn hafa farið undan, rétta hendur upp í loft og segja: Við gefumst upp. Það er aumt hlutskipti.

Herra forseti. Á bls. 6 í nál. okkar sem skipum 1. minni hluta sjáum við hvernig verðþróun hefur verið hjá Landssímanum hvað þetta varðar og við sjáum hvernig það var 1. jan. 1998. Þá kemur þar fram að leigulínuverð fyrir 2 Mb samband í Reykjavík var 31.615 kr. Þetta var á þeim tíma sem ATM samband var ekki í boði. Það var vegalengd frá Múlastöð, að sjálfsögðu 0 km, þetta er mælt út frá því. En ef við förum austur á Neskaupstað á þessum tíma, 674 km lengd, var verðið 1. jan. 1998 tæpar 760.000 kr. Þetta er e.t.v. á þeim árum sem landsbyggðarfyrirtækin á þessu sviði voru að byrja að byggja sig upp og menn fóru hér um, ráðherrar eins og utanrrh. sem fór austur á firði til að opna Íslenska miðlun á Stöðvarfirði að mig minnir, ég hef áður getið um ferðalag hæstv. forseta Alþingis og hæstv. byggðamálaráðherra, sem þá var hv. þm. Norðurl. e., var ekki orðinn byggðamálaráðherra, til Ólafsfjarðar.

Ég spyr: Hvernig í ósköpunum áttu þau fyrirtæki að geta byggt sig upp? Er nokkuð furðulegt að í dag skuli þessi fyrirtæka vera þannig að þau hafi verið orðin nánast gjaldþrota og björgunaraðgerðir séu í gangi til að koma þeim aftur á fót? Við vitum hvernig fyrirtækin fóru fyrir vestan. Er ekki búið að loka Íslenskri miðlun, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, í Bolungarvík? Hefur því fyrirtæki ekki verið lokað? Ætli það hafi verið sanngjörn samkeppni að fyrirtæki í Bolungarvík þurfti á þessum tíma að leigja sér línur og borga fyrir það 575.000 kr. á meðan fyrirtæki í Reykjavík borguðu 31.000? Þannig var þetta í upphafi þeirra tíma sem við erum að ræða hér um, í janúar 1998.

Ég hef áður gert að umtalsefni og það kemur fram í nál. okkar að þessi fyrirtæki kvörtuðu mikið yfir þessu verði. Þau kvörtuðu mikið og sögðu að þetta væri ójafn leikur, sem allir geta verið sammála um. Það hafi skert mjög samkeppnisstöðu þessara aðila og þau kvörtuðu mjög yfir þessu og voru skrifaðar um það fjölmargar greinar. Það voru aðilar sem gengu hver undir annan við að fá þessu breytt. Hæstv. samgrh., á aðalfundi Landssímans, ég held það hafi ekki verið 2000 eins og stendur í nefndaráliti okkar, heldur 1999, eyddi töluverðum tíma í ræðu sinni við það að hálfpartinn krefjast þess af stjórn Landssímans að leigulínuverðskrá og annað yrði jafnað og það yrði lækkað. Það varð til þess að út kom ný gjaldskrá í lok árs 1999 þar sem leigulínuverðið lækkaði töluvert mikið. Auðvitað ber að þakka það. En betur má ef duga skal.

Á þessum tíma og eftir þessa breytingu kostar það höfuðborgarfyrirtækið rúmar 25.000 kr. á mánuði að leigja tveggja Mb samband meðan það kostar fyrirtæki á Norðfirði 266.000 kr. --- 266.000 kr. --- munurinn er 1.000%, tífaldur munur. Hvernig í ósköpunum á þetta að vera hægt? Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt, herra forseti, að þessi fyrirtæki keppi á jafnréttisgrundvelli? (Gripið fram í.) Leigulínuverðið á höfuðborgarsvæðinu hafði lækkað um 27% og það er mesta lækkun sem til er í þessari töflu. Hún var á höfuðborgarsvæðinu. Hún var miklu minni alls staðar annars staðar --- 18, 16, 15, 12% á landsbyggðinni. En 27% lækkun á höfuðborgarsvæðinu.

Það var töluvert mikill munur á því sem áður var, ef við tökum sem dæmi Neskaupstað, en þar fór verðið eins og ég sagði niður í 266.000 kr. úr 760.000, sem hafði verið 1. júní 1999. Þá þurfti þessi aðili að borga 760.000 kr. Það lækkaði umtalsvert. En betur má ef duga skal.

Hér hefur hv. þm. Hjálmar Árnason m.a. eytt miklum tíma í að ræða um ATM, sem er bara hið besta mál, sem er selt á 32.000 kr. alls staðar á landinu innan ATM-svæða. En hann gat líka um að það kostaði 17.000 kr. meira fyrir þá sem væru utan ATM-svæðis. Er þarna eitthver sanngirni eða réttlæti gagnvart samkeppni og samkeppnissjónarmiðunum? Ég held nú síður.

Herra forseti. Á fundi samgn. var líka töluvert rætt um koparlínurnar svokölluðu, heimtaugarnar, sem Landssíminn hefur byggt upp í gegnum öll rekstrarár sín, á þeim árum sem ég kann ekki einu sinni að segja frá þar sem Landssíminn hefur örugglega fengið fé úr ríkissjóði, jafnvel á upphafsárum sínum, til að leggja heimtaugar og hér hefur verið lýst mjög vel af hv. þm. Jóni Bjarnasyni hvernig menn tóku að sér að bera staura og annað slíkt til að koma símanum til sín. Þessar koparlínur hafa legið í jörð í 70--80 ár og verið vafalaust margsinnis afskrifaðar. Þessar koparlínur sem eru í kringum 140.000 talsins, þ.e. í 95.000 heimilum og um 45.000 fyrirtækjum, eru leigðar út í dag á 1.111 kr. til einstaklinga.

[16:00]

Hér hefur áður verið rakið hvernig þetta leigulínuverð hækkaði þegar reikisamningar og annað tóku gildi, þegar samkeppnisaðilar Landssímans áttu að fara að nota þessar línur sem auðvitað var sjálfsagt og eðlilegt, vegna þess að ekki viljum við að öll sveitarfélög fari að grafa upp og leggja nýjar línur á hvert heimili, heldur skal nota þá fjárfestingu sem þegar hefur verið gerð og þær línur sem eru fyrir og hafa næga burðargetu og flutningsgetu. Þetta eru 1.111 kr. Þetta verð hækkaði þegar Landssíminn fór að skoða þessa þætti í bókhaldi sínu. Þá hækkuðu þeir úr rúmum 500 kr. í þessar 1.111 kr.

Áður höfum við rætt um það að í þessu heimtaugar- eða afnotagjaldi voru svo og svo mörg skref innifalin, sem duttu út vegna samkeppnissjónarmiða og allt í lagi með það.

En það hefur líka komið fram og kom fram í umræðu hér sennilega fyrir áramót eða á vorþinginu síðasta, hvernig þessi hækkun leiddi til mikillar hækkunar, sérstaklega hjá öldruðum. Og því hafa aldraðir sannarlega fundið fyrir.

Eins og ég segi þá er þetta útskýrt. Það hefur sem betur fer verið gert og samkeppnislög krefjast þess að þetta sé aðskilið í bókhaldi Landssímans og það hefur verið gert.

Það kom fram hjá fulltrúum Starfsmannafélags Landssímans, að mig minnir, að starfsmenn Landssímans væru 1.380 talsins og þar af störfuðu um 400 við grunnnetið. Mér brá því hér í morgun, en hygg að það hafi nú bara kannski ekki verið alveg rétt munað, þegar hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir gat þess í andsvari við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að 450--480 starfsmenn störfuðu við grunnnetið. Ég hygg að starfsmönnunum hafi ekki fjölgað svona mikið, en ég hafði skrifað eftir þessum fulltrúum starfsmannafélagsins að þeir væru í kringum 400 talsins. Og þeir eru sannarlega teknir inn í þetta verð. Þetta er í kringum 30% af starfsmönnum Landssímans en ekki hef ég neina aðstöðu til þess að geta mér til um það hvernig þetta er mannað og hvernig þetta er sett niður. En þetta kemur sannarlega inn í þá verðskrá sem þarna er gerð, sem hoppaði svona svakalega upp, jókst um einhver 200 eða 300% eða hvað það nú var við þessa breytingu.

En það skringilega var að fulltrúi Íslandssíma sem mætti á fund samgn. og hefur verið að boða samkeppni í heimilissímum, og er kannski kominn í það á fullu, þessi aðili þarf að borga 1.000 kr. fyrir þessa heimtaugarlínuleigu á mánuði. Það kostar með öðrum orðum 1.000 kr. á mánuði að leigja koparinn eingöngu. Og það er þá þessa samkeppnisaðila að setja upp endaútbúnað, bæði hjá notanda og í sinni stöð. Það kom fram hjá aðilum sem komu á fund samgn. að menn töldu þetta allt að því okurverð. Þetta er sannarlega hátt. Á því er ekki nokkur vafi. Og það kom fram tortryggni við þessa útreikninga og sagt var að það væri allt of mikill hvati til þess að auka kostnað við rekstur grunnnetsins.

Enn fremur kom fram hjá þessum aðila að ef menn aðskildu ekki grunnnetið frá, eins og hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera, þá hefði verið eðlilegt að eyða allri óvissu um hlutdrægni og annað slíkt með því að breyta fjarskiptalögum og efla Póst- og fjarskiptastofnun, áður en til sölu Landssímans kemur.

Herra forseti. Ég ítreka það enn og aftur og segi: Það hefði sannarlega verið heppilegra að skilja þarna algjörlega á milli. En ríkisstjórnin ætlar ekki að fara þá leið, því miður. Því hefði verið eðlilegra að gera þetta áður.

Það á ekki að hafa samkeppnisgrundvöllinn og rekstrarskilyrði fyrirtækja þannig að mestur tími manna fari í karp og þref við markaðsráðandi aðila, jafnvel með yfirburðamarkaðsstöðu, við að fá þjónustu sem beðið er um, eða að sífelld tortryggni sé í gangi, að maður tali nú ekki um eins og getið er um í áliti Samkeppnisstofnunar, þar sem samkeppnisaðilar eru að leggja gögn inn til samkeppnisaðilans og sýna öll sín spil og hlutirnir eru teknir og notaðir í því sambandi.

Herra forseti. Það kemur líka fram í áliti Samkeppnisstofnunar að keppinautar á þessum markaði eru knúnir til viðskipta við aðalkeppinautinn. Þetta er mjög skringileg staða.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir þá þætti sem mér finnast skipta langmestu máli í sambandi við þennan aðskilnað og tek skýrt fram að ég ætla ekki að fara hér inn á samkeppnissviðið hvað það varðar. Ég fagna því mjög og mér finnst það mjög gott að það er mikil samkeppni á höfuðborgarsvæðinu í þessari starfsemi. Það er allt hið besta mál. Ég verð að segja líka alveg eins og er að ég hef séð og fengið inn til mín á bústað minn á höfuðborgarsvæðinu gögn frá Línu.Net yfir það sem það ágæta fyrirtæki er að gera. Ég get ekki annað og vil nota þetta tækifæri til þess að óska höfuðborgarbúum innilega til hamingju með það mikla framtak, dugnað og framsýni sem borgaryfirvöld hér í Reykjavík hafa sýnt með því að stofna Línu.Net og að Lína.Net taki þátt í þeirri miklu byltingu sem er að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu með lagningu ljósleiðara inn á, ég held bara, hvert einasta heimili í Reykjavík og sveitarfélögunum í kring. Þetta nota ég m.a. sem rök fyrir því þegar ég segi að landsbyggðin eigi að sitja eftir, eða muni frekar réttara sagt sitja eftir, vegna þess að grunnnetið verður ekki aðskilið. Ég óttast, eins og ég hef margsagt, að samkeppni muni ekki verða til staðar á fjöldamörgum stöðum á landsbyggðinni og landsbyggðin muni sitja eftir í núverandi tæknibyltingu og þeirri tæknibyltingu sem er fram undan og sem sýnir sig best í því mikla framtaki, dugnaði og framsýni sem Lína.Net er að bjóða hér upp á með því sem þeir kalla ljósleiðarann.

Lína.Net er að bjóða fólki á höfuðborgarsvæðinu stafrænt, gagnvirkt sjónvarp sem getur verið upp á 55 sjónvarpsstöðvar, þrjár kvikmyndir að eigin vali, íslenska sjónvarpsþætti eins og hver vill, tónlistarmyndbönd, íþróttaefni að vild, barnaefni, fræðsluefni, tölvupóst í sjónvarpi, netaðgang í sjónvarpi, 20 leiki o.s.frv., fyrir 6.500 kr. á mánuði, þ.e. 6.500 kr. á mánuði fyrir þessa miklu þjónustu sem Lína.Net er að bjóða hér upp á.

Herra forseti. Af tillitssemi við þá sem hafa beitt sér og telja sig vera að beita miklu réttlæti með verðskrá sem hér er boðið upp á ætla ég ekki að nefna þær tölur aftur. Ég ætla aðeins að geta þess aftur að fyrir það sem ég taldi hér upp, mikla flutningsgetu og annað slíkt, þá eru borgaðar 6.500 kr. fyrir þessa tengingu. Enda er það svo að nokkuð margir aðilar hafa fjallað um þessi atriði þegar þeir eru að rökstyðja það hvers vegna ekki eigi að selja grunnnetið með.

Ég ætla aðeins að grípa niður í einn pistil sem fjallar aðeins um þetta. Hann segir kannski meira en margt annað í þessu sambandi. Það er álit sem hér er fjallað um sem hefur birst í fjölmiðlum og grein sem heitir Netin þrjú. Þar kemur m.a. fram hvað muni gerast í framtíðinni varðandi flutningsgetu, ljósleiðara eða koparlínur, landsbyggð eða höfuðborgarsvæði. Það er þetta sem ég óttast. Í þessari ágætu grein sem birtist í Morgunblaðinu segir --- ég sé því miður ekki eftir hvern er --- en, með leyfi forseta, ætla ég að lesa þetta upp:

,,,,Um leið og menn fara að kaupa kvikmyndir yfir Netið eða flytja stóra gagnagrunna þurfa þeir vitanlega miklu meira,```` --- meiri flutningsgetu --- ,,segir Örn, en þess má geta að hreyfimynd í fullum gæðum þarf 45 megabita hraða á sekúndu og þannig tekur á áttunda klukkutíma að sækja sér kvikmynd í fullri lengd með hraðvirkri ADSL-tengingu, en ekki nema fjórar sekúndur með ljósleiðaratengi.``

Herra forseti. Þetta er áhyggjuefni mitt. Hið mikla og góða fyrirtæki Lína.Net sem eins og ég sagði áðan er að gera mikla og góða hluti á höfuðborgarsvæðinu að frumkvæði borgaryfirvalda í Reykjavík, er að gera það að verkum að höfuðborgarbúar geta m.a. náð sér í fullkomna kvikmynd í fullkominni lengd á fjórum sekúndum, meðan aðrir munu þurfa að sækja hana á átta klukkustundum.

Hæstv. samgrh. Mér er það sönn ánægja að lána þér þennan pésa til að lesa. Gjörðu svo vel.

Þannig er þetta nú, herra forseti, það er þarna sem skilur á milli. Og ef svo fer sem fram horfir að þetta verði gert sem ég efast ekki um að stjórnarliðar munu berja hér í gegn og samþykkja, þá getur það þýtt það að fyrirtæki munu fara að grafa þvers og kruss á þá markaði sem þeir telja sig geta farið inn á, þar sem stór svæði eru. Aðrir munu sitja eftir. Hins vegar er það ekki mjög þjóðhagslega hagkvæmt að allir fari að grafa hér í sundur og leggja ljósleiðara út um allt.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð mikið verið rætt um fyrirhugaða sölu og hvaða áhrif hún muni hafa á hlutabréfamarkaðinn. Til samgn. komu m.a. fulltrúar frá Íslandsbanka -- FBA, greiningardeild, og frá Kaupþingi. Hér hefur verið farið yfir það hvernig þessir aðilar töldu að þetta mundi lyfta hlutabréfamarkaðnum upp, annars daufum hlutabréfamarkaði á Íslandi. Vafalaust er það rétt að það verður til þess. Það kom líka fram hjá þessum aðilum að sannarlega bíði margir eftir því að kaupa hlutabréf í Landssímanum, m.a. hafi lífeyrissjóðir haldið að sér höndum og ekki flutt eins mikið fé úr landi vegna þess að verið er að bíða eftir Landssímanum. Þetta er talið lyfta markaðnum töluvert mikið upp og sennilega veitir ekki af. Líka var spurt út í verðgildi Landssímans, þ.e. hvert það væri. Við höfum séð það að eitt fjármálafyrirtæki, verðbréfadeild Sparisjóðs Hafnarfjarðar, hefur gefið út hvernig þeir verðmeta Landssímann. Þeir hafa nefnt tölur, að mig minnir 41--47 milljarða eða eitthvað svoleiðis. En það hefur líka komið fram að verðgildi Landssímans hefur dottið mjög niður, allt að því kannski hrapað, frá því þessi markaður stóð sem hæst fyrir einu ári. Af mikilli umhyggju hafa ýmsir sagt, þar á meðal ýmsir hv. stjórnarþingmenn, að það hefði verið óðs manns æði að selja Landssímann fyrir einu ári á því háa gengi sem þá var á hlutabréfamörkuðum, þegar þessi fyrirtæki voru verðlögð svo hátt sem raun bar vitni, það sé betra að selja þetta í dag þegar verðið hefur töluvert mikið dottið niður. Þetta er í raun alveg rétt með tilliti til hagsmuna þeirra sem munu kaupa hlutabréf.

[16:15]

En ég vil líka aðeins geta þess að þegar menn eru að nota þetta sem röksemdafærslu og vísa til Svíþjóðar og nefna það þegar fyrirtæki þar voru einkavædd og seld og hlutabréf hafa lækkað í þeim fyrirtækjum, og segja síðan: almenningur situr eftir með sárt ennið. Það eru nefnilega fleiri en almenningur, herra forseti, sem munu kaupa í Landssímanum og almenningur fær ekkert að kaupa neitt voðalega stóran hlut. Að því leytinu er það kannski ágætt að það sé selt á þessum tíma og almenningur eigi þess kosta að kaupa á lægra gengi en hefði verið fyrir ári. En ég vil einnig vekja athygli á því að aðrir stórir aðilar sem munu bíða eftir því að fá að keppa um að kaupa sér ráðandi hlut í Landssímanum eiga þá að njóta þess í leiðinni. Menn eru því hér að nota ímyndaða og ætlaða almenningssölu sem rökstuðning fyrir því að selja þetta þegar verðið er lægra, en ég vil aðeins vekja athygli á því, herra forseti, að aðrir munu fá að njóta þeirra ávaxta sem verða boðnir þar fram.

Það kom einnig fram, ef við tölum um samkeppni, að á þeim tíma sem við ræddum þessi mál var fundur í samgn. á degi sem menn hafa stundum nefnt ,,hinn svarta efnahagslega dag``, sem var ekki alls fyrir löngu þegar gengi íslensku krónunnar féll um 6% á einum og sama deginum, þegar það gerðist að amerískur dollar fór allt í einu upp í 103 kr. Það var náttúrlega ákaflega skemmtilegt að hlusta á hæstv. forsrh. um daginn tala um það að þessi 6% væru öll gengin til baka og að manni fannst væri öll efnahagsspá farin þegar 6% prósentin voru farin, en eftir stóð, herra forseti, 14--15% gengisfelling frá áramótum.

Þetta segi ég hér og tek sem dæmi vegna þess að þeir aðilar sem eru í samkeppni á þessum markaði, sérstaklega farsímamarkaðnum, kvörtuðu yfir því og sögðu að ein mesta ógnun við samkeppni á þessum markaði væri einmitt á þeim dögum sem við vorum að funda. Og það var vegna gengisfellingar þessa dags, um 6%, og vegna gengisfellingar og gengissigs --- það er nú reyndar ekki hægt að kalla þetta sig, frekar gengishrun, frá áramótum um 20% --- og að efnahagsstefnan eins og hún er í dag og efnahagslífið eins og það væri að þróast væri langmesta ógnunin við samkeppnina á þessum markaði eins og hún er, þar sem skuldir þessara samkeppnisfyrirtækja eru allar í erlendri mynt. Þetta eru ung fyrirtæki, skulda e.t.v. mikið, tekjurnar eru í íslenskum krónum, viðhald, varahlutir og tækjakaup eru allt í erlendum gjaldeyri. Gengisbreytingin var því mesta ógnunin við samkeppni í fjarskiptum sem hafði orðið um langa hríð.

Þetta vildi ég aðeins koma með hér inn í umræðuna, herra forseti, þegar verið er að ræða um fyrirhugaða sölu Landssímans og hvaða áhrif hún kann að hafa á markaðnum. Þetta kann að hafa áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja. Þetta kann að hafa það.

Herra forseti. Ég ætla rétt í lokin að fjalla um það sem kemur fram í fréttabréfi Opinna kerfa. Þar er viðtal við Benedikt Gröndal, mann sem heitir því ágæta nafni sem ég hef nú ekki tekið eftir fyrr en núna, forstöðumann gagnaflutninga Símans, þar sem hann er að ræða um þessi efni í grein sem heitir IP-væðing fjarskiptanets Símans. Þetta er mjög fróðleg grein og sýnir okkur í raun og veru hvað það er erfitt fyrir okkur alþingismenn, við skulum segja amatöra, að ræða um þessi tækniatriði sem breytast svo rosalega ört sem raun ber vitni. Í kafla sem heitir Vegkerfi og vegvísar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,,,Öll þessi umræða um netkerfi og gagnaflutning kann að hljóma nokkuð flókin, en samlíkingin við vegakerfið er nokkuð hentug til að skilja betur um hvað þetta snýst,`` segir Benedikt. ,,Allir þessir gagnaflutningar fara fram um ljósleiðarakerfi Símans sem nær um allt land. Ef það kerfi er vegurinn, þá eru Cisco-svissarnir nokkurs konar vegvísar sem beina umferðinni þangað sem hún á að fara. Svissarnir ,,tala`` tungumál IP-staðalsins og nota MPLS til að tala saman og vera fljótari að beina gagnaumferðinni á áfangastað. MPLS`` --- hvað sem það nú er --- ,,eru þannig nokkurs konar burðarlag fyrir háhraðaþjónustu og með þessari tækni getum við nýtt okkur flutningsgetu ljósleiðarans enn betur, enda er það alltaf að koma betur fram að það er ekki nóg að eiga ljósleiðara, tæknin til að nýta hann vel verður einnig að vera fyrir hendi.````

Svo mörg voru þau orð og segir kannski meira en mörg önnur orð um á hvers konar hraðferð þessi þróun öll er, hraðferð sem við skulum vona að allir íbúar landsins fái að vera farþegar í, að íbúum landsins verði ekki skipt upp, herra forseti, á 1. og 2. farrými í slíkri ferð, heldur vilji menn hafa jafnræði og jafnrétti milli allra þegna landsins, hvort sem þeir búa í Reykjavík eða Raufarhöfn, Ísafirði eða Neskaupstað, Stykkishólmi eða Vestmannaeyjum.

Við þurfum, herra forseti, að hafa umhverfið þannig að fyrirtæki geti búið við sömu rekstrarskilyrði á þessum stöðum hvað varðar nýtingu á öllum þeim kerfum sem boðið er upp á. Við þurfum líka að bjóða upp á það að íbúar á Raufarhöfn og íbúar í Reykjavík geti innan ekki allt of langs tíma búið við sömu möguleika á að nýta sér þá byltingu sem ég hef gert hér að umtalsefni, þar sem kvikmyndir í fullri lengd verða jafnvel fluttar milli landshorna á fjórum sekúndum og menn geta síðan stillt á tækið og horft á það eftir því hvernig ýmislegt annað þróast á heimilinu.